Skilmálar gjafakorta
Aðilar og samþykki skilmála
- Aðilar að skilmálum þessum eru handhafi Gjafakorts (hér eftir ,,handhafi“), útgefandi Gjafakorts (hér eftir ,,útgefandi“ eða „Arion banki“), kaupandi Gjafakorts (hér eftir ,,kaupandi“) og þeir sölu- og þjónustuaðilar sem taka við greiðslukortum (hér eftir ,,söluaðilar“)
- Með kaupum á Gjafakortinu samþykkir kaupandi skilmála þessa.
- Með notkun Gjafakortsins í fyrsta skipti samþykkir handhafi kortsins þessa skilmála.
- Kostnaður Gjafakortsins er samkvæmt gjaldskrá bankans.
Skilgreining kortsins, notkun og kostnaður
- Gjafakortið er fyrirframgreitt alþjóðlegt VISA greiðslukort sem veitir rétt til úttektar á vöru og þjónustu hvar sem er í heiminum hjá þeim sölu- og þjónustuaðilum sem taka við greiðslukortum. Einnig má nota Gjafakortið á vefnum.
- Heimilt er að leggja einu sinni inn á kortið og er það gert við kaup kortsins. Að hámarki er hægt að leggja inn á kortið 200.000 kr. Þegar inneign klárast er kortið ónýtt og skal handhafi eyðileggja það.
- Við kaup er greitt afgreiðslugjald samkvæmt verðskrá bankans hverju sinni.
- Handhafi getur hvenær sem er krafist innlausnar. Handhafi getur krafist innlausnar hvort heldur í heild eða hluta, hjá gjaldkerum Arion banka.
- Fyrir innlausn ber handhafa að greiða úttektargjald, eins og það er í verðskrá bankans hverju sinni. Eingöngu verður krafist úttektargjalds þegar krafa um innlausn er gerð fyrir lok gildistíma Gjafakortsins eða meira en ári eftir lok gildistíma Gjafakortsins.
- Handhafi þarf að kvitta aftan á kortið til að minnka líkur á að óviðkomandi aðili geti notað kortið ef það glatast. Jafnframt skal handhafi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að Gjafakortið komist ekki í hendur óviðkomandi aðila.
- Með notkun kortsins telst handhafi þess hafa gefið samþykkt greiðslu af kortinu, hvort sem notkunin er á netinu eða á sölustað.
- Útgáfa og notkun Gjafakortsins er samkvæmt íslenskum lögum. Við notkun kortsins erlendis ber handhafa að hlíta þeim reglum sem gilda í hverju landi fyrir sig. Útreikningur vegna erlendra greiðslna fer eftir gjaldskrá hverju sinni.
- Úttektir handhafa í erlendri mynt eru umreiknaðar í íslenskar krónur á því gengi sem í gildi er þegar færslan berst útgefanda í greiðsluskiptum milli landa. Vegna gengisáhættu getur erlend úttekt af kortinu ekki farið yfir 97% af inneign kortsins.
Gildistími, endurnýjun og fyrning
- Gjafakortið hefur ákveðinn gildistíma sem kemur fram á kortinu.
- Eftir að gildistími Gjafakortsins er runninn út er handhafa óheimilt að nota kortið. Handhafi getur þá krafið Arion banka um eftirstöðvar inneignar á kortinu sem er þá gefin út á nýju Gjafakorti eða krafist innlausnar inneignarinnar hjá gjaldkera.
- Um fyrningu inneignar á Gjafakorti fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.
Misnotkun og ábyrgð
- Sérhver ágreiningur eða tjón vegna kaupa á vöru eða þjónustu, sem greidd er með Gjafakorti, er útgefanda þess algerlega óviðkomandi og án ábyrgðar fyrir hann.
- Handhafi ber ábyrgð á öllum greiðslum/úttektum, sem verða vegna notkunar Gjafakortsins, nema útgefandi Gjafakortsins sé ábyrgur á grundvelli laga um greiðsluþjónustu vegna framkvæmdar óheimillar greiðslu.
- Arion banki vekur athygli á að það er mat Skattsins, að gjafakort sem vinnuveitendur gefa starfsfólki sínu að gjöf, og hægt er að umbreyta beint í peninga, t.d. bankagjafakort, teljast til skattskyldra tekna hjá viðtakanda gjafakortanna.
- Misnotkun kortsins varðar við lög, sbr. m.a. 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
- Handhafi ábyrgist tjón gagnvart bankanum, sem verður vegna vanrækslu hans við vörslu eða notkun Gjafakortsins. Útgefandi er ekki ábyrgur fyrir tjóni, sem verður vegna lagaboða, aðgerða stjórnvalda, náttúruhamfara, stríðs, verkfalls, verkbanns eða annarra slíkra aðstæðna, rafmagnstruflana eða rafmagnsleysis, né vegna truflana í símkerfi eða öðrum boðleiðum eða samgöngum.
- Viðskiptavinur sem pantar kort af netinu hefur val um að sækja kortið í útibú að eigin vali eða fá það sent heim til sín í pósti. Ef valin er sú leið að senda kortið í pósti ber Arion banki enga ábyrgð á upphæðum sem kunna að glatast á leið til viðtakanda. Ef kortið er ekki komið til viðskiptavinar innan fimm daga ber honum að láta vita strax í Þjónustuveri Arion banka. Síminn þar er 444-7000. Viðkomandi korti er þá lokað og nýtt gjafakort búið til í staðinn með eftirstöðvum kortsins. Kostnaður við það er samkvæmt verðskrá Arion banka.
Glötuð kort
- Ef Gjafakortið glatast, því er stolið eða handhafi verður var við misnotkun þess, ber að láta þjónustuver Arion banka vita strax svo hægt sé að loka kortinu.
- Handhafi er ábyrgur fyrir notkun þess þar til Gjafakortið er tilkynnt glatað. Sími þjónustuvers Arion banka er 444-7000. Athugið að ekki er hægt að loka kortinu nema gefa upp kortanúmerið.
- Ef Gjafakorti er lokað getur handhafi kortsins fengið nýtt Gjafakort með eftirstöðvum þess gamla eða fengið innlausn inneignarinnar hjá gjaldkera. Kostnaðurinn við það er samkvæmt verðskrá Arion banka.