Við ætlum að bjarga heiminum með því
að gjörbylta ammoníaksiðnaðinum
Að spjalla við Helgu Dögg Flosadóttur stofnanda og framkvæmdastjóra Atmonia er ekki bara fræðandi og áhugavert heldur einnig virkilega hvetjandi. Að heyra eldmóðinn sem býr að baki og heyra um þá miklu vinnu sem Helga Dögg er nú þegar búin að inna af hendi veitir innblástur á mörgum sviðum. Helga Dögg fór í doktorsnám í eðlisefnafræði og eftir að hafa lokið því námi starfaði hún sem verkefnastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
Í raunvísindadeild Háskóla Íslands eru 3 konur með prófessorstöðu af 24 starfandi prófessorum.
Framleiða umhverfisvænan orkugjafa
Hún segir að stuðningur skipti sköpum fyrir alla sem koma úr námi en sérstaklega sé hann mikilvægur fyrir ungar konur í fyrirfram mótuðum karlaheimi. Hjá Nýsköpunarmiðstöð fór hún að rannsaka ammoníakframleiðslu með Agli Skúlasyni prófessori við Háskólann og Arnari Sveinbjörnssyni. Það er skemmst frá því að segja að í sameiningu stofnuðu þau Atmonia sem vinnur nú að rannsóknum og þróun á tækni sem mun umbylta ammoníakframleiðslu heimsins. Það er alltaf meiri og meiri meðvitund í samfélaginu um mikilvægi ammoníaks en það er eitt af mest framleiddu efnum í heiminum í dag en framleiðslan er afskaplega óumhverfisvæn. Ammoníak leggur grunninn að matvælaöryggi í heiminum en 80% af ammoníaki sem framleitt er í dag er notað í áburð. Ofan á það er verið að þróa vélar sem geta nýtt ammóníak sem eldsneyti, sem margfaldar þörfina á umhverfisvænni framleiðslu ammóníaks. Það er því tvíþættur drifkraftur sem liggur að baki starfs Helgu Daggar og Atmonia, að umbylta framleiðslunni sjálfri og framleiða umhverfisvænan orkugjafa.
Frambærilegar konur í karllægum heimi
Heimur raunvísinda er að mörgu leyti mikill karlaheimur en Helga segir að hún hafi ekki hugsað mikið til þess þegar hún tók þá ákvörðun að fara í raunvísindanám. Hún segir að það hafi þó verið skemmtilegt að þegar hún var í grunnnáminu í Háskóla Íslands hafi þau kannað kynjahlutföllin í efnafræði og lífefnafræði og það árið hafi hlutföllin verið akkúrat 50/50. Það hafi þó breyst þegar út í doktorsnámið kom þar sem hún var oft eina konan. Hún segir svo að við störf hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands hafi Þorsteinn Ingi Sigfússon, þáverandi forstöðumaður Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, reynst henni sérstaklega vel og hann hafi lagt sig fram við að lyfta konum upp til jafns við karla í vísindum.
Spurð að því hverjar helstu hindranirnar hafi verið segir hún að fjármagn til að halda rekstri sprotafyrirtækja gangandi sé alltaf stærsta áskorunin en einnig myndun teymis. Sprotafyrirtæki eins og Atmonia eru byggð á sérfræðiþekkingu sem ekki hver sem er býr yfir og hún segir að það sé krefjandi en skemmtilegt verkefni að mynda rétt teymi í kringum sig. Í þeim efnum reynir hún að hafa kynjahlutföllin jöfn sem starfa hjá fyrirtækinu. Hún hefur einsett sér að boða jafnmarga af báðum kynjum í viðtal þegar störf eru auglýst og það sem hún segir standa upp úr sé hversu framúrskarandi og frambærilegar þær konur séu sem sækja um auglýst sérfræðistörf. Helga segir að það að vera kona og klára doktorsnám í geira sem er yfirfullur af karlmönnum sé í raun næg sönnun á hæfileikum viðkomandi. Hún segir að það sem einkenni allar þær konur sem hún hefur talað við hjá Atmonia sé gríðarlegur metnaður og elja.
Fjárfestingar til sprotafyrirtækja
En eins og fram kom hér að ofan er teymið eingöngu einn armur af góðu fyrirtæki, stærsta verkefnið er vísindin og þróunin, og til þess að tryggja framgang þeirra þarf að sækja fjármagn. Atmonia hefur gengið vel að sækja styrki fyrir sínum verkefnum og hafa sjóðir líkt og Tækniþróunarsjóðir reynst þeim vel. Það er þó virkilega áhugavert að skoða fjárfestingar til sprotafyrirtækja út frá kynjum en sjóðir líkt og Rannís og aðrir hafa lagt sig fram um að veita styrki til kynja í sama hlutfalli og þær umsóknir sem berast. Að því leyti eru það um bil 30% úthlutana sem eru til verkefna sem stýrt er af konum eða blönduðum teymum. Þegar kemur að vísisjóðum fer hlutfallið jafnvel undir 2%.
Í spjalli okkar Helgu segir hún mikið framboð á verkefnum og fyrirtækjum sem stýrt er af konum eða blönduðum teymum sé til staðar en af einhverjum ástæðum séu slík verkefni ekki að fá fjármagn frá fjárfestingasjóðum til jafns við karlkyns teymi. Það sé mikilvægt að beina sjónum að þessum muni svo hægt sé að snúa þessu við.
Við verðum alltaf bestar í því sem við höfum áhuga á.
Í æsku var Helga hvött til þess að ögra sér, gera mistök og læra af þeim og hún segir að það hafi mótað hugsun hennar og trú á sjálfri sér alla tíð. Það hafi gert það að verkum að hún hafi látið sinn eigin áhuga leiða sig áfram en það er einmitt eitt af þeim ráðum sem Helga gefur öðrum konum á sinni vegferð.
Helga Dögg er ein af þeim ungu konum sem er mjög áhugavert að fylgjast með og dást að. Hún hefur óhrædd fetað slóð raunvísinda og stofnað sprotafyrirtæki sem við trúum að muni breyta heiminum.
Við þökkum henni kærlega fyrir að gefa sér tíma til þess að tala við okkur og hlökkum til að fagna næstu áföngum hennar með henni.