Sérhæfðar fjárfestingar Lífeyrissjóðs Starfsmanna Búnaðarbanka Íslands

Sérhæfðar fjárfestingar Lífeyrissjóðs Starfsmanna Búnaðarbanka Íslands

Árlega fer fram endurskoðun á fjárfestingarstefnu Lífeyrissjóðs Starfsmanna Búnaðarbanka Íslands (LSBÍ). Horft er til þess að hámarka ávöxtun til langs tíma út frá þeim áhætturamma sem stjórn sjóðsins mótar með það að leiðarljósi að gæta að hagsmunum sjóðfélaga í hvívetna. Áhættudreifing hefur ávallt verið höfð að leiðarljósi við gerð fjárfestingarstefnu LSBÍ. Lífeyrissjóðurinn leggur áherslu á að fjárfesta í dreifðu safni verðbréfa þar sem áhættudreifing er grunnþáttur í uppbyggingu eignasafna þar sem fjárfestingartími er langur.

Liður í áhættudreifingu er að fjárfesta í ólíkum eignum og eignaflokkum bæði innanlands og erlendis. Áhættu er þannig dreift á þann veg að þótt lækkun verði á ákveðnum eignaflokki eða innan ákveðins landsvæðis eru líkur á að hún vinnist að hluta upp með hækkun annarra eigna og þannig sé dregið úr sveiflum á eignasafninu í heild.

Ljóst er að ef markmið er að hámarka ávöxtun þá er ekki skynsamleg fjárfestingarstefna að taka aldrei áhættu. Í því samhengi liggur í augum uppi að þegar áhætta er tekin í fjárfestingum er tapsáhætta fyrir hendi. Meginmarkmiðið er því að leggja mikla áherslu á að vænt ávöxtun sé í samræmi við áhættu og þannig að ávinningur af fjárfestingum sem ganga vel sé meiri en tap þeirra fjárfestinga sem verr fara og að heildin skili sjóðfélögum góðri ávöxtun.

Hluti af fjárfestamengi sjóðsins er sérhæfðari fjárfestingar sem almennt eru skilgreindar þannig að þær fela í sér lengri tíma bindingu, eru oftast óskráðar og illseljanlegri en hefðbundnari fjárfestingar til skemmri tíma. Slíkar fjárfestingar fela oft í sér væntingar um góða ávöxtun en jafnframt getur áhættan að sama skapi verið heldur meiri en þegar fjárfest er í skráðum verðbréfum. Frá efnahagshruni og til afnáms gjaldeyrishafta hafa flestar slíkar fjárfestingar verið innlendar og í flestum tilvikum hafa þær verið í formi framtaksfjárfestinga, í fasteignaverkefnum eða og í öðrum sérhæfðari verkefnum.

Árangur sérhæfðra fjárfestinga

Heilt yfir hefur árangur LSBÍ af sérhæfðum fjárfestingum verið góður. Flestar fjárfestingar sjóðsins hafa gengið eftir í samræmi við upphaflegar forsendur en þó eru dæmi þess að verr hafi farið en gert var ráð fyrir í upphafi. Sé litið til þeirra fjárfestinga sem komnar eru langt á veg eða hafa lokið líftíma sínum er heildarniðurstaðan jákvæð um 730 m. kr. hjá LSBÍ. Hér á eftir er gerð grein fyrir þessum sérhæfðu fjárfestingum.

* Byggt á nýjustu upplýsingum viðkomandi sjóða og með fyrirvara um skekkjur í útreikningum.

  • SF V: Árið 2014 fjárfesti lífeyrissjóðurinn í félagi sem var stofnað utan um fjárfestingu í Festi, sem á sínum tíma var meðal annars Krónan og Elko. Árleg ávöxtun um 27%.
  • HSV Eignarhaldsfélag: Árið 2015 fór lífeyrissjóðurinn í fjárfestingu í HS Veitum, innviðafjárfesting í tengslum við vatnsdreifikerfi. Árleg ávöxtun um 29%.
  • Fasteignasjóðir SRE I og SRE II: Árið 2011 tók lífeyrissjóðurinn þátt í fasteignasjóðunum SRE I og SRE II á vegum Stefnis þar sem fjárfest var í Icelandair hótelinu á Akureyri, húsnæði Nýherja, Hótel Borg og Advania. Árleg ávöxtun um 10% og um 25%.
  • Jarðvarmi: Árið 2011 fjárfesti lífeyrissjóðurinn í HS Orku, innviðafjárfesting í tengslum við sölu endurnýjanlegra orkugjafa. Árleg ávöxtun um 7%.
  • Framtaksfjárfestingasjóðurinn HORN II: Árið 2013 ákvað sjóðurinn að fjárfesta í framtaksfjárfestingasjóðnum Horn II á vegum Landsbréfa sem meðal annars fjárfesti í félögunum Hvatningu, stærsta eiganda Bláa Lónsins, Fáfni Offshore og Kea hótelum. Árleg ávöxtun um 25%.
  • Íslenski Athafnasjóðurinn: Árið 2011 ákvað lífeyrissjóðurinn að taka þátt í Íslenska athafnasjóðnum á vegum Stefnis sem meðal annars fjárfesti í Högum og Sjóvá. Árleg ávöxtun um 18%.
  • Íslenski Athafnasjóðurinn II: Árið 2013 fjárfesti lífeyrissjóðurinn í framhaldssjóð Íslenska athafnasjóðsins, Íslenska athafnasjóðsins II. Hann fjárfesti meðal annars í Festi og Skeljungi. Árleg ávöxtun um 14%.
  • Edda slhf: Árið 2013 fjárfesti lífeyrissjóðurinn í innlenda framtakssjóðnum Eddu hjá Virðingu. Sjóðurinn fjárfesti meðal annars í Dominos, Securitas, Marorku og Íslands hótelum. Árleg ávöxtun um 13%.
  • Veðskuldabréfasjóðir: Á árunum 2014-2017 fjárfesti lífeyrissjóðurinn í veðskuldabréfasjóðunum Alda Credit Fund II, ST1, Veðskuld (II, III), Landsbréf Veðskuldabréfasjóður, fjárfesting í innlendum veðskuldabréfum meðal annars skuldabréfum með veði í fasteignum. Árleg ávöxtun veðskuldabréfasjóðanna um 6%.
  • Kjölfesta: Árið 2012 fjárfesti lífeyrissjóðurinn í framtakssjóðnum Kjölfestu sem var samstarf Virðingar og ALM ráðgjafar. Sjóðurinn fjárfesti meðal annars í Meniga, Oddi, Sena, Íslands hótel. Árleg ávöxtun um 0,5%.
  • PCC Bakki: Árið 2015 fjárfesti lífeyrissjóðurinn í kísilverksmiðju við Húsavík. Þrátt fyrir að líftíma verkefnisins sé ekki lokið og ekki komið að endapunkti þá hafa erfiðleikar í rekstri og aukin fjárþörf orðið til þess að sjóðurinn gerði síðastliðið ár varúðarniðurfærslu á eigninni.
  • United Silicon: Árið 2015 fór lífeyrissjóðurinn í fjárfestingu í kísilverinu United Silicon í Helguvík á Reykjanesi. Sívaxandi rekstrarerfiðleikar svo og rökstuddur grunur um sviksemi varð þess valdandi að fjárfestingin tapaðist að endingu að fullu.

Aukin áhersla á sérhæfðar fjárfestingar erlendis

Innlendar sérhæfðar fjárfestingar eru, hafa verið og munu enn vera hluti af fjárfestingarmengi LSBÍ. Í takt við varfærna stefnu sjóðsins er hlutfall sérhæfðra fjárfestinga ekki hátt en engu að síður afar mikilvægt í dreifðu safni eigna. Í fjárfestingarstefnu LSBÍ 2020 er áframhaldandi framþróun á fjárfestingarstefnum síðustu ára og dreifing á erlendu eignasafni sjóðsins aukin enn frekar. Til viðbótar við fjárfestingar í erlendum hluta- og skuldabréfum er nú horft að auki til sérhæfðra erlendra fjárfestinga, líkt og framtaksfjárfestinga, fasteignafjárfestinga, fasteigna í innviðum svo og öðrum verkefnum.

 

 

Fréttasafn

01. nóvember 2022

Málefni ÍL-sjóðs

LSBÍ er einn af eigendum að skuldabréfum með ríkisábyrgð sem Íbúðalánasjóður hóf útgáfu á árið 2004...

LESA NÁNAR

26. september 2017

Sjóðfélagayfirlit

Yfirlit sjóðfélaga LSBÍ eru komin í hús. Yfirlitin eru með hreyfingum síðustu átján mánaða...

LESA NÁNAR

29. apríl 2014

Ársfundur LSBÍ

Ársfundur LSBÍ verður haldinn í höfuðstöðvum Arion banka, Borgartúni 19, miðvikudaginn 28. maí...

LESA NÁNAR

29. apríl 2013

Ársfundur LSBÍ

Ársfundur LSBÍ verður haldinn í höfuðstöðvum Arion banka, Borgartúni 19, miðvikudaginn 29. maí...

LESA NÁNAR

16. maí 2012

Ársfundur LSBÍ

Ársfundur LSBÍ verður haldinn í höfuðstöðvum Arion banka, Borgartúni 19, miðvikudaginn 30. maí...

LESA NÁNAR