Hvað er áreiðanleikakönnun?
Mikilvægur liður í starfsemi okkar er að þekkja viðskiptavini, markmið þeirra og aðstæður. Þannig getum við betur uppfyllt þarfir þeirra og verndað gegn hugsanlegum auðkennisþjófnaði eða annarri misnotkun á þjónustu bankans.

Lögum samkvæmt þurfum við að búa yfir upplýsingum um viðskiptavini okkar til að framkvæma mat á þeim og kanna hversu áreiðanleg viðskipti þeirra eru. Aðgangur að gögnum og upplýsingum frá viðskiptavinum er nauðsynlegur til þess að matið geti farið fram.
Áreiðanleikakönnun er leið okkar til að staðfesta upplýsingar um viðskiptavini. Í rafræna ferlinu staðfestir þú hver þú ert með rafrænum skilríkjum. Þú svarar spurningum um hvernig þú notar þjónustu okkar og staðfestir upplýsingar eins og heimilisfang og símanúmer. Þetta þurfa allir viðskiptavinir okkar að gera reglulega og þú færð tilkynningu í netbanka og appi þegar þú þarft að svara næst.
Að þessu leyti er framlag viðskiptavina órjúfanlegur þáttur í baráttu samfélagsins gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Smelltu hér til að hefja áreiðanleikakönnun
Spurt og svarað
Af hverju þarf ég að svara áreiðanleikakönnun?
Það er okkur mikilvægt að þekkja markmið og aðstæður viðskiptavina sem og notkun þeirra á vörum okkar og þjónustu með það að leiðarljósi að vernda viðskiptavini okkar gegn hugsanlegum auðkennisþjófnaði og annarri misnotkun á þjónustu bankans.
Barátta gegn fjármálaglæpum er mikilvægur þáttur í því að vera ábyrg fjármálastofnun. Þess vegna erum við hjá Arion banka skuldbundin og einbeitt í því að fara eftir lögum og reglum um baráttu gegn peningaþvætti og svikum gegn bönkum og viðskiptavinum.
Þetta felur meðal annars í sér að við uppfærum stöðugt þekkingu okkar á viðskiptavinum og notkun þeirra á vörum okkar og þjónustu, fylgjumst vel með viðskiptum og eigum náið samstarf við bæði íslensk og erlend yfirvöld.
Framkvæma þarf áreiðanleikakönnun með reglubundnum hætti og þú færð tilkynningu í netbanka og appi þegar kemur að því að svara þessum spurningum.
Hvað þurfum við að vita um viðskiptavini okkar?
Okkur er fyrst og fremst skylt að geta sannað deili á viðskiptavinum okkar og það má gera með rafrænum skilríkjum eða auðkennisappi.
Smelltu hér til að sanna á þér deili
Það er einnig hægt að koma við í útibúi með gild persónuskilríki s.s. vegabréf, ökuskírteini eða nafnskírteini.
Við þurfum einnig þessar upplýsingar:
- Nafn og kennitala
- Heimilisfang
- Ríkisfang
- Upplýsingar um hvar þú telur fram til skatts
- Símanúmer og netfang
- Upplýsingar sem tengjast eðli og tilgangi viðskiptasambands
- Stjórnmálaleg tengsl
Hversu oft þarf ég að svara áreiðanleikakönnun?
Endurnýjun á áreiðanleikakönnun er háð eðli viðskipta við bankann. Í langflestum tilvikum þurfa einstaklingar að svara á 5 ára fresti en sumir þurfa að endurnýja oftar. Þú færð tilkynningu í appi eða netbanka þegar þú þarft að svara næst.
Af hverju þurfið þið upplýsingar sem tengjast eðli og tilgangi viðskiptasambands?
Til að skilja hvernig þú sem viðskiptavinur notar vörur okkar og þjónustu þá spyrjum við þig spurninga um eðli og tilgang viðskipta. Þetta er besta verkfærið sem við höfum til að vera betur í stakk búin að hjálpa þér ef einhver reynir að taka peninga af þér með sviksamlegum hætti. Til dæmis ef reynt er að taka allt í einu út stóra upphæð af reikningi þínum eða millifæra erlendis ef þetta er eitthvað sem þú myndir venjulega ekki gera.
Þekking okkar á viðskiptavinum þarf meðal annars að gera okkur kleift að bregðast við ef viðskiptavinur gerir eitthvað óvenjulegt sjálfur eða ef við sjáum að óvenjuleg viðskipti eiga sér stað í gegnum reikninga viðskiptavinarins með öðrum hætti. Okkur ber skylda til að tilkynna yfirvöldum ef grunur leikur á að viðskipti séu ekki lögleg, t.d. sýna merki um peningaþvott eða fjármögnun hryðjuverka.
Hvers vegna spyrjum við um stjórnmálaleg tengsl?
Spurningin um tengsl við háttsetta aðila í stjórnmálum, hjá dómstólum eða alþjóðasamtökum miðar að því að ákvarða hvort þú sért mögulega í viðkvæmri stöðu hvað varðar mútur eða spillingu.
Til þess hóps teljast þeir sem eru eða hafa verið háttsettir í opinberri þjónustu, nánasta fjölskylda þeirra og einstaklingar sem vitað er að eru nánir samstarfsmenn þeirra.
Ef þú ert óviss er hægt að finna nánari upplýsingar vef Fjármálaeftirlits: Starfsheiti sem teljast til háttsettra opinberra starfa.
Af hverju er spurt um hvort mér beri að greiða skatta í öðru landi en á Íslandi?
Viðskiptavinir bankans sem greiða skatt í öðru landi en á Íslandi þurfa að skrá skattkennitölu í áreiðanleikakönnun. Okkur ber að afla þessara upplýsinga til að uppfylla kröfur skattayfirvalda.
Nánari upplýsingar má finna á vef skattsins.
Hvað er skattakennitala?
Skattakennitala eða TIN (Tax Identification Number) er sérstakt númer sem er tilgreint af skattayfirvöldum í því landi sem þú býrð í.
Hér má finna góðar upplýsingar um TIN: Tax identification numbers (TINs) - Organisation for Economic Co-operation and Development.
Hugsum við vel um upplýsingarnar þínar?
Já, þú getur treyst okkur til að hugsa vel um upplýsingarnar þínar. Við förum við með allar upplýsingar um þig sem trúnaðarmál og í samræmi við gildandi lög. Upplýsingar sem bankinn aflar verða eingöngu nýttar í samræmi við þann tilgang sem þeim var ætlað.
Hér getur þú lesið persónuverndaryfirlýsingu bankans.
Söfnum við upplýsingum um alla viðskiptavini?
Já, við söfnum upplýsingum um alla viðskiptavini okkar, bæði þegar viðskiptavinir koma í viðskipti við bankann og síðan reglulega eftir það. Þú munt fá tilkynningu í netbanka eða appi þegar þú þarft að svara spurningum frá okkur.
Af hverju þarftu að svara spurningum þegar þú hefur verið viðskiptavinur í mörg ár?
Ef þú hefur verið viðskiptavinur í mörg ár gætirðu verið hissa á því að við höfum samband við þig og biðjum þið um að sanna á þér deili og svara spurningum.
Vissulega vitum við hver þú ert, en sem banki verðum við að geta skjalfest fyrir yfirvöldum að við vitum hverjir eru viðskiptavinir okkar. Við erum líka skuldbundin til að tryggja að upplýsingar okkar um viðskiptavini okkar séu alltaf uppfærðar.
Hvað gerist ef við fáum ekki nauðsynlegar upplýsingar frá þér?
Ef þú hefur fengið tölvupóst um að okkur vanti upplýsingar frá þér og við heyrum ekki frá þér, munum við senda þér aðra áminningu. Ef ekki tekst að fá svör eða svör eru ófullnægjandi að mati bankans, innan tveggja mánaða, er óhjákvæmilegt að takmarka viðskipti þín við bankann eða segja upp viðskiptasambandinu, en í því felst meðal annars að læsa aðgangi að reikningum, kortum o.s.frv.
Ef þú ert með umboð fyrir reikningum annarra hjá Arion banka, og ef við fáum ekki nauðsynlegar upplýsingar frá þér, verður umboði þínu breytt í skoðunaraðgang. Þetta þýðir að þú getur séð reikningana sem þú hefur heimild fyrir (t.d. í gegnum app- og netbanka), en getur ekki greitt reikninga, millifært eða tekið út peninga.
Sama á við um aðila sem hefur umboð fyrir reikningum þínum og gefur ekki þær upplýsingar sem við biðjum um.
Er okkur heimilt að takmarka viðskipti þín, svo sem loka á reikninga eða rifta viðskiptasambandi?
Samkvæmt lögum nr. 140/2018 má Arion ekki eiga í viðskiptasambandi nema áreiðanleikakönnun sé lokið. Því ber okkur skylda að takmarka viðskipti þín við bankann eða segja upp viðskiptasambandinu ef ekki næst að klára fullnægjandi áreiðanleikakönnun að mati bankans.
Upplýsingar sem aflað er við framkvæmd áreiðanleikakönnunar eða viðvarandi eftirlit geta leitt í ljós áhættu sem bankinn er ekki reiðubúinn að taka. Bankinn áskilur sér því ávallt rétt til að hafna umsókn um viðskipti eða takmarka eða binda enda á viðskiptasamband sem þegar hefur verið stofnað til.
Hvernig opna ég reikninga aftur ef ég hef gleymt að svara áreiðanleikakönnun?
Þú byrjar á því að svara áreiðanleikakönnuninni. Reikningar opnast aftur sjálfvirkt fljótlega eftir að áreiðanleikakönnun hefur verið svarað með fullnægjandi hætti að mati bankans.