Viðbótarlífeyrissparnaður
Lífeyrisauki, viðbótarlífeyrissparnaður Arion er einföld leið til að auka tekjurnar og spara um leið. Hvort sem þú ert að spara til efri áranna eða til að auðvelda þér íbúðakaupin þá er viðbótarlífeyrissparnaður góð leið.
Reglur sjóðsins
1. gr. Vörslusamningar um lífeyrissparnað
Reglur þessar taka til samninga um lífeyrissparnað sem stofnað er til á grundvelli II. kafla laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Allir þeir sem uppfylla ákvæði fyrrgreindra laga um greiðslu iðgjalds til lágmarkstryggingarverndar hjá lífeyrissjóði geta fengið aðild að Lífeyrisauka. Með undirritun rétthafa á samningi Lífeyrisauka samþykkir hann að hlíta reglum þessum.
2. gr. Skil á samningi til launagreiðanda
Þegar samningur hefur komist á um lífeyrissparnað skal Arion banki hf. senda launagreiðanda afrit af samningnum.
3. gr. Iðgjaldagreiðslur
Iðgjöld skulu greiðast mánaðarlega. Gjalddagi iðgjaldagreiðslutímabils er tíundi næsta mánaðar. Eindagi skal vera síðasti dagur sama mánaðar og iðgjald fellur í gjalddaga. Í samningi um Lífeyrisauka skal fjárhæðin tilgreind í krónum eða sem hlutfall af launum. Iðgjaldagreiðslur skulu hefjast eigi síðar en 2 mánuðum eftir undirritun samnings um Lífeyrisauka. Iðgjöld greiðast með þeim hætti sem samningur um Lífeyrisauka kveður á um, nema gerður sé sérstakur samningur um annað fyrirkomulag síðar.
Arion banka hf. ber að ávaxta greitt iðgjald samkvæmt samningi um Lífeyrisauka frá þeim degi er bankanum berst iðgjald vegna rétthafa. Berist skilagrein frá launagreiðanda síðar en iðgjöld er Arion banka hf. skylt að reikna vexti frá skráningardegi skilagreinar í samræmi við þá fjárfestingarleið sem í gildi er samkvæmt samningi um Lífeyrisauka, enda geti bankinn ekki áður sérgreint fé rétthafa sem launagreiðandi greiðir iðgjald fyrir. Iðgjald skal bera sömu vexti og Fjárhæðarþrep Arion banka hf. hverju sinni frá þeim tíma sem það berst vörsluaðila þar til skilagrein er skráð.
4. gr. Ráðstöfun iðgjalds
Í samningi um Lífeyrisauka ákveður rétthafi hvernig iðgjaldi hans skuli ráðstafað til ávöxtunar í fjárfestingarleið með fyrirfram ákveðinni fjárfestingarstefnu. Heimilt er að ráðstafa hluta iðgjalds til kaupa á heilsutryggingum. Um greiðslu vátryggingabóta fer skv. 7. gr. reglna þessara. Þar til bætur eru greiddar út skulu þær ávaxtaðar í samræmi við fjárfestingarleið er rétthafi hefur valið. Rétthafi getur ávallt breytt ákvörðun sinni vegna framtíðariðgjalda með skriflegri tilkynningu til Arion banka hf.
5. gr. Fjárfestingarleiðir
Rétthafar Lífeyrisauka geta valið á milli mismunandi fjárfestingarleiða til að ávaxta innstæðu sína. Ávöxtunarmöguleikarnir eru nokkrir sem felst nánar tiltekið í því að í boði er mismunandi hlutfall hlutabréfa í safni á móti öðrum fjármálagerningum, s.s. skuldabréfum og víxlum, sem og innlánum í bönkum og sparisjóðum. Rétthafar geta flutt innstæðu sína á milli fjárfestingarleiða. Kostnaður við flutninginn skal vera skv. gildandi gjaldskrá Arion banka hf. á hverjum tíma en að hámarki 0,5% af inneign rétthafa. Jafnframt geta rétthafar valið að færast sjálfkrafa milli þessara fjárfestingarleiða skv. Ævilínu 1 án kostnaðar.
Flutningur skv. Ævilínu 1 fer þannig fram að inneign er flutt á milli fjárfestingarleiða í jöfnum áföngum á fimm árum með þeirri undantekningu að flutningur á inneign rétthafa úr Lífeyrisauka 4 í Lífeyrisauka 5 er framkvæmdur í heilu lagi. Iðgjöldum, sem berast eftir að flutningur inneignar á milli fjárfestingarleiða er hafinn, er ráðstafað óskipt í þá fjárfestingarleið sem inneign flyst í. Í þeim tilvikum sem fjárfest er í erlendum myntum er stefnan að nota gjaldeyrisvarnir með því markmiði að draga úr áhættu af gengisbreytingum erlendra gjaldmiðla. Arion banki hf. annast eignastýringu skv. stefnu sjóðsins, en er heimilt að úthýsa eignastýringunni til Stefnis hf.
6. gr. Ráðstöfun iðgjalda við nýjan samning
Ef fyrir liggur samningur við rétthafa um sama efni eða ef iðgjöld rétthafa hafa borist án þess að samningur hafi verið gerður þá kemur nýjasti samningur rétthafa í stað eldri samnings eða eldra fyrirkomulags. Þ.e. framtíðariðgjöldum allra launagreiðenda verður ráðstafað samkvæmt nýjasta samningi rétthafa. Velji rétthafi Ævilínu en á uppsafnaða inneign í annarri fjárfestingarleið, þá mun hún við valið flytjast í þá fjárfestingarleið sem tilheyrir Ævilínu og fylgja henni. Þó verður inneign í Lífeyrisauka 5, Erlendum verðbréfum og Innlendum skuldabréfum ekki flutt skv. þessu. Velji rétthafi hins vegar aðra fjárfestingarleið en Ævilínu en á uppsafnaða inneign í Ævilínu, þá mun hún við valið sitja eftir í þeirri fjárfestingarleið sem tilheyrir Ævilínu en mun framvegis ekki verða flutt samkvæmt reglum um Ævilínu.
7. gr. Útborgun sparnaðar
Útborgun sparnaðar getur aðeins komið til vegna aldurs, örorku eða andláts rétthafa. Rétthafi getur hafið úttekt á innstæðu eða gert sérstakan útborgunarsamning 2 árum eftir fyrstu greiðslu iðgjalds.Þegar rétthafi er orðinn 60 ára er heimilt að greiða út lífeyrissparnað ásamt vöxtum.
Deyi rétthafi áður en innstæða er að fullu greidd út fellur hún til erfingja hans og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga. Láti rétthafi ekki eftir sig maka eða barn rennur innstæðan til dánarbúsins og gildir þá ekki takmörkunin í 2. málsl. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997.
Verði rétthafi öryrki og orkutapið sem hann verður fyrir er 100% á hann rétt á að fá lífeyrissparnað og vexti greidda út með jöfnum árlegum greiðslum á 7 árum. Árleg útborgun lækkar og úttektartími lengist í hlutfalli við lækkun örorkuprósentu, sbr. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997. Útborgun getur í fyrsta lagi hafist þegar vottorð um örorku og orkutap liggja fyrir. Ef innstæða rétthafa sem orðið hefur fyrir orkutapi er undir kr. 500.000 þegar að útgreiðslu kemur er hún greidd út í eingreiðslu, sé þess óskað.
Viðmiðunarfjárhæð þessi breytist árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 173,5 stig. Unnt er að semja um annan og lengri útborgunartíma en greinir hér fyrir ofan. Með jöfnum greiðslum hér fyrir framan er átt við greiðslur að tiltölu við fjölda greiðsluára þannig að rétthafi fái á hverju ári þann hluta innstæðunnar að meðtöldum vöxtum sem samsvarar tölu þeirra ára sem eftir standa af endurgreiðslutímanum.
8. gr. Uppsögn samnings
Undirritun rétthafa á samninginn skuldbindur hann ekki fyrr en fjórtán dögum frá gerð samningsins og er rétthafa heimilt að falla frá samningi innan þess frests. Samningi um Lífeyrisauka er hægt að segja upp með tveggja mánaða fyrirvara. Uppsögn skal vera skrifleg og undirrituð af rétthafa. Uppsögn veitir ekki rétt til útborgunar innstæðu. Hætti iðgjöld vegna rétthafa að berast til Arion banka hf. af einhverjum ástæðum verður innstæðan ásamt vöxtum ávöxtuð áfram hjá bankanum og greidd út samkvæmt útborgunarreglum 7. gr.
9. gr. Flutningur milli vörsluaðila
Heimilt er að flytja innstæðu til annarra vörsluaðila sem geta boðið samninga af þessu tagi, sbr. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997, óski rétthafi eftir því við Arion banka hf. með skriflegri tilkynningu. Flutningurinn skal eiga sér stað innan tveggja mánaða frá móttöku flutningsbeiðni frá rétthafa. Kostnaður vegna flutnings skal vera skv. gildandi gjaldskrá Arion banka hf. á hverjum tíma að hámarki 0,5% af inneign rétthafa en að lágmarki 5.000 kr.
10. gr. Framsal réttinda
Rétthafa er óheimilt að framselja, veðsetja eða á annan hátt ráðstafa innstæðu eða réttindum skv. samningi um aðild að Lífeyrisauka, nema samkvæmt 1. - 3. tl. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997.
11. gr. Breyting á reglum
Arion banka hf. er heimilt að breyta reglum þessum að undangengnu samþykki fjármálaráðherra.
12. gr. Innheimta
Ábyrgð á skilum launagreiðanda á afdregnum iðgjöldum lífeyrissparnaðar er hjá rétthafa. Óski rétthafi eftir aðstoð Arion banka hf. við innheimtu vangoldinna iðgjalda skal tilkynning þess efnis berast með skriflegum hætti til bankans ásamt launaseðlum sem sýna afdregin iðgjöld. Við gjaldþrot launagreiðanda ábyrgist Ábyrgðasjóður launa kröfur um vangoldin iðgjöld sem fallið hafa í gjalddaga að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. III. kafla reglugerðar nr. 462/2003, um Ábyrgðasjóð launa, sem er að finna á www.arionbanki.is/lifeyrir.
13. gr. Samruni Vista og Lífeyrisauka
Þann 1. júní 2012 rann Vista saman við Lífeyrisauka. Eftir samrunann skal, um réttindi eldri rétthafa í Lífeyrisauka (þ.e. þeirra sem gerðu samning um lífeyrissparnað við Lífeyrisauka fyrir samrunann) og rétthafa sem öðlast aðild eftir samrunann, fara eftir reglum þeim er að framan greinir. Um réttindi eldri rétthafa í Vista (þ.e. þeirra sem gerðu samning um lífeyrissparnað við Vista fyrir samrunann) skal fara eftir reglum þeim er að framan greinir með þeim viðbótum sem koma fram í 14. og 15. gr. og gilda frá 1. júní 2012.
14. gr. Flutningur úr fjárfestingarleiðum Vista í fjárfestingarleiðir Lífeyrisauka
Inneign rétthafa í fjárfestingarleiðum Vista fluttist í samsvarandi fjárfestingarleiðir í Lífeyrisauka m.v. 1. júní 2012 í samræmi við neðangreinda töflu:
Flutningur úr fjárfestingarleið Vista Flutningur í fjárfestingarleið Lífeyrisauka Vista 1 Lífeyrisauki 1 Vista 2 Lífeyrisauki 2 Vista 3 Lífeyrisauki 3 Vista 4 Lífeyrisauki 4 Vista 5 Lífeyrisauki 5 Erlend verðbréf Erlend verðbréf Innlend skuldabréf Innlend skuldabréf Rétthafar, sem greiddu iðgjöld í Vista 1 fyrir samruna, greiða iðgjöld í Lífeyrisauka 1 eftir samruna, þeir sem greiddu iðgjöld í Vista 2 fyrir samruna greiða iðgjöld til Lífeyrisauka 2 o.s.frv. í samræmi við fyrirkomulag um flutning á inneign í ofangreindri töflu. Rétthafar sem greiddu í Ævilínu 1 í Vista fyrir samruna greiða iðgjöld í Ævilínu 1 í Lífeyrisauka eftir samruna og þeir sem greiddu í Ævilínu 2 í Vista fyrir samruna greiða í Ævilínu 2 í Lífeyrisauka eftir samruna. Iðgjöld sem voru greidd í Vista en voru óbókuð við samruna sjóðanna vegna vöntunar á skilagreinum eru bókuð í Lífeyrisauka eftir samruna þegar skilagreinar berast. Greiðslum á iðgjöldum sem voru vangreidd í Vista fyrir samruna verður ráðstafað í Lífeyrisauka eftir samruna. Flutningsbeiðnir á inneign milli fjárfestingarleiða í Vista eða úr sjóðnum sem bárust fyrir samruna en voru óafgreiddar verða framkvæmdar í/úr Lífeyrisauka eftir samruna. Iðgjöld sem bókuð höfðu verið í Vista, en voru ógreidd við samruna, bakfærast í Lífeyrisauka eftir samruna, greiðist þau ekki. Ef iðgjald er greitt í Vista fyrir samruna, en þarf að bakfæra eftir samruna, þá mun það dragast frá þeirri inneign sem rétthafi á í Lífeyrisauka eftir samruna. Rétthafar sem höfðu óskað eftir útgreiðslu úr Vista en höfðu ekki fengið greitt út fyrir samruna munu fá greitt úr Lífeyrisauka eftir samruna.
15. gr. Sérstök ákvæði um rétthafa sem fluttust úr Vista
Eftirfarandi ákvæði gilda um þá rétthafa sem fluttust úr Vista í Lífeyrisauka við samruna sjóðanna. Við ákvæði 7. gr. bætist eftirfarandi:
Lokabónus er tvíþættur:
- Á hverju ári til 58 ára aldurs og eftir 60 ára aldur greiðir Arion banki hf. sem nemur 0,3% af heildareign rétthafans inn í lokabónus hans. Greiðslu þessari lýkur þegar útgreiðsla hefst.
- Frá 58 ára aldri fram til 60 ára aldurs (2 ár) er greitt mánaðarlega í lokabónus rétthafans, hlutdeild hans í umsýsluþóknun sjóðsins.
Lokabónus er ávaxtaður samhliða inneign rétthafa skv. þeirri fjárfestingarleið sem rétthafi hefur valið sér. Lokabónus er laus til útgreiðslu við 60 ára aldur við fráfall eða örorku skv. reglum um útborgun séreignar. Lokabónusinn er ekki greiddur út ef rétthafi flytur eign sína fyrir 60 ára aldur en ef rétthafi hættir að greiða í sjóðinn en flytur ekki inneign missir hann ekki rétt til lokabónuss.
Við ákvæði 9. gr. bætist eftirfarandi:
Komi til flutnings á innistæðu til annarra vörsluaðila tapar rétthafi lokabónus í hlutfalli við þá fjárhæð sem er flutt úr viðkomandi fjárfestingarleið.
16. gr. Sérstök ákvæði er eiga við þá rétthafa sem áttu inneign bæði í Vista og Lífeyrisauka við samruna
Þeir rétthafar sem við samruna áttu bæði inneign í Vista og Lífeyrisauka fá greiðslur skv. 1. og 2. tl. 2. mgr. 15. gr., er reiknast af heildareign í sameinuðum sjóði. Iðgjöld sem greiðast í Lífeyrisauka eftir samruna reiknast með í stöðu heildarinneignar hvort sem iðgjöld eiga uppruna frá Vista samningi eða Lífeyrisaukasamningi.
Varðandi þá rétthafa sem eiga inneign bæði í Vista og Lífeyrisauka við samruna, þá er framtíðariðgjöldum þeirra í sameinuðum sjóði ráðstafað í fjárfestingarleið skv. þeirri áskrift sem síðust var stofnuð þegar horft er til beggja sjóða. Áskrift getur verið stofnuð með nýjum samningi, breytingu á fjárfestingarleið, tilkynningu á nýjum launagreiðanda, breytingu á greiðsluformi og breytingu á hlutfalli iðgjalds o.fl.
Hafi rétthafi verið í Ævilínu í öðrum sjóðnum en ekki hinum, þá gildir það sama, þ.e. framtíðariðgjöldum er ráðstafað í þá fjárfestingarleið sem tilheyrir áskrift sem stofnuð er síðar. Þetta þýðir að hjá þeim rétthöfum þar sem Ævilína tilheyrir nýrri áskriftinni þá flyst inneign þeirra í þá fjárfestingarleið sem tilheyrir Ævilínu við næsta Ævilínuflutning og fylgir henni. Þetta á þó ekki við um inneign í Vista 5, Erlendum verðbréfum og Innlendum skuldabréfum. Hafi Ævilína verið eldri áskriftin, þá situr sú inneign sem tilheyrir Ævilínu við samruna eftir í þeirri fjárfestingarleið sem tilheyrir Ævilínu en mun framvegis ekki verða flutt samkvæmt reglum um Ævilínu.
Hafi rétthafi verið í Ævilínu 1 í öðrum sjóðnum og Ævilínu 2 í hinum verður framtíðariðgjöldum og inneign eldri Ævilínuáskriftar ráðstafað í þá fjárfestingarleið sem tilheyrir þeirri Ævilínu sem stofnuð var síðar við næsta Ævilínuflutning.
17. gr. Ákvæði um samninga um kaup á líftryggingum
Óheimilt að gera nýja samninga um kaup líftrygginga en þegar gerðir samningar skulu halda gildi sínu.
Reglur sem eiga eingöngu við rétthafa sem gera samning um Örorkutryggingu Varðar
1. gr. Almennir skilmálar
Um örorkutryggingu vegna slyss og sjúkdóma (örorkutryggingu) gilda vátryggingarskilmálar Varðar Trygginga. Arion banki hf., sem vörsluaðili Lífeyrisauka, skuldbindur sig til að ráðstafa hluta iðgjalds rétthafa, sem eru á aldursbilinu 20-60 ára, til greiðslu iðgjalds örorkutryggingar í samræmi við samning rétthafa og Varðar Trygginga hf. og skilmála vátryggingarinnar. Komi til þess að greiðsluskylda Varðar líftrygginga hf. verði virk skv. vátryggingunni og vátryggingarbætur verði greiddar, mun Arion banki hf. taka á móti greiðslunni og ráðstafa henni í fjárfestingarleið/ir rétthafa í Lífeyrisauka. Að fullnægðum skilyrðum útborgunarreglna 11. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og í samræmi við þau skattalög sem gilda á hverjum tíma, verður viðbótarlífeyrissparnaðurinn greiddur úr Lífeyrisauka til rétthafa lífeyrissparnaðarins.
2. gr. Uppsögn á Örorkutryggingu Varðar
Uppsögn rétthafa á samningi um Lífeyrisauka felur sjálfkrafa í sér uppsögn á örorkutryggingu Varðar.
Gildistaka
Reglurnar tóku gildi 1. janúar 2012 samhliða uppfærðri fjárfestingarstefnu Lífeyrisauka í samræmi við 36. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.