Það þarf að sýna djörfung og stökkva á tækifærin
Helga Reynisdóttir ljósmóðir og fyrirtækjaeigandi hefur síðustu árin ákveðið að láta slag standa og hræðast ekki hið óþekkta. Hún hefur stofnað tvö fyrirtæki sem sinna fræðslu og þjónustu við konur og fjölskyldur þeirra á meðgöngu og segist sjálf hafa þurft kjark til þess að taka stökkið.
Árið 2013 var kosið um fegursta orð íslenskrar tungu og hlaut orðið ljósmóðir titilinn. Það hefur löngum verið mikill bjarmi yfir starfsheitinu og virðing borin fyrir þessu mikilvæga kvennastarfi. Á Íslandi hefur enginn karlmaður sinnt ljósmóðurstarfi í næstum hundrað ár þrátt fyrir að hér á árum áður hafi karlkyns yfirsetumenn verið þekktir. Það er virkilega áhugavert að spjalla við Helgu Reynisdóttur um störf hennar á ólíkum vettvangi en það má segja að hún hafi sameinað kvennaheim menntunar sinnar við heim viðskipta og frumkvöðlastarfsemi sem oft og tíðum hefur verið eyrnamerktur reynsluheimi karlmanna.
Lét ekkert stoppa sig
Þegar heimsfaraldurinn var í hámarki sat Helga heima hjá sér með nýfætt barn og í fæðingarorlofi. Þrátt fyrir að langa mikið að stofna fyrirtæki og bjóða upp á fæðingarfræðslu var hún til að byrja með hikandi við að taka skrefið. Maðurinn hennar hvatti hana óspart áfram og ýtti henni út fyrir þægindarammann. Helga ákvað að láta slag standa og lagðist yfir lög og reglugerðir Skattsins um ólíkar tegundir rekstrarforma og fyrirtækja. Hún segist hafa fengið svima þegar hún tók fyrstu skrefin og haft áhyggjur af því að þetta væri henni um megn. En hún lét það ekki stoppa sig.
Mitt meginmarkmið er að valdefla konur
Helgu langaði alltaf að gera eitthvað meira með menntun sína og sá ekki fyrir sér að starfa einvörðungu inni á spítalanum til starfsloka. Hún hóf sína vegferð í sjálfboðastarfi á samfélagsmiðlum fyrir Ljósmæðrafélagið og fann á þeim tíma fyrir mjög miklum áhuga og hljómgrunni fyrir þeirri fræðslu sem hún veitti á þeirra miðlum. Hún áttaði sig fljótt á því að það væri markaður fyrir aðgengilegt fræðsluefni fyrir konur og fjölskyldur þeirra á meðgöngunni og með hvatningu ákvað hún að taka af skarið og bjóða upp á fæðingarfræðslu og námskeið fyrir verðandi foreldra. Hennar markmið er að hvetja konur til að leita sér fræðslu og vera upplýstar um ferli meðgöngu og fæðingar með það að markmiði að vera virkir þátttakendur í ákvarðanaferlinu.
Stefnir enn lengra
Helga byrjaði sinn viðskiptaferil með tvær hendur tómar og mótaði allt sjálf frá grunni. Hún hafði ekkert fjármagn og hefur byggt reksturinn upp með dugnaði, þori og elju. Hún hóf sína vegferð á því að kaupa ódýrustu tölvuna sem til var í Elko og læra að setja upp heimasíðu með greiðslugátt. Í kjölfarið fór hún að bjóða verðandi foreldrum upp á fæðingarnámskeið í gegnum netið á ljosmodirin.is og eru þau mjög vinsæl hjá fólki um allt land. Fljótlega stofnaði hún svo einnig ljosa.is með samstarfskonu sinni Hildi Sólveigu Ragnarsdóttur en þær bjóða upp á sónar á meðgöngu, fræðslu, nálastungur, viðtöl og bumbuhittinga. En Helga er með stóra drauma um að bæta fæðingarupplifun kvenna víðar og nýta þá þekkingu og reynslu sem er tengd meðgöngu og fæðingum á Íslandi til góða.
Ísland er á sérsviði þegar það kemur að fæðingarþjónustu og hér á landi er ein lægsta tíðni ungbarna- og fæðingardauða sem þekkist í heiminum. Hér er einnig mjög lág tíðni inngripa í fæðingum. Samkvæmt Helgu hafa fæðingar verið sjúkdómsvæddar víða um heim sem hefur ekki endilega reynst konum vel. Hún útskýrði fyrir okkur að við getum yfirleitt gert tvo hluti án mikilla inngripa, það er að fæðast og deyja, en sniðugir business menn sáu tækifæri í því að koma fæðingum inn á spítalana til þess að mögulega græða.
Það verður áhugavert að fylgjast með Helgu og hennar mikla og góða starfi næstu árin en spurð að því hvaða ráð hún gefur konum sem hafa hugmyndir um eigin rekstur eða ganga um með viðskiptahugmynd í maganum.
Mitt ráð er að elta draumana, hika ekki og stökkva á tækifærin þegar þau bjóðast. Maður þarf að vera með bein í nefinu og standa fast á því sem maður stendur fyrir og sýna djörfung.
Við þökkum Helgu kærlega fyrir spjallið og hlökkum til að fylgjast með henni bæta fæðingarreynslu kvenna hér á landi og víðar.