„Þú mátt ekki óttast að vera byrjandi“
Sylvía Briem er hugmyndarík og einlæg athafnakona sem kemur til dyranna eins og hún er klædd: „Þú stoppar mig bara af ef ég tala of mikið! Ég er með ADHD og á það til að fara í hringi,“ segir hún brosandi í upphafi samtalsins og slær þar réttan tón; spjallið við Sylvíu berst út um víðan völl en er alltaf áhugavert og skemmtilegt.
Ferill Sylvíu ber þess enn fremur merki að hún er óhrædd við að feta ótroðnar slóðir og takast á við alls kyns áskoranir. Sem krakki var hún með leiklistarbakteríu en var ráðlagt að feta praktískari slóðir; hún nam sálfræði í háskóla, lærði dáleiðslu, fór í heilsumarkþjálfann og bandvefslosunarkennarann, vann í þrettán ár sem Dale Carnegie-kennari og hélt úti einu vinsælasta hlaðvarpi landsins, Norminu, ásamt samstarfskonu sinni Evu Matta.
„Allt átti þetta sameiginlegt að fókusinn var á fólk,“ segir Sylvía. „Mér fannst til dæmis mjög skemmtilegt að kenna hjá Dale Carnegie og fylgjast þar með fólki vaxa og sigrast á sjálfu sér – kannski af því að maður vex sjálfur um leið. Svo tók ég u-beygju fyrir nokkrum árum þegar ég fann að verið var að kalla mig til annarra verkefna.“
Með heimilisbókhaldið í stórri rauðri möppu og reykingalykt í bílnum
Sylvía er borin og barnfædd í Kópavogi og hefur alltaf búið þar ef frá eru talin þrjú ár þegar þau Emil Þór Jóhannsson, eiginmaður hennar, færðu sig yfir í Grafarvoginn í kjölfar þess að þeim fæddist fyrsta barn sitt.
„Í dag eigum við þrjá stráka,“ segir Sylvía. „Ég ákvað að rekstrarlega séð væri bara best að fara í fjöldaframleiðslu á sömu vörunni og einbeita mér að því að eignast drengi. Í því felast viss samlegðaráhrif.“
Sylvía var mikil íþróttastelpa og lengst af í handboltanum en vílaði ekki fyrir sér að spreyta sig á fleiri sviðum: í tennis, körfubolta, frjálsum, fótbolta. „Ég var bara svo spennt og peppuð og til í allt.“ Þessa áræðni og athafnasemi fékk hún eflaust í vöggugjöf frá foreldrum sínum sem voru jafnan með margt í pípunum.
„Mamma og pabbi eiga mig aðeins átján ára gömul,“ segir Sylvía. „Ég fæ því að upplifa ýmsar raunir foreldra minna, sem fullorðast í raun á meðan þau ala mig upp. Fyrstu árin höfðu þau ekki mikið á milli handanna en þau voru alltaf ótrúlega dugleg og byggðu smám saman upp meira fjármagn fyrir okkur fjölskylduna.“
„Pabbi prófaði alls konar rekstur og kom meðal annars að stofnun Friday‘s í Smáralind. Sumt gekk, annað ekki. Þau mamma lágu oft yfir heimilisbókhaldinu, sem var geymt í stórri rauðri möppu, og stundum þurfti að skera niður; ég man til dæmis þegar mamma seldi bílinn sinn og keypti annan ódýrari sem var með ógeðslegri reykingalykt. Eins man ég þegar mamma hringdi í dagblöðin til að segja upp áskriftinni þegar það þurfti að spara. En þau fundu alltaf innblásturinn aftur og höfðu yfir að búa mikilli elju og þrautseigju sem ég hef líka reynt að temja mér.“
Þrjóskan og þrautseigan mikilvæg – glansmyndin blekking
Í dag rekur Sylvía heildsöluna Steindal ehf. sem hún stofnaði árið 2019 ásamt eiginmanni sínum og bræðrunum Óttari og Ágústi Angantýssonum. Þau eru meðal annars þekkt fyrir að hafa kynnt drykkinn Töst fyrir íslenskum neytendum, óáfengum valkosti sem sló fljótt í gegn. Aðrar vinsælar vörur Steindal eru til dæmis Red Bull og El Taco.
„Árið 2019 missir Emil vinnuna þegar WOW fer á hausinn og þá förum við af fullum krafti út í heildsöluna sem hafði fram til þess verið lítið hliðarverkefni,“ segir Sylvía. „Sumir virðast halda að allt verði að gulli í höndunum á okkur en það er fjarri því að vera satt. Við höfum prófað ótal vörur og einfaldlega lært hvað virkar og hvað virkar ekki. Fullt hefur alls ekki virkað. Við lærðum eftir að við vorum farin af stað. Þú mátt ekki óttast að vera byrjandi!“
Sylvía segir að Steindal-ævintýrið hafi verið skemmtilegt en líka oft reynt á þolrifin. „Ég man til dæmis þegar ég fór á fund með innkaupastjóra einum, þá með annan strákinn minn 6-7 mánaða upp á arminn. Sá litli var eitthvað lasinn og gubbaði kröftuglega á mig á fundinum. Ég reyndi að halda kúlinu en það var ekki auðvelt. Svo rétt fyrir þessa sömu helgi klárast allar vörurnar okkar í búðunum og við þurfum að dreifa aftur en erum þá auðvitað öll komin með gubbupest. Við gátum samt ekki látið það stoppa okkur enda eina starfsfólk fyrirtækisins svo að við hentumst inn og út úr búðum með kassana, öll græn af flökurð, gubbandi þess á milli. Við eigum margar svona sögur.“
Í dag starfa fjórtán starfsmenn hjá Steindal í fullu starfi auk fimm hlutastarfsmanna. Fái einhver gubbupest getur hann því hvílt sig heima – sem betur fer.
Sterkt samfélag kvenna í íslensku atvinnulífi
Að sögn Sylvíu er heildsalan ansi karllægur bransi. Henni finnist reyndar gaman að vinna með öllum þessum körlum en viðurkennir þó að stundum komi upp grátbroslegar og jafnvel ergjandi aðstæður. „Ég hef til dæmis oft upplifað það að fara á ráðstefnur þar sem allir taka í höndina á manninum mínum og beina orðum sínum til hans, um mál sem ég mun svo taka ákvarðanir um. Það er auðvitað fáránlegt. En ég er ákveðin, skapstór og fylgin mér, og læt þetta ekki trufla mig.“
Hvað hafa síðustu ár kennt þér?
„Mér finnst mjög mikilvægt líka að treysta innsæinu, einhverri svona gut feeling. Þegar ég hef hunsað það hefur það aldrei farið vel. Eitthvað í maganum beinir þér í vissa átt og þú hefur engin önnur rök fyrir því. Það getur verið erfitt að treysta slíkri tilfinningu en reynslan segir mér samt að gera það. Undirvitundin er oft klárari en meðvitaða hugsunin.“
Hvaða ráð viltu gefa konum sem langar að taka stökkið og stofna fyrirtæki?
„Lærið af fólkinu í kringum ykkur. Talið við aðra og farið bara af stað – ekki óttast að takast á við erfiðu hólana sem virka fyrst óyfirstíganlegir. Haldið áfram! Konur í íslensku atvinnulífi eru líka mjög opnar og hjálpsamar, ekki síst eldri viskubrunnar sem vilja glaðar leyfa okkur yngri að bergja á þekkingu þeirra. Þær vilja opna dyr, koma í veg fyrir að við hlaupum á sömu veggi og þær gerðu. Slík samstaða er svo mikils virði.“
Einhver frekari hvatningarorð?
„Einhver sagði einu sinni við mig: Ef þetta væri auðvelt væru allir að þessu. Það er satt! Að stofna fyrirtæki á ekkert að vera auðvelt. Þú þarft að búa yfir mikilli þrautseigju og líka gleði, ástríðu. Þetta er smá klisja – en án gleðinnar verðurðu bara úrvinda og brennur út.“