Hvetur konur til að afla sér þekkingar
og skilja fjármálahugtökin
Guðrún Valdís Jónsdóttir mætir galvösk á fund okkar með fimm mánaða gamla dóttur sína upp á arminn – eða reyndar í kerru sem hún ýtir rösklega milli snjóskaflanna. Dóttirin heitir Eik og það er viðeigandi að hún komi með enda umræðuefni dagsins hvernig jafna megi kynjahlutfall framtíðarinnar í fjárfestingum og athafnasemi í viðskiptalífinu.
Guðrún Valdís hefur sjálf ekki látið sitt eftir liggja á því sviði. Hún var valin „Rísandi stjarna ársins“ af Nordic Women in Tech árið 2023 og hefur setið í stjórn ýmissa félagasamtaka, auk þess að hasla sér völl á sviði netöryggismála.
Af Skaganum til Manhattan
Guðrún Valdís er fædd og uppalin á Skaganum. Eftir nám í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi fluttist hún út til Norður-Ameríku til að hefja nám í Princeton-háskóla í New Jersey. Hún kveðst ekki hafa verið neinn tæknisnillingur sem barn en segist þó alltaf hafa haft gaman af raungreinum.
„Fyrsta árið í Princeton þurfti maður ekki að hafa valið sér ,major‘ og fyrir rælni prófaði ég tölvunarfræðiáfanga og fannst það ótrúlega gaman. Þannig rambaði ég á eitthvað sem smellpassaði við áhugasviðið: að leysa þrautir á lógískan hátt en líka með listrænni sveiflu enda oft margar og skapandi leiðir að sömu lausn.“
Áður en Guðrún Valdís útskrifaðist fékk hún vinnu í netöryggisdeild Aon í New York. „Þau voru með sérstakt prógram fyrir nýútskrifað fólk, eins konar kynningu á netöryggi þar sem við fengum að prófa mismunandi deildir innan fyrirtækisins í tíu vikur í senn. Eftir 40 vikur valdi ég svo, í samráði við yfirmann, það sem mér fannst skemmtilegast og hæfði styrkleikum mínum best – penetration testing sem gengur út á að hakka sig inn í kerfi fyrirtækja. Þetta var ótrúlega sniðugt fyrir nýgræðinga í starfi því maður fær ekki endilega mjög praktíska reynslu í námi. Flest sem ég nýti í vinnunni er eitthvað sem ég hef lært úti á vinnumarkaði.“
Þráði meiri „kvenlega orku“ í líf sitt
Kynjahlutfallið hjá Aon var ekki til að hrópa húrra fyrir þegar Guðrún Valdís hóf störf á Manhattan. „Við vorum tvær í 63 manna teymi – ég var eina konan á minni skrifstofu í New York.“ Ástæða þess að Guðrún Valdís fluttist heim, eftir rúm tvö ár hjá Aon, var þó ekki átakanlegur skortur á konum á vinnustaðnum heldur covid-faraldurinn.
Ég finn mikinn mun eftir að konunum fjölgaði og er viss um að strákarnir eru mér hjartanlega sammála. Það kemur meiri heildarsýn á öll mál þegar hópurinn er fjölbreyttur.
Við endurkomuna til Íslands hóf Guðrún Valdís störf hjá netöryggisfyrirtækinu Syndis. „Þar var ég eina stelpan þegar ég byrjaði. En fyrirtækið hefur vaxið mjög hratt á síðustu árum og konunum sömuleiðis fjölgað.“ Nú séu þær um tíu á vinnustað með á sjötta tug starfsmanna. „Ég finn mikinn mun eftir að konunum fjölgaði og er viss um að strákarnir eru mér hjartanlega sammála. Það kemur meiri heildarsýn á öll mál þegar hópurinn er fjölbreyttur – og verður líka svo miklu skemmtilegra að mæta í vinnuna.“
En hvernig er andrúmsloftið almennt í tæknigeiranum? Ríkir sveitt og þrúgandi karlpungastemning eða er það að breytast?
„Ég hef verið mjög heppin með karlkyns yfirmenn sem standa með mér, gefa mér tækifæri, mentora mig,“ segir Guðrún. „Hér heima líður mér þó stundum eins og ég þurfi að sanna mig sem tæknistelpa og þá oft gagnvart viðskiptavinunum frekar en samstarfsfélögum. Ég hef verið á fundum þar sem ég er sérfræðingurinn sem framkvæmdi tæknilegu úttektina en samt er karlkyns samstarfssfélagi minn, sem veit kannski ekkert um hvað málið snýst, alltaf spurður út í málið af viðskiptavininum. Öh, Guðrún gerði úttektina, hún getur svarað ...“ Guðrún Valdís hlær og segir að þau geri bara grín að þessu.
Guðrún hefur setið í stjórn bæði UAK og Vertonet – samtökum kvenna og kvára í upplýsingatækni. „Jafnréttismál hafa alltaf verið eitthvað sem ég brenn fyrir og stórt þema í lífi mínu.“ Þáttttaka í félagasamtökum sé jafnframt öflug leið til að kynnast áhugaverðu fólki og styrkja tengslanetið – og í tilviki hennar kynnast fleiri konum á sama sviði en hún sagðist á tímabili hafa þráð meiri „kvenlega orku“ í líf sitt þegar hún var enn eina konan sem starfaði hjá Syndis.
Hvetur konur til að sækja sér þekkingu og skilja fjármálahugtökin
Guðrún Valdís er greinilega sjálf mjög orkumikil og skipulögð og óhrædd við að viða að sér nýrri þekkingu og þreifa fyrir sér. „Í fyrsta skipti sem ég keypti hlutabréf var ég enn úti í Bandaríkjunum. Ég vann með strák sem var mikið að velta þessum málum fyrir sér og hann deildi ýmsum góðum ráðleggingum. Ég lagði út litlar upphæðir – eitthvað sem ég tímdi að tapa – og var bara að leika mér, reyna að fylgjast með og læra á markaðinn og afkomutölur. Svo endaði ég á því að selja þetta allt þegar ég þurfti að fjármagna næstu fjárfestingu: íbúð hér heima á Íslandi.“
Íbúðakaupin voru ekki endilega útpæld fjárfesting heldur fólu þau frekar í sér sálfræðileg klókindi af hálfu Guðrúnar. „Ég var í hálfgerðri lífskrísu þegar ég ákvað að flytjast heim og hélt í smástund að ég hefði eyðilagt líf mitt. Mér leið ótrúlega vel úti – var stundum með smá heimþrá en það var þó ekkert alvarlegt. Þegar ég sneri aftur keypti ég íbúð til að segja: Hér á ég heima!“ Hún kveðst mjög ánægð með þessa ákvörðun í dag enda hittu íbúðarkaupin á afar hagstæðan tíma á markaðnum.
Guðrún Valdís hvetur aðrar ungar konur, sem eru að stíga sín fyrstu skref í fjárfestingum eða atvinnulífinu, til að slag standa en jafnframt kynna sér málin vel svo að þær taki vel upplýstar ákvarðanir. „Farsælustu fjárfestingarnar mínar hafa alls ekki verið útpældar eins og vænta mætti af meiri fjárfestingaspekúlant en mér sjálfri, heldur frekar afurð þess að ég lét bara vaða. Á sama tíma vil ég samt geta tekið upplýstar ákvarðanir um fjármálin mín. Á ég að setja peningana mína á höfuðstólinn, borgar það sig í þessu vaxtaumhverfi? Hvernig get ég með bestu móti ávaxtað peningana mína? Hvað þýðir til dæmis að vera með óverðtryggt lán vs. Verðtryggt lán?“
Mikilvægt að ungar stúlkur standi jafnfætis ungum strákum
Nýjasta fjármálaákvörðunin tengist litlu manneskjunni sem setið hefur undurspök í kjöltu móður sinnar allt spjallið – Eik var að fá vörslureikning. Guðrún Valdís kveðst hafa rekið augun í sláandi umfjöllun Arion um misskiptingu eftir kynjum í sparifjáreign tveggja ára barna; drengir eigi 60% af sparifjáreign tveggja ára barna.
„Samkvæmt því verður staðan sú, þegar Eik er tveggja ára og rétt að byrja á leikskóla, að strákarnir á deildinni hennar eiga miklu meiri pening en hún. Það er svo fáránlegt. Við Máni, barnsfaðir minn, íhuguðum alvarlega að afþakka allar skírnargjafir og biðja frekar um hlutabréf handa henni í einhverju rótgrónu fyrirtæki á borð við Eimskip! En hættum reyndar við þar sem við óttuðumst að vinir og vandamenn myndu gera athugasemdir við áherslur okkar í uppeldinu.“
„Við ætlum samt að skrá Eik í áskrift að sjóðum, setja í það eitthvert smotterí á mánuði.“ Það er lítil fjárfesting svo að litla stúlkan standi strákum jafnfætis strax á fyrstu stigum tilveru sinnar. „Og við erum auðvitað heppin að vera í þeirri stöðu að geta sett svolítið til hliðar fyrir hana svo við höfum ekki enn gefið upp á bátinn drauminn um að hún verði hluthafi í Eimskip fyrr eða síðar!“