Sérhæfðar innlendar fjárfestingar Lífeyrisauka

Sérhæfðar innlendar fjárfestingar Lífeyrisauka

Áhættudreifing er mikilvægur þáttur í uppbyggingu eignasafna, sérstaklega þeirra sem hafa langan fjárfestingartíma, þar sem með henni má halda fram að dregið sé úr sveiflum í ávöxtun. Með hliðsjón af þessu hefur starfsstjórn Lífeyrisauka sett sér það markmið í fjárfestingarstefnu undanfarinna ára að byggja upp dreift og fjölbreytt eignasafn bæði innanlands og erlendis.

Með breyttu fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóða í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 hóf Lífeyrisauki vegferð sína í innlendum sérhæfðum fjárfestingum. Slíkar fjárfestingar fela almennt í sér lengri binditíma, eru oft óskráðar og þar með að jafnaði tregseljanlegri en hefðbundnari fjárfestingar. Ávöxtunarkrafa til sérhæfðra fjárfestinga er yfirleitt hærri en til hefðbundinna fjárfestingarkosta en að sama skapi fylgir þeim oft heldur meiri áhætta. Dæmi um sérhæfðar fjárfestingar eru framtaks-, vísis-, innviða- og fasteignafjárfestingar en einnig sérhæfð lán og önnur sambærileg verkefni. Form þessara fjárfestinga er yfirleitt sjóðafyrirkomulag. Sérþekking hefur byggst upp innanlands undanfarin ár og talsverð gróska hefur verið efnahagsumhverfi fyrirtækja. Á sama tíma hafa einnig myndast tækifær til fjárfestinga í vísisjóðum (e. Venture) og hefur Lífeyrisauki fjárfest í þremur vísisjóðum sem eru 5% af sérhæfðum fjárfestingum sjóðsins.

Eins og hefur verið nefnt eru sérhæfðar fjárfestingar ólíkar hefðbundnari fjárfestingum að því leyti að fyrstu 12 til 18 mánuði má gera ráða fyrir að fjárfestingin sé að öllu jöfnu enn á sama verði og hún var keypt á og því enginn ábati eða tap fyrst um sinn. Gjarnan er fjárfestingartímabil slíkra sjóða um fjögur ár en rekstrartími þeirra getur orðið vel yfir áratug. Ferli í verðþróun sérhæfðra fjárfestinga er líkt við lögun J-kúrfu en þar er um að ræða sjónræna framsetningu á þeirri staðreynd að kostnaður kemur oft sem undanfari ábata sem kemur síðar. Í upphafi ferils sérhæfðra fjárfestinga getur kostnaður verið hár m.a. vegna vinnu á skoðun fjárfestingakosta, meðan fyrirtækin eru að byggjast upp svo og öðrum stofnkostnaði fjárfestinga. Aftur á móti eru væntingar um að fjárfestingarnar skili ávöxtun sinni þegar líða tekur á fjárfestingartímabilið. Endanleg niðurstaða af fjárfestingu er þó ekki ljós fyrr en við sölu eigna og sjóðnum hefur verið endanlega slitið.

Frá árinu 2011 hefur eignaflokkurinn, innlendar sérhæfðar fjárfestingar í heild sinni, skilað um 2.067 milljón króna hagnaði af heildarfjárfestingu upp á um 6.493 milljónir króna. Í texta og myndum hér að neðan má sjá árangur einstakra fjárfestinga sem eru nýhafnar (ljósbláar súlur), komnar langt á veg (bláar súlur) eða er lokið (dökkgráar súlur).

Framtaksfjárfestingar:
  • Íslenski Athafnasjóðurinn: Árið 2011 ákvað Lífeyrisauki að taka þátt í Íslenska athafnasjóðnum á vegum Stefnis sem meðal annars fjárfesti í Högum, Sjóvá og 66 Norður. Sjóðnum var slitið árið 2022. Árleg ávöxtun var um 17%.
  • Kjölfesta: Árið 2012 fjárfesti Lífeyrisauki í framtakssjóðnum Kjölfestu sem var samstarf Virðingar og ALM ráðgjafar. Sjóðurinn fjárfesti meðal annars í Meniga, Oddi, Senu, Íslands hótel. Árleg ávöxtun er um 1%.
  • Framtaksfjárfestingarsjóðurinn HORN II: Árið 2013 ákvað Lífeyrisauki að fjárfesta í framtaksfjárfestingasjóðnum Horn II á vegum sjóðastýringarfélagsins Landsbréfa sem meðal annars fjárfesti í félögunum Hvatningu, stærsta eiganda Bláa Lónsins, Fáfni Offshore og Kea hótelum. Sjóðnum var slitið árið 2022. Árleg ávöxtun var um 25%.
  • Íslenski Athafnasjóðurinn II: Árið 2013 fjárfesti Lífeyrisauki í framhaldssjóð Íslenska athafnasjóðsins á vegum Stefnis, Íslenska athafnasjóðsins II. Hann fjárfesti meðal annars í Festi, Skeljungi, Verne Global og Icelandia (áður Kynnisferðir). Árleg ávöxtun er um 14%.
  • Edda slhf: Árið 2013 fjárfesti Lífeyrisauki í innlenda framtakssjóðnum Eddu hjá sjóðastýringarfyrirtækinu Virðingu. Sjóðurinn fjárfesti meðal annars í Dominos, Securitas, Marorku og Íslands hótelum. Árleg ávöxtun er um 10%.
  • SF V (Festi): Árið 2014 fjárfesti Lífeyrisauki í félagi sem var stofnað utan um fjárfestingu í fyrirtækinu Festi, sem á sínum tíma voru meðal annars verslanirnar Krónan og Elko. Sjóðnum var slitið árið 2020. Árleg ávöxtun fjárfestingarinnar var um 27%.
  • PCC Bakki: Árið 2015 fjárfesti Lífeyrisauki í kísilverksmiðju PCC við Húsavík. Þrátt fyrir að líftíma verkefnisins sé ekki lokið og ekki komið að endapunkti þá hafa erfiðleikar í rekstri og aukin fjárþörf orðið til þess að sjóðurinn hefur fært eignina niður í 63% af fjárfestingu.
  • Íslenski Athafnasjóðurinn III: Árið 2016 fjárfesti Lífeyrisauki í framhaldssjóði Íslenska athafnasjóðsins á vegum Stefnis sem meðal annars fjárfesti í Reykjavík EDITION, Terra, HD (áður Hamri), Lyfju og Men&Mice. Árleg ávöxtun er um 14%.
  • Framtaksfjárfestingarsjóðurinn HORN III: Árið 2016 fjárfesti Lífeyrisauki í framtaksfjárfestingarsjóðnum Horn III á vegum sjóðastýringarfélagsins Landsbréfa sem meðal annars fjárfestir í Ölgerðinni, Hópbílum og Bílaleigu Flugleiða. Árleg ávöxtun er um 4%.
  • TFII: Árið 2017 fjárfesti Lífeyrisauki í TFII, upphaflega á vegum Íslenskra verðbréfa, nú í rekstri Landsbréfa, sem hefur fjárfest í Hreinsitækni, Hringrás, Coripharma og Genis. Árleg ávöxtun er um -2%.
  • Hvatning (Bláa lónið): Árið 2019 fjárfesti Lífeyrisauki í sjóði á vegum Landsbréfa sem fer með eignarhlut í Bláa lóninu. Árleg ávöxtun er um 9%.
  • Íslenski Athafnasjóðurinn IV: Árið 2021 fjárfesti Lífeyrisauki í framhaldssjóði SÍA á vegum Stefnis sem meðal annars er búið að fjárfesta í VAXA, Good Good og Rotovia. Þessi fjárfesting er skammt á veg kominn en árleg ávöxtun hingað til um -5%.
  • VEX I: Árið 2021 fjárfesti Lífeyrisauki í framtakssjóðnum VEX. Sjóðurinn hefur nú fjárfest í AGR Dynamics, Opin kerfi og Annata. Þessi fjárfesting er skammt á veg kominn en árleg ávöxtun hingað til um 2%.
  • Framtaksfjárfestingarsjóðurinn Horn IV: Árið 2021 fjárfesti Lífeyrisauki í framtaksfjárfestingarsjóðnum Horn IV á vegum sjóðastýringarfélagsins Landsbréfa sem hefur fjárfest í GoPro, S4S, Eðalfangi, First Water, REA (Airport Associates) og Styrkás. Þessi fjárfesting er skammt á veg kominn en árleg ávöxtun hingað til um -7%.
  • CP Invest (Coripharma): Árið 2022 fjárfesti Lífeyrisauki í félaginu CP Invest sem fjárfesti í Coripharma, sem er samheitalyfjaþróunar og lyfjaframleiðslufyrirtæki í Hafnarfirði. Fjárfestingin er meðfjárfesting með sjóðnum Iðunni og er eignarhaldið í Coripharma eina eign CP Invest. Fjárfestingin er skammt á veg kominn en árleg ávöxtun hingað til um 0%.
  • IS Haf fjárfestingar: Árið 2023 fjárfesti Lífeyrisauki í framtakssjóðnum IS Haf. Sjóðurinn hefur nú fjárfest í Thor landeldi og Kapp. Þessi fjárfesting er skammt á veg kominn.

Vísis fjárfestingar:
  • Iðunn framtakssjóður: Árið 2021 fjárfesti Lífeyrisauki í framtakssjóðnum Iðunn á vegum Kvika eignastýringar. Sjóðurinn hefur nú fjárfest meðal annars í Coripharma, EpiEndo Pharmaceuticals, Kara Connect og NeckCare Holding. Þessi fjárfesting er skammt á veg kominn en árleg ávöxtun hingað til um 0%.
  • Crowberry II: Árið 2021 fjárfesti Lífeyrisauki í vísisjóðnum Crowberry II. Sjóðurinn fjárfestir bæði í innlendum og erlendum vaxtarfélögum og hefur fjárfest meðal annars í Clutch, Rocky Road, Feats, GemmaQ, Tiimo, Embla, GreenBytes, Kicker.cloud, Prescriby, Ellie, Hemi, Saidot, Snerpa Power og Porcelain Fortress. Þessi fjárfesting er skammt á veg kominn en árleg ávöxtun hingað til um -12,7%.
  • Eyrir Vöxtur: Árið 2021 fjárfesti Lífeyrisauki í Eyri vexti á vegum Eyrir Invest. Sjóðurinn hefur fjárfest í Passio, Begom (PayAnalytics), Fólk Reykjavík, Justikal, Tulipop, Laki Power og DTE. Þessi fjárfesting er skammt á veg kominn en árleg ávöxtun hingað til um -6,7%.
Fjárfestingar í innviðum:
  • SF VI slhf (Verne Global): Árið 2014 fjárfesti Lífeyrisauki í SF VI á vegum Stefnis sem var fjárfesting í Gagnaverinu Verne Global á Reykjanesi. Sjóðnum var slitið árið 2021. Árleg ávöxtun var um 8%.
  • HSV Eignarhaldsfélag (HS Veitur): Árið 2014 fjárfesti Lífeyrisauki í félaginu HS Veitum, sem er innviðafjárfesting í tengslum við vatnsdreifikerfi. Árleg ávöxtun er um 23%.
  • Innviðir fjárfestingar: Árið 2015 fjárfesti Lífeyrisauki í innviðasjóði sem m.a. fer með eignarhlut í HS Veitum. Árleg ávöxtun er um 11%.
  • Innviðir fjárfestingar II: Árið 2022 fjárfesti Lífeyrisauki í framhalds innviðasjóði í rekstri Summu sem fer m.a. með eignarhlut í Mílu ehf. Þessi fjárfesting er skammt á veg kominn.
Fasteignafjárfestingar:
  • Fasteignasjóður SRE I: Árið 2011 tók Lífeyrisauki þátt í fasteignasjóðnum SRE I á vegum sjóðastýringarfyrirtækis Stefnis sem var stofnað utan um kaup á fasteigninni Þingvallastræti 23 (Icelandair Hótelinu á Akureyri). Sjóðnum var slitið árið 2017. Árleg ávöxtun var um 13%.
  • Fasteignasjóður SRE II: Árið 2012 tók Lífeyrisauki þátt í fasteignasjóðnum SRE II á vegum sjóðastýringarfyrirtækis Stefnis þar sem meðal annars var fjárfest í Icelandair hótelinu á Akureyri, húsnæði Nýherja, Hótel Borg og Advania. Sjóðnum var slitið árið 2019. Árleg ávöxtun var um 24%.
  • FAST - I: Árið 2012 tók Lífeyrisauki þátt í fasteignasjóðnum FAST-I á vegum sjóðastýringarfélagsins Íslandssjóða sem meðal annars fjárfesti í Höfðatorgi, húsnæði Ríkislögreglustjóra og Fjársýslu ríkisins. Sjóðnum var slitið árið 2020. Árleg ávöxtun var um 9%.

Fjárfestingar í sérhæfðum lánum:
  • Veðskuldabréfasjóðir: Á árunum 2014-2023 hefur Lífeyrisauki fjárfest í veðskuldabréfasjóðunum Alda Credit Fund (I, II, III), Veðskuld (II, III), SÍL og Landsbréf Veðskuldabréfasjóð (I, II) en seint á síðasta ári var fjárfest í Alda Credit Fund IV og SIV Credit Fund. Um er að ræða fjárfestingu í innlendum veðskuldabréfum þar sem undirliggjandi eru meðal annars skuldabréf með veð í fasteignum. Árleg ávöxtun veðskuldabréfasjóðanna er um 7%.

Spálíkan

Þegar fjárfest er í sérhæfðum fjárfestingum svo sem þegar skuldbinding er gerð um fjárfestingu í sjóð þá ólíkt beinni stakri fjárfestingu skuldbindur fjárfestir sig til þátttöku sem dregið er á fjárfestingartímabili sjóðsins. Sjóðurinn sem fjárfest er í innheimtir svo af skuldbindingunni í skrefum eftir því sem fjárfestingartækifæri koma fram. Loks greiðir sjóðurinn fjárfestum eftir því sem fjárfestingin skilar sér til baka.

Í fjárfestingaráætlunum sínum hvað varðar innlendar sérhæfðar fjárfestingar notast Lífeyrisauki við spálíkan sem þróað var af Dean Takahashi og Seth Alexander frá Yale-háskóla. Líkanið byggir á forsendum um skuldbindingar fjárfestis, í sjóðum sem stökum fjárfestingum, hraða innkallana hjá sjóðum sem fjárfest hefur verið í, væntar útgreiðslur, líftíma, svo og áætlaðan vaxtahraða á eignamengi fjárfestis o.fl. Á grundvelli líkansins fást svo upplýsingar um hvernig ætla megi að innkallanir, útgreiðslur og hrein eign þróist yfir tíma. Þessar niðurstöður eru mikilvægar svo meta megi hvaða fjárfestingar Lífeyrisauki þarf að leggja í til að ná og viðhalda markmiðum sínum um eignasamsetningu til framtíðar.

Framtíðarhorfur

Með þeirri þekkingu og reynslu sem hefur byggst upp í fjárfestingum í innlendum sérhæfðum fjárfestingum má reikna með að áherslan verði í auknu mæli annars vegar á frekari meðfjárfestingar með sjóðum og hins vegar í einstökum beinum fjárfestingum. Einnig má búast við að stofnaðir verði eftirmarkaðssjóðir (e. Secondaries) á Íslandi rétt eins og þekkist erlendis. Stofnun slíkra sjóða ætti að gera það að verkum að eftirmarkaður með eignir sjóðanna, líftími og stýring í þessum eignaflokkum verði skilvirkari.

Uppbygging innviða hefur verið vanrækt víða í íslensku samfélagi síðustu ár og gangi áform stjórnvalda fram um samstarfsverkefni opinberra aðila og einkaaðila (e. Public-private partnership) má búast við fjölmörgum áhugaverðum arðbærum verkefnum sem henta langtíma fjárfestum.

Tækifærin liggja víða í þessum eignaflokki og því full ástæða að vera virkur þátttakandi og grípa þau tækifæri sem leynast hér hvort sem það er í vísissjóðum, framtaks- og innviðafjárfestingum eða öðrum verkefnum.

 

Fréttasafn

14. febrúar 2024

Fræðslufundur

Fræðslufundi um Lífeyrisauka, viðbótarlífeyrissparnað Arion, verður streymt á Facebook síðu Arion...

LESA NÁNAR

31. mars 2023

Rafræn yfirlit

Nýlega samþykkti Alþingi breytingar á lífeyrissjóðalögunum sem varða m.a. upplýsingagjöf til...

LESA NÁNAR