Skipting eftirlaunaréttinda - er það eitthvað sem gæti hentað?

Skipting eftirlaunaréttinda - er það eitthvað sem gæti hentað?

Skipting eftirlaunaréttinda - er það eitthvað sem gæti hentað? - mynd

Ójöfn staða sambúðaraðila hvað varðar lífeyrisréttindi hefur verið nokkuð í umræðunni. Í lögum um lífeyrissjóði er til staðar jöfnunarúrræði sem heimilar skiptingu eftirlaunaréttinda eða lífeyrisgreiðslna milli hjóna eða sambúðaraðila með frjálsum samningum. Margt þarf þó að hafa í huga þegar skoðað er hvort skipting eftirlaunaréttinda henti og ekki hægt að fullyrða að sú leið sé alltaf hin rétta í stöðunni.

Ef ákveðið er að skipta lífeyrisréttindum nær skiptingin eingöngu til eftirlaunaréttinda þeirra sem eru eða hafa verið í hjúskap eða óvígðri sambúð og til réttinda sem orðið hafa til á þeim tíma. Skiptingin þarf að vera gagnkvæm, jöfn og ná til allra lífeyrissjóða sem sjóðfélagi og maki eiga réttindi í. Lagaskilyrði um heilsufar og aldur eiga við um skiptingu áunninna réttinda svo skoða þarf þann valmöguleika tímanlega.

Skipting eftirlaunaréttinda

Tvær leiðir eru mögulegar þegar kemur að skiptingu eftirlaunaréttinda, skipting áunninna réttinda og skipting framtíðarréttinda. Umræddar leiðir er oftast farnar þegar munur á lífeyrisréttindum er mikill og makalífeyrisréttindi í lífeyrissjóði þess sem á hærri réttindi eru lítil. Velji sjóðfélagi og maki þessa leið er hægt að skipta allt að helmingi lífeyrisréttinda sem söfnuðust á sambúðartímabili eða skipta framtíðargreiðslum sem berast í lífeyrissjóð þannig að réttindi myndist fyrir hvorn aðila fyrir sig. Maki eignast þannig sjálfstæðan eftirlaunarétt sem nemur allt að helmingi eftirlaunaréttinda sjóðfélaga en maka- og örorkulífeyrisréttur skiptist hins vegar ekki. Sá möguleiki er auðvitað einnig fyrir hendi að velja báðar leiðir í einu, skipta því sem hefur áunnist og því sem mun ávinnast þau ár sem sjóðfélagi á eftir í starfi.

Hafa þarf í huga að úrræðinu er ætlað að jafna heildarstöðu lífeyrisréttinda milli hjóna, ekki gera réttindi maka hærri en sjóðfélaga. Í sjóðum þar sem makalífeyrisréttur er ævilangur þarf því að huga sérstaklega vel að kostum og göllum skiptingar. Liggi réttindi sjóðfélaga svo til eingöngu í slíkum sjóði og lítill eða enginn eftirlaunaréttur er til staðar hjá maka getur slík skipting orðið til þess að maki stendur uppi með hærri réttindi en sjóðfélagi þar sem hann á nú helming eftirlaunaréttinda sjóðfélaga ásamt fullum rétti til makalífeyris. Sjóðfélaginn sjálfur á hins vegar engin makalífeyrisréttindi og hefur látið eftir helming eftirlaunaréttinda sinna.

Skipting eftirlaunagreiðslna

Sé þessi leið valin er einungis um að ræða skiptingu á eftirlaunagreiðslum, þ.e eftir að taka eftirlauna er hafin. Við fráfall sjóðfélaga falla greiðslur til maka niður, en makalífeyrisgreiðslur taka þá við. Við fráfall maka fær sjóðfélagi hins vegar greidd öll eftirlaunin á ný. Þessi leið er til dæmis farin komi til þess að sjóðfélagi og maki geti ekki lengur haldið heimili saman sökum heilsufars á efri árum eða í þeim tilgangi að jafna skattbyrði.

En hvert er þá svarið, hvað er best fyrir okkur að gera?

Eftirlaunaréttindi sem og réttur til makalífeyris er ólíkur milli sjóða. Flest höfum við safnað réttindum í nokkrum sjóðum um ævina og því er lykilatriði að kynna sér öll réttindi áður en ákvörðun um skiptingu er tekin. Að því loknu er fyrsta spurningin sem þarf að velta fyrir sér hversu löng ævi sjóðfélagans og makans verður. Blessunarlega veit ekkert okkar svarið við þeirri spurningu né heldur vitum við með vissu hvernig efri árin verða, hvort við munum geta búið heima síðasta æviskeiðið eða hvort við munum njóta þjónustu hjúkrunarheimilis á einhverju tímabili. Ákvörðun um skiptingu lífeyrisréttinda byggist því óhjákvæmilega á einhvers konar líkindamati á því hvað framtíðin muni bera með sér. Standi vilji beggja aðila til þess að fara í slíka skiptingu þarf einnig að skoða hver af þeim þremur leiðum sem hér hefur verið fjallað um henti best.

Frekari upplýsingar má nálgast á vef Landssamtaka lífeyrissjóða, lifeyrismal.is, eða á heimasíðu þíns lífeyrissjóðs.

 

Fréttasafn

14. febrúar 2024

Fræðslufundur

Fræðslufundi um Lífeyrisauka, viðbótarlífeyrissparnað Arion, verður streymt á Facebook síðu Arion...

LESA NÁNAR

31. mars 2023

Rafræn yfirlit

Nýlega samþykkti Alþingi breytingar á lífeyrissjóðalögunum sem varða m.a. upplýsingagjöf til...

LESA NÁNAR