Huga þarf að fjárfestingartíma áður en ákvörðun um fjárfestingu er tekin. Fjárfestingarstefna sjóðs segir til um markmið með eignasamsetningu sjóðsins, en eignir geta ýmist verið innlán, ríkisvíxlar, skuldabréf, hlutabréf og/eða aðrir fjármálagerningar.
Hlutabréf hafa að jafnaði meiri gengissveiflur en skuldabréf. Skuldabréf með langan meðallíftíma eru svo almennt háð meiri gengissveiflum en skuldabréf með stuttan meðallíftíma. Ávöxtun og þróun á gengi sjóðs ákvarðast af breytingum á verði þessara undirliggjandi eigna. Hægt er að áætla út frá fjárfestingarstefnu sjóðs hvort líklegt sé að miklar sveiflur verði á gengi undirliggjandi eigna, og þar af leiðandi gengissveiflur sjóðsins, til skemmri og lengri tíma.
Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að gengissveiflur geta bæði verið jákvæðar og neikvæðar.
Fjárfestir A sem ætlar að ávaxta fjármagn í skamman tíma myndi velja sjóð með stuttan meðallíftíma og litlar gengissveiflur til að draga úr líkum á að tap verði á fjárfestingunni vegna neikvæðra skammtíma gengissveifla.
Fjárfestir B gæti haft meira áhættuþol vegna þess að hann hyggst fjárfesta til lengri tíma. Slíkur fjárfestir gæti frekar kosið að fjárfesta í sjóði sem hefur meiri gengissveiflur og tilheyrandi áhættu í von um hærri ávöxtun í lok fjárfestingartímans. Mikilvægt er því að hafa í huga að almennt jafnast skammtímasveiflur út til lengri tíma litið og áhættusamt er að kaupa til skamms tíma í sjóði sem fjárfestir í löngum skuldabréfum eða hlutabréfum fremur en að kaupa til lengri tíma í sama sjóði. Þannig samræmast mismunandi fjárfestingastefnur sjóða mismunandi tímalengdum fjárfestinga og mikilvægt að fjárfest sé í þeim afurðum sem samræmast þörfum viðkomandi fjárfestis.