Fegurðin er hagnýtt afl

Ef til vill hefurðu rekið augun í falleg lítil timburhús, úr björtum viði með stórum gluggum, hér og þar um höfuðborgarsvæðið, merkt hinu skringilega orði Pikkoló? Raunar er ekki loku fyrir það skotið að þú hafir sótt þangað kassa með girnilegu íslensku grænmeti, safaríkum spænskum ávöxtum eða fljótlegri formúlumáltíð frá Eldum rétt. Þegar þú stígur inn í húsið stynur það sældarlega og aðlaðandi ský úr svalri gufu skjótast út úr hólfunum sem hýsa matvörurnar. Aaaah.

Um er að ræða kældar Pikkoló stöðvar á vegum þeirra Rögnu Margrétar Guðmundsdóttur og Kristbjargar Maríu Guðmundsdóttur, stofnenda fyrirtækisins Pikkoló sem þær ýttu af stokkunum árið 2020 með það fyrir augum að blása nýju lífi í kaupmanninn á horninu – í nútímalegri og sjálfbærri útgáfu. Meginmarkmið Pikkoló er að hjálpa fólki að nálgast fjölbreytta og ferska matvöru í nærumhverfi sínu með einföldum, ódýrum og umhverfisvænum hætti.

Með frumkvöðlablóð í sér

Þegar Ragna Margrét kom heim til Íslands úr náminu árið 2016 stofnaði hún hönnunarstofuna M/STUDIO, ásamt Kristbjörgu Maríu, sem er iðnhönnuður að mennt, og þar kviknaði svo sprotinn sem varð með tíð og tíma að Pikkoló.

„Ég vissi alltaf að ég ætti að fara í eitthvað skapandi,“ segir hún. „Það er eitthvert frumkvöðlablóð í mér – alveg frá því að ég man eftir mér hef ég viljað búa til mitt eigið og hef alltaf haft mikla þörf fyrir að gera hlutina sjálf og skapa eitthvað nýtt.“

Ragna Margrét segir að hugmyndin að Pikkoló hafi fæðst á vormánuðum 2019 þegar hönnunarstofan þeirra Kristbjargar var fengin til þess að halda erindi um framtíð verslunar í miðborginni fyrir Athafnaborgina okkar á vegum Reykjavíkurborgar.

Kveikjan hafi verið sú að litli kaupmaðurinn á horninu hafi, því miður, að mestu horfið úr samtímanum. Undanfarin ár hafi verslanir stækkað og færst lengra frá fólki í stærra húsnæði í útjöðrum borgarinnar. Jákvæðu áhrif hafi verið þau að verðlag hafi lækkað og úrval aukist til muna. Á móti komi þó að nú þurfi fólk að ferðast lengra til þess að komast í matvörubúð og sé því háðara einkabílnum. Þessari þróun vilji þær Ragna Margrét og Kristbjörg snúa við með hjálp Pikkoló og stafrænni þróun á matvörumarkaði. Nú geti fólk verslað beint frá býli frá völdum smáframleiðendum á netinu og valið að sækja vörurnar í næstu Pikkoló stöð þegar því hentar.

„Kristbjörg María var í áskrift hjá Eldum rétt en ekki ég á þeim tíma sem hugmyndin kviknar,“ segir Ragna Margrét. „Ég bjó í fjölbýli og fannst óþægilegt að láta Eldum Rétt kassann með matnum standa lengi fyrir utan hjá mér. Við fórum því að velta fyrir okkur hvernig gera mætti þetta öðruvísi enda eflaust fleiri í mínum sporum.“

„Maður er alltaf að leita að úrræðum til að fjármagna sitt verkefni“

Hvernig gekk að koma Pikkoló af stað? Höfðuð þið greiðan aðgang að fjármagni?

„Á fyrstu stigum fyrirtækja er oft mjög erfitt að fá fjármagn,“ segir Ragna Margrét. „Tölfræðin sýnir að það er sérstaklega þungur róður fyrir kvennateymi. Það er erfitt þegar allt er enn á hugmyndastigi en verður auðveldara eftir því sem hugmyndin mótast.“

„Við höfum hins vegar verið mjög heppnar og fengum já á fyrsta fundi með fjárfesti sem var einmitt kona og er okkar englafjárfestir í dag. Við verðum henni ævinlega þakklátar fyrir að hafa trú á verkefninu svo snemma í ferlinu.“

„Við höfum einnig verið duglegar að sækja um alls kyns styrki. Nú síðast fengum við Sprota og Vöxt frá Tækniþróunarsjóði. Þetta hefur skipt gríðarmiklu máli við að koma Pikkoló á þann stað sem það er á í dag. Einnig hefur BYKO stutt dyggilega við bakið á okkur með umhverfisvænu hráefni í stöðvarnar.“

Hvernig finnurðu fyrir því að það sé erfiðara fyrir konur en karla að fá fjármagn?

„Við höfum ekki fundið mikið fyrir því á eigin skinni og ég held að þetta sé að breytast mjög hratt núna. Hér áður fyrr voru það mikið til karlmenn sem stýrðu fjármagninu. Þetta voru kannski einsleit teymi sem áttu erfitt með að skilja vandamálin eða tækifærin sem konur komu með að borðinu.“

„Nú sjáum við að það hefur orðið mikil framþróun í þessum málum síðustu ár. Mín tilfinning er sú að kynjahlutföllin séu að jafnast og þar af leiðandi fleiri konur í þeim störfum sem stýra fjármagninu og tengja þá kannski betur við þau vandamál sem konur eru að leysa.“ Verkefni kvenna og karla séu oft mjög ólík, að sögn Rögnu Margrétar.

„Konur eru oft að takast á við samfélagsleg vandamál sem getur reynst áskorun að fá skjótan gróða af og þurfi oft að horfa á virði í víðara samhengi og til lengri tíma. Eðlilega er erfiðara að finna fjárfesta í slík verkefni “ segir hún.

„Ég tel hins vegar að vel megi finna hinn gullna meðalveg í þessum málum: á milli samfélagslegs ábata og fjárhagslegs ávinnings. En það er akkúrat það sem við erum að gera með Pikkoló, lausn sem nýtist nærsamfélaginu, styður við nýsköpun á matvörumarkaði og dregur úr umferð við dreifingu á ferskri matvöru sem keypt er á netinu.“

Fegurðin er hagnýtt afl

Ragna Margrét bendir enn fremur á að þær hafi þó vissulega oft fengið nei frá fjárfestum og að sumir þeirra fjárfesta, sem þær ræddu við á fyrri stigum, hafi hikstað á þeirri áherslu sem lögð er á fegurð í hönnun afgreiðslustöðvanna. Einn hafi hreinlega spurt: Af hverju þarf þetta að vera svona fallegt? En Ragna Margrét segir á móti að nútímakaupmaðurinn megi alls ekki vera eitthvert andlaust grátt hylki úti á götuhorni.

„Við viljum að þetta sé í alla staði jákvæð upplifun og að Pikkoló stöðvarnar falli vel að nærumhverfinu. Þar með líður þér vel þegar þú kemur og sækir matinn. Það skiptir máli.“

Áherslan á fegurðina sé því praktísk. Viðskiptavinir séu líklegri til að halda tryggð við Pikkoló ef það er ánægjulegt að skjótast þangað. Fegurðin sé hagnýtt afl.

Mikilvægt að sýna þrautseigju og halda áfram

Ragna Margrét hvetur aðrar konur til að hrinda sínum hugmyndum í framkvæmd og hætta ekki að trúa á þær þótt á móti blási. Oft þurfi að sýna mikið þolgæði og úthald, til að mynda við gerð endalausra styrkumsókna – og eins sé aldrei gaman að fá nei frá fjárfestum. En oft þurfi ekki nema eitt já til að koma sér af stað – og þá verði líklegra að fleiri já fylgi í kjölfarið.

Í dag eru fimm Pikkóló stöðvar í notkun á höfuðborgarsvæðinu og áætlað að þeim fjölgi til muna á næstu misserum.