Endurgreiðsla iðgjalda til ríkisborgara utan samningsríkja við brottflutning frá Íslandi
Erlendir ríkisborgarar geta, skv. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 129/1997, sótt um endurgreiðslu iðgjalda við brottflutning frá Íslandi að því gefnu að það sé ekki bannað skv. milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Ísland er nú þegar með milliríkjasamninga við yfir þrjátíu ríki sem hér verða nefnd samningsríki þ.e. Bandaríkin, Bretland, Færeyjar, Kanada og EES ríkin, auk Sviss þ.e. öll EFTA- og ESB ríkin.
- EFTA ríkin: Ísland, Noregur og Liechtenstein. Einnig Sviss vegna aðildar sinnar að Vadus samningi EFTA ríkjanna.
- ESB ríkin: Austurríki, Belgía, Búlgaría, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ítalía, Króatía, Kýpur (gríski hlutinn), Lettland, Litháen, Lúxemborg, Malta, Portúgal, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð, Tékkland. Ungverjaland, Þýskaland.
Sjóðfélagi sem er með ríkisborgararétt í samningsríki: ekki er heimilt að endurgreiða honum lífeyrissparnað sinn vegna brottflutnings frá Íslandi. Ef um tvöfalt ríkisfang er að ræða er ekki heimild til endurgreiðslu ef annað er innan samningsríkis. Ríkisföngin þyrftu bæði að vera utan samningsríkja til að endurgreiðsla sé heimil. Sótt er um í gegnum systurstofnun Tryggingastofnunar í búsetulandi þegar að útgreiðslu kemur.
Sjóðfélagi sem er ekki með ríkisborgararétt í samningsríki og er ekki að flytja til samningsríkis: heimilt er að endurgreiða honum lífeyrissparnað sinn vegna brottflutnings frá Íslandi. Þá er framlag sjóðfélaga og launagreiðanda endurgreitt með verðbótum, en án vaxta. Greiddur er tekjuskattur við útgreiðslu. Ef sjóðfélagi hefur öðlast svokallaðan rétt á framreikningi örorku (venjulega eftir 3 ár) getur endurgreiðsluhlutfallið lækkað.