Skilyrði og málsmeðferð
vaxtabreytinga fasteignalána Arion banka hf.

Í lánareiknivél má m.a. bera saman ólíkar tegundir útlánsvaxta. Upplýsingar um einkenni fastra og breytilegra vaxta og þýðingu þeirra fyrir neytanda má finna í kynningarmyndböndum hér. Ákvarðanir um breytingu á breytilegum vöxtum bankans byggja m.a. á breytingu á vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á vefsíðu sinni, www.sedlabanki.is, ávöxtunarkröfu skuldabréfa útgefinna m.a. af bönkum og fjármálastofnunum á Íslandi, ríkissjóði Íslands eða sveitarfélögum, breytinga á fjármögnunarkostnaði, rekstrarkostnaði, vaxtakjara á innlendum markaði fyrir sambærileg lán og álagningu bankans vegna útlánaáhættu. Þegar ákvörðun er tekin um að framangreindar aðstæður gefi tilefni til breytinga á vöxtum er vaxtarbeytingar tilkynntar skuldara með rafrænum hætti í Netbanka Arion banka. Vaxtabreytingar eru að jafnaði tilkynntar skuldara með 30 daga fyrirvara. Áskilur bankinn sér rétt til að breyta vöxtum með skemmri fyrirvara, að því marki sem slíkar breytingar leiða af þáttum sem bankinn hefur ekki stjórn á.

Í sumum lánum til neytenda, t.d. íbúðalánum Arion banka hf, er tilgreint sem skilyrði fyrir breytingu á vöxtum að bankanum sé heimilt á gildistíma veðskuldabréfa að hækka vexti lánsins um allt að 0,5 prósentustig ef enginn af skuldurum lánsins eru með lögheimili í þeirri fasteign sem tryggir greiðslu skuldar samkvæmt veðskuldabréfi þessu. Bankanum er jafnframt heimilt að hækka vexti lánsins um 1% ef allar notkunareiningar hinnar veðsettu fasteignar teljast ekki fullgerðar samkvæmt Fasteignaskrá innan 12 mánaða frá útgáfudegi skuldabréfsins. Skylda skuldara til að greiða vaxtaálag vegna lögheimilis eða ástands fasteignar fellur niður að framkomnum upplýsingum frá honum sjálfum, um að skuldari hafi flutt lögheimili sitt í hina veðsettu fasteign eða fasteignin sé fullgerð samkvæmt skrám Fasteignaskrá, eftir því sem við á.

Nákvæmari upplýsingar um skilyrði vaxtabreytinga eru aðgengilegar í stöðluðum upplýsingum lána til neytenda, sem og í lánsamningunum sjálfum.