Hvað þýða þessi fjárfestingarhugtök?
Í þinni vegferð í fjárfestingum muntu vafalaust rekast á ný hugtök. Við viljum hjálpa þér að skilja fjárfestingarumhverfið sem best og því er hér hugtakalisti sem getur vonandi komið að góðum notum.
Hlutabréf
Hlutabréf er ein tegund verðbréfa. Ef þú átt hlutabréf ert þú hluthafi í félagi sem þýðir að þú ert einn af eigendum félagsins og mátt því greiða atkvæði á hluthafafundum.
Arðgreiðslur
Ef félag er rekið með hagnaði er nokkuð algengt að hluthafar fái greiddan arð. Arðgreiðslur eru greiðslur til eigenda félagsins og eru ákveðið hlutfall af hagnaði þess og í hlutfalli við eign í félaginu.
Skráð hlutabréf
Hlutabréf geta verið skráð í opinberum kauphöllum og ganga þar kaupum og sölum. Tveir markaðir eru starfræktir af Kauphöll Íslands fyrir viðskipti með hlutabréf, Aðalmarkaður og First North, en strangari lagalegar kröfur eru gerðar til fyrirtækja sem eru skráð á Aðalmarkaði.
Hlutabréfaverð
Verð hlutabréfa ræðst að miklu leyti af væntingum til félags. Ef væntingarnar aukast, t.d. vegna þess að félagið skilar meiri hagnaði en búist var við, hækkar hlutabréfaverðið alla jafna. Kaupendur og seljendur hlutabréfa á markaði hafa allt um verðsveiflurnar að segja því ef eftirspurn eftir bréfum félags eykst þá hækkar verðið og ef framboð eykst lækkar verðið.
Skuldabréf
Skuldabréf er ein tegund verðbréfa. Skuldabréf er skuldaviðurkenning þar sem útgefandi viðurkennir skyldu sína til að greiða ákveðna peningagreiðslu. Um er að ræða eina tegund fjármögnunar fyrir t.d. fyrirtæki, ríki, bæjar- og sveitarfélög. Þegar þessir aðilar gefa út skuldabréf er í rauninni um yfirlýsingu að ræða þar sem þeir staðfesta að greiða kaupanda bréfsins upphæðina til baka á ákveðnum tíma og með ákveðnum kjörum.
Tegundir skuldabréfa
Til eru margar tegundir skuldabréfa en þau geta verið verðtryggð eða óverðtryggð. Af verðtryggðum bréfum greiðast verðbætur en verðtrygging er aðferð sem felur í sér að fjármagn heldur verðgildi sínu þrátt fyrir verðbólgu.
Dæmi um mismunandi tegundir skuldabréfa:
- Jafngreiðslubréf
- Jafnt greiðsluflæði svo fyrst um sinn eru greiðslurnar að stærstum hluta vextir
- Bréf með jöfnum afborgunum
- Greidd jafnstór afborgun af höfuðstól í hverri greiðslu
- Vaxtagreiðslubréf
- Vextir greiddir reglulega yfir lánstíma og höfuðstóll greiddur í lokin
- Víxlar
- Oft með stystan lánstíma
- Eingreiðslubréf (kúlubréf)
- Allt greitt í lok lánstíma
Skráð skuldabréf
Skuldabréf geta gengið kaupum og sölum á markaði en verð bréfanna endurspeglast af ávöxtunarkröfunni sem gerð er til þeirra. Ávöxtunarkrafan er m.a. háð væntingum fjárfesta til verðbólgu, greiðslufallsáhættu og vaxta í framtíðinni. Því meiri áhættu sem fjárfestar telja fylgja skuldabréfi því hærri kröfu um ávöxtun gera þeir.
Sjóður
Sjóður er sameiginleg fjárfesting margra aðila. Með því að fjárfesta í sjóði eignast fjárfestir svokallað hlutdeildarskírteini í sjóðnum sem líta má á sem ávísun á hlut í eignasafninu. Sjóðir hafa þá kosti að þeir samanstanda af mörgum eignum. Almennt er talið jákvætt að dreifa áhættu og margir hafa eflaust heyrt um að setja ekki öll eggin í sömu körfuna. Með því að fjárfesta í ólíkum eignaflokkum, atvinnugreinum, landssvæðum eða útgefendum er mögulegt að draga úr áhættu án þess að það hafi áhrif á vænta ávöxtun. Sjóðir eru misjafnlega uppbyggðir og áður en þú tekur fjárfestingarákvörðun þarftu að mynda þér skoðun á hvort þú viljir t.d. aðeins fjárfesta í áhættuminni eignum eins og skuldabréfum eða í áhættumeiri eignum eins og hlutabréfum eða blanda þessum ólíku eignaflokkum saman.
Tegundir sjóða
- Lausafjársjóðir
- Fjárfestingar í innlánum, stuttum skuldabréfum og víxlum
- Skuldabréfasjóðir
- Fjárfestingar í skuldabréfum
- Hlutabréfasjóðir
- Fjárfestingar í hlutabréfum
- Blandaðir sjóðir
- Fjárfestingar í hlutabréfum, skuldabréfum og innlánum
- Vísitölusjóðir
- Fjárfestingar í sömu hlutföllum og skilgreindar viðmiðunarvísitölur
Hvernig kaupi ég skráð hlutabréf, skuldabréf eða í sjóði?
Til þess að geta keypt hlutabréf, skuldabréf eða í sjóðum þarft þú að stofna til verðbréfaviðskipta. Þú svarar nokkrum spurningum um þekkingu og reynslu á verðbréfaviðskiptum og í kjölfarið er stofnað verðbréfasafn sem er nauðsynlegt fyrir uppgjör viðskipta með verðbréf og sjóði. Fjárhæðir fara ýmist inn eða út af safninu eftir því hvort verið sé að kaupa eða selja og auk þess eru vextir og arðgreiðslur lagðar inn á safnið. Þegar þú hefur lokið við að stofna til verðbréfaviðskipta er einfalt að ganga frá kaupum í sjóðum Stefnis eða hlutabréfum í Arion appinu eða í netbanka. Á vef Keldunnar er hægt að fylgjst með skuldabréfum sem eru skráð á markað. Til að eiga í viðskiptum með stök skuldabréf er best að hafa samband við verðbréfaráðgjöf Arion í síma 444 7000. Í Arion appinu má fylgjast með stöðu og hreyfingum á safninu hvenær sem þér hentar.
Viltu auka þekkinguna þína?
Fyrirvari
Upplýsingar sem birtast á þessari síðu eru markaðsefni í skilningi laga um markaði fyrir fjármálagerninga og er þeim miðlað í markaðslegum tilgangi.
Fjárfestingum í fjármálagerningum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta, svo sem hætta á að ekki verði um neina ávöxtun að ræða eða að höfuðstóll tapist. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um árangur í framtíð. Vakin er athygli á að ávöxtun getur aukist eða minnkað vegna gengisflökts gjaldmiðla. Á umfjöllun þessa skal ekki litið sem ráðleggingu eða ráðgjöf um að ráðast í eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.
Hvað varðar fjárfestingar í sjóðum er rétt að taka fram að í útboðslýsingu og lykilupplýsingum verðbréfasjóða og sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta er að finna nánari upplýsingar um viðkomandi sjóð, m.a. um áhættu og hvort umræddur sjóður telst verðbréfasjóður eða sérhæfður sjóður fyrir almenna fjárfesta. Varðandi þá sjóði sem er að finna á vefsíðu bankans undir yfirliti sjóða þá má nálgast útboðslýsingu, lykilupplýsingar o.fl. vegna viðkomandi sjóðs með því að smella á heiti sjóðs. Jafnframt er hægt að nálgast framangreind gögn í útibúum bankans.
Arion banki er helsti söluaðili sjóða Stefnis hf. sem er með starfsleyfi frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands sem rekstrarfélag verðbréfasjóða skv. lögum nr. 116/2021, um verðbréfasjóði og rekstraraðili sérhæfðra sjóða skv. lögum nr. 45/2020, um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Stefnir er dótturfélag Arion banka hf. Sjá nánari upplýsingar um sjóði Stefnis hf. á heimasíðu félagsins https://www.stefnir.is.