LEI auðkenni
Frá og með 1. september 2021 þurfa allir lögaðilar, sem hyggjast eiga viðskipti með fjármálagerninga á skipulögðum viðskiptavettvangi, að vera með LEI auðkenni.
Hvað er LEI-auðkenni?
LEI stendur fyrir Legal Entity Identifier og er alþjóðlegt auðkenni fyrir lögaðila, einskonar kennitala. Markmiðið er að gera alþjóðlegum eftirlitsaðilum kleift að fylgjast með viðskiptum einstakra lögaðila og bæta þannig eftirlit með kerfislegri áhættu og auðvelda rannsókn á misferli tengt verðbréfaviðskiptum. Ítarlegri upplýsingar er að finna á vef ESMA.
Hverjir þurfa LEI-auðkenni?
FME krefst þess að allir lögaðilar (t.d. hlutafélög, verðbréfasjóðir og lífeyrissjóðir) hafi LEI-auðkenni til að eiga viðskipti með skráð verðbréf og fjármálagerninga sem skráðir eru á skipulegan verðbréfamarkað. Einstaklingar þurfa ekki LEI-auðkenni vegna viðskipta (sjá fréttatilkynningu FME).
Frá og með 1. september 2021 verður Arion banka ekki heimilt að eiga viðskipti með skráð verðbréf fyrir lögaðila án LEI-auðkennis. Lögaðilar mega eiga og halda skráðum verðbréfum, keypt fyrir árslok 2017, án LEI-auðkennis. Auðkennið er hinsvegar nauðsynlegt til að eiga viðskipti með bréfin.
Ekki er gerð krafa um LEI-auðkenni vegna viðskipta lögaðila með hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóðum.
Hvernig er sótt um LEI-auðkenni?
Nokkur fjöldi fyrirtækja hefur leyfi til LEI útgáfu, t.d.:
- LEIRegister
- NordLEI
- Bloomberg
- Business Entry Data B.V.
- London Stock Exchange
- Nasdaq verðbréfamiðstöð
Heildarlisti yfir aðila sem hafa leyfi til útgáfu LEI-auðkenna er að finna á gleif.org. Í flestum tilfellum tekur 2-5 daga að fá LEI-auðkenni og kostar það um 100 evrur en hver og einn útgefandi hefur eigin verðskrá. Sækja þarf um endurnýjun árlega og greiða árgjald. Þá er hægt er að leita að LEI-auðkenni á síðunni eftir nafni lögaðila til að kanna hvort þegar hafi verið gefið út LEI.
Við umsókn um LEI þurfa viðskiptavinir að gefa upp eftirfarandi upplýsingar hjá útgefendum LEI:
- Skráð nafn lögaðila (Legal name)
- Nafn lögaðila á ensku, ef við á
- Heimilisfang lögaðila
- Land sem lögaðili var stofnaður í
- Heimilisfang höfuðstöðva lögaðila, ef við á
- Kennitala lögaðila (Business Register Entity ID/Registration Autority Entity ID), skrá þarf kennitölu án bandstriks
- Númer Fyrirtækjaskrár Íslands, sem er RA000393 (Business Register/Registration Autority) eða sambærilegt númer ef um erlend félög er að ræða
- Félagaform lögaðila (t.d. hlutafélag, einkahlutafélag, sameignarfélag, sjóður o.fl.)
- Upplýsingar um móðurfélag, ef við á (Parent Entity)
- Upplýsingar um tengda lögaðila, ef við á (Associated Entity)
- Yfirlýsing um að umsækjandi hafi heimild til þess að sækja um fyrir hönd lögaðilans (Statement verifying the user is an Authorized to Register for on behalf of Legal Entity) – í einhverjum tilvikum bjóða útgefendur uppá staðlað form
- Vottorð úr fyrirtækjaskrá (Certificate of Registration), á ensku.
Athugið þó að kröfur um upplýsingar geta verið mismunandi á milli útgefenda. Í einhverjum tilvikum þarf ekki að útvega allar ofangreindar upplýsingar og í öðrum tilvikum gæti þurft frekari upplýsingar.
Þegar lögaðili hefur fengið LEI-auðkenni þarf einungis að senda okkur kennitölu lögaðila, LEI númerið og gildistíma þess á netfangið LEI@arionbanki.is.