Ríflega þreföld eftirspurn í hlutafjárútboði Hampiðjunnar

Ríflega þreföld eftirspurn í hlutafjárútboði Hampiðjunnar

Ríflega þreföld eftirspurn í hlutafjárútboði Hampiðjunnar - mynd

  • Um 3.700 áskriftir bárust fyrir um 32,3 milljarða króna.
  • Í áskriftarbók A er útboðsgengi 120 kr. á hlut. Áskriftir upp að 500 þúsund krónum að kaupverði voru ekki skertar. Skerðing áskrifta var að öðru leyti hlutfallsleg.
  • Í áskriftarbók B er útboðsgengi 130 kr. á hlut. Skerðing áskrifta var í samræmi við skilmála útboðsins. Fjárfestar sem tilgreindu lægra útboðsgengi fengu enga úthlutun.
  • Söluandvirði nemur um 10,9 milljörðum króna.

Almennu hlutafjárútboði Hampiðjunnar hf. lauk kl. 14:00 þann 2. júní. Alls bárust um 3.700 áskriftir að andvirði um 32,3 ma.kr. sem samsvarar ríflega þrefaldri eftirspurn. Tæplega sexföld eftirspurn var eftir þeim hlutum sem boðnir voru í áskriftarbók A. Tæplega þreföld eftirspurn var eftir hlutum sem boðnir voru í áskriftarbók B. Útboðsgengi í áskriftarbók A var fast, 120 kr. á hlut, en í áskriftarbók B er endanlegt útboðsgengi 130 kr. á hlut.

Seldir hlutir í áskriftarbók A nema 17 milljón hlutum að söluandvirði um 2 milljarðar króna. Við úthlutun voru áskriftir almennt skertar sem nemur um 95% en þó þannig að viðmiðum gagnvart áskriftum starfsmanna Hampiðjunnar og almennum áskriftum var fylgt, líkt og stefnt var að samkvæmt skilmálum útboðsins. Seldir hlutir í áskriftarbók B nema 68 milljón hlutum að söluandvirði um 8,8 milljörðum króna. Áskriftir í áskriftarbók B voru skertar hlutfallslega sem nemur um 40%.

Heildarfjöldi seldra hluta í útboðinu nam alls 85 milljón hlutum og heildarsöluandvirði hlutafjárútboðsins nam um 10,9 milljörðum króna.

Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar:

„Það er virkilega ánægjulegt að finna áhuga fjárfesta á Hampiðjunni en á þessum merku tímamótum bjóðum við mikinn fjölda hluthafa velkomna í hluthafahóp félagsins. Hlutafjáraukningin veitir okkur aukið bolmagn til að takast á við fyrirliggjandi verkefni af auknum krafti. Hampiðjan snýr nú aftur á Aðalmarkað eftir sextán ára fjarveru sem eitt af stærstu félögum markaðarins.“

Fjárfestum verður tilkynnt um úthlutun í útboðinu eigi síðar en 5. júní.

Gjalddagi áskriftarloforða fjárfesta er 7. júní næstkomandi og er ráðgert að afhending hinna nýju hluta til fjárfesta fari fram þann 9. júní.

Stefnt er að því að viðskipti með hlutabréf félagsins á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland hf. hefjist þann 9. júní næstkomandi, en Nasdaq Iceland hf. hefur samþykkt umsókn félagsins um töku hlutabréfanna til viðskipta án fyrirvara.

Arion banki hafði umsjón með almennu hlutafjárútboði Hampiðjunnar.

 

Fleiri fréttir

10. mars 2021

Vel heppnað hlutafjárútboð Arctic Fish

Arctic Fish hefur lokið hlutafjárútboði að fjárhæð 600 milljónir norskra króna, eða sem samsvarar um 9,0 milljörðum íslenskra króna. Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka ásamt DNB og Pareto voru ráðgjafar...

LESA NÁNAR

21. október 2020

Eskja hf. eykur fjölbreytni í fjármögnun

Eskja hf. hefur lokið útboði á tveimur víxlaflokkum til þriggja mánaða í erlendri mynt. Umtalsverð eftirspurn var í útboðinu og bárust tilboð að fjárhæð 4.265.000 USD í flokkinn ESKJAUSD0121 og...

LESA NÁNAR