Upplýsingar um gengi
og gengisútreikning greiðslukorta
Þegar verslað er í erlendri mynt er upphæðin reiknuð yfir í íslenskar krónur. Á vef bankans er birt gengi helstu gjaldmiðla sem hægt er að nýta til að reikna upphæðir í erlendri mynt í íslenskum krónum.
Þegar verslað er með korti er mismunandi gengi notað eftir því hvort um er að ræða debetkort eða kreditkort. Það er ekki hægt að miða við almennt gengi eða seðlagengi þegar um kortaviðskipti er að ræða. Almennt gengi er notað t.d. þegar verið er að millifæra á milli landa en seðlagengi við kaup og sölu á seðlum
Korthafa er stundum gefin kostur á að velja hvort að hann greiðir í íslenskum krónum eða erlendri mynt þegar verslað er erlendis. Mikilvægt er að bera saman kjörin áður en ákvörðun er tekin um hvaða mynt er valin, en oftast er hagkvæmara að versla í erlendri mynt . Þegar valið er að greiða erlendis í íslenskum krónum er það söluaðilinn sem ákveður gengið og hefur bankinn enga aðkomu að þeim viðskiptum. Bankinn fær í slíkum tilfellum kortafærsluna senda í íslenskum krónum .
Um kaupgengi, sölugengi og endurgreiðslugengi greiðslukorta:
- Miðað er við sölugengi þegar korthafi greiðir fyrir vöru eða þjónustu.
Sölugengi samanstendur af því gengi sem Visa gefur út daglega og álagi bankans, nú 2,5% á debetkortafærslur og 2,7% á kreditkortafærslur, óháð mynt. Sölugengið er birt á vef bankans.
- Miðað er við kaupgengi þegar korthafi fær greiðslur inn á kortareikninginn sinn, t.d. greiðslur vegna sölu á netinu eða Airbnb leigutekjur.
Kaupgengi samanstendur af kaupgengi Visa og álagi bankans (2,5% á debetkort og 2,7% á kreditkort) og er birt sem kaupgengi á vef bankans
- Miðað er við endurgreiðslugengi þegar korthafi skilar vöru eða þjónustu
Endurgreiðslugengi samanstendur af kaupgengi Visa og því álagi sem bankinn leggur á það, nú 2,5% á debetkortafærslur og 2,7% á kreditkortafærslur, óháð mynt. Bankinn greiðir korthafa það álag sem hann leggur á kaupgengi Visa við endurgreiðsluna.
Ekki er hægt að ábyrgjast að endurgreiðslupphæð sé nákvæmlega sú sama og kaupupphæð var. Ástæðan er fyrst og fremst sú að Visa notar eigið kaupgengi þegar vöru er skilað en ekki sölugengi eins og þegar varan er keypt. Einnig má gera ráð fyrir að gengið hafi breyst milli kaupdags vöru og skiladags vöru.
- Endurkrafa. Endurgreiðsla vegna endurkröfu er óháð gengi. Korthafi fær sömu krónutölu endurgreidda og upphafleg greiðsla hans var.