Uppygging og árangur erlendrar hlutabréfastýringar LSBÍ

Uppygging og árangur erlendrar hlutabréfastýringar LSBÍ

Eftir að fjármagnshöft voru afnumin árið 2017 hefur Lífeyrissjóður starfsmanna Búnaðarbanka Íslands hf. lagt mikla áherslu á að auka vægi erlendra eigna og breidd í eignasafni og eru erlendar eignir mikilvægur þáttur í áhættudreifingu sjóðsins. Markmið um vægi erlendra eigna í fjárfestingarstefnu sjóðsins hefur hækkað á síðustu árum eins og sést á mynd 1. Þannig hefur markmið sjóðsins í erlendum eignum hækkað úr 7% árið 2017 í 12% árið 2021.

Erlend hlutabréf

Stærstur hluti erlendra fjárfestinga LSBÍ hefur í gegnum árin verið í hlutabréfasjóðum. Núverandi lágt vaxtastig á erlendum mörkuðum hefur meðal annars gert erlend hlutabréf að álitlegum fjárfestingarkosti í samanburði við skuldabréf. Við stýringu erlendra hlutabréfa vegast á í einfaldri mynd tvö sjónarmið líkt og við stýringu fleiri eignaflokka. Annars vegar hvort beita eigi hlutlausri stýringu sem felur í grunninn í sér að fjárfest er í hlutabréfum í sömu hlutföllum og markaðurinn sjálfur (t.d. í sömu hlutföllum og viðkomandi bréf vega í heimsvísitölu hlutabréfa) með það að markmiði að ná sömu ávöxtun og viðkomandi markaðsvístala skilar en að reynt sé að halda kostnaði í lágmarki. Hins vegar hvort beita eigi virkri stýringu sem felur í sér að velja stök hlutabréf, tímasetja viðskipti með það að markmiði að ná betri árangri en markaðurinn eða beita öðrum aðferðum á virkan hátt. Sú aðferðafræði sem beitt hefur verið hjá LSBÍ síðustu ár má segja að sé millivegur milli þessara sjónarmiða þar sem á hverjum tíma er reynt að velja þá samsetningu hlutlausrar og virkrar stýringar sem metin er vænlegust til árangurs.

Markmið við stýringu erlendra hlutabréfa

Markmið LSBÍ við stýringu erlendra hlutabréfa er að ná betri ávöxtun en það viðmið sem sjóðurinn hefur síðustu ár skilgreint sem sinn árangursmælikvarða sem er heimsvísitala hlutabréfa. Yfir tíma er viðbúið að eignaverð sveiflist og í tilviki lengri tíma fjárfesta líkt og LSBÍ er að jafnaði horft til árangursmats ávöxtunar eftir allan kostnað yfir þriggja ára tímabil. Hluti af markmiðinu er að ekki sé tekin marktækt meiri áhætta út frá hefðbundnum mælikvörðum í samanburði við heimsvísitölu hlutabréfa. Uppbygging og framkvæmd er með þeim hætti í dag að erlenda hlutabréfasafninu er skipt upp í tvo hluta: kjarna og krydd (e. core-satellite). Vægi og uppbygging hvors hluta svo og samsetning innan hvors fer eftir markaðsaðstæðum hverju sinni.

Kjarnahluti vegur að jafnaði á bilinu 60-70% og er þar meginmarkmið að fylgja heimsvísitölu hlutabréfa með sem hlutfallslega lægstum tilkostnaði. Kjarninn samanstendur einkum af vísitölusjóðum og kauphallarsjóðum (e. ETF) sem fylgja heimsvísitölu hlutabréfa með því að beita hlutlausri stýringu. Einnig er notast við vel dreifða virka sjóði með litla hermiskekkju (e. tracking error) við heimsvísitölu hlutabréfa eða til skýringar sjóði sem búast má við að sveiflist að öðru óbreyttu ekki verulega út frá vísitölu. Sjóðirnir sem tilheyra kjarnahluta eru að jafnaði vel dreifðir, oft með á bilinu 200 til 1.600 hlutabréf í hverjum sjóði.

Krydd hluti safnsins vegur að jafnaði á bilinu 30-40% og er ætlað að ná betri árangri en heimsvísitala hlutabréfa með því að fjárfesta í sjóðum þar sem virkri stýringu er beitt. Í þessum hluta safnsins er heldur meira svigrúm en í kjarnahluta, þ.e. möguleiki á að taka stöður í einstaka landssvæðum, atvinnugeirum eða fjárfestingarstílum (t.d. vaxtarfélög eða virðisfélög) í þeim tilgangi að nýta markaðsaðstæður til að skila ávöxtun umfram viðmiðunarvísitölu. Kryddsjóðirnir eru yfirleitt með heldur skarpari áherslur og meira svigrúm en kjarnasjóðirnir og fjárfesta almennt í á bilinu 25 til 120 hlutabréfum. Þeir bera að jafnaði hærri umsýsluþóknun en kjarnasjóðir.

Á heildina litið er markmið að baki þeirri stefnu sem valin hefur verin að leggja áherslu á langtímaávöxtun sem er hærri en ávöxtun viðmiðunarvísitölu en nýta jafnframt tækifæri sem skapast á markaði í þeim tilgangi að ná fram enn betri ávöxtun.

Umhverfis-, félags- og stjórnarhættir

Við fjárfestingar er tekið mið af umhverfis-, félags- og stjórnarháttum (e. ESG). Gerð er krafa um að rekstraraðilar erlendra sjóða sem fjárfest er í séu aðilar að reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (e. Principles for Responsible Investments) eða sambærilegum viðmiðum og er óskað eftir upplýsingum um stefnu í þessum málum. Meðal annars er óskað eftir upplýsingum um hvernig greiningu á þessum þáttum er háttað og hvernig fjárfestingarferill og áhættustýring sjóðsins tekur mið af þeirri greiningu. Jafnframt er óskað eftir upplýsingum um hvort rekstraraðili hafi beiti sér fyrir ESG málefnum innan félaga sem fjárfest er í (e. engagement).

Árangur erlendrar hlutabréfastýringar

Síðustu ár hefur sú aðferðafræði sem ákveðið hefur verið að beita skilað góðum árangri. Til dæmis hefur erlent hlutabréfasafn LSBÍ að meðaltali skilað 18,2% árlegri ávöxtun eftir kostnað mælt í íslenskum krónum á sl. 3 árum. Það er 2,7% hærri ávöxtun á ári en heimsvísitala hlutabréfa sem er skilgreint sem ávöxtunarviðmið fyrir erlend hlutabréf í fjárfestingarstefnu sjóðsins. Vekja má athygli á því að ítarleg eignasamsetning sjóðsins er birt ársfjórðungslega á vefsíðu sjóðsins og eru áhugasamir hvattir til þess að skoða þar hvaða sjóðir eru í eignasafninu hverju sinni.

Sjóður  1 ár  3 ár  5 ár  10 ár
 Erlent hlutabréfasafn  26,1%  18,2%  16,4%  10,4%
 Viðmið  21.4%  15,5%  10,2%  9,4%
 Umframávöxtun  4,7%  2,7%  6,2%  1,1%

Miðað við 30.09.2020

 

Fréttasafn

01. nóvember 2022

Málefni ÍL-sjóðs

LSBÍ er einn af eigendum að skuldabréfum með ríkisábyrgð sem Íbúðalánasjóður hóf útgáfu á árið 2004...

LESA NÁNAR

26. september 2017

Sjóðfélagayfirlit

Yfirlit sjóðfélaga LSBÍ eru komin í hús. Yfirlitin eru með hreyfingum síðustu átján mánaða...

LESA NÁNAR

29. apríl 2014

Ársfundur LSBÍ

Ársfundur LSBÍ verður haldinn í höfuðstöðvum Arion banka, Borgartúni 19, miðvikudaginn 28. maí...

LESA NÁNAR

29. apríl 2013

Ársfundur LSBÍ

Ársfundur LSBÍ verður haldinn í höfuðstöðvum Arion banka, Borgartúni 19, miðvikudaginn 29. maí...

LESA NÁNAR

16. maí 2012

Ársfundur LSBÍ

Ársfundur LSBÍ verður haldinn í höfuðstöðvum Arion banka, Borgartúni 19, miðvikudaginn 30. maí...

LESA NÁNAR