Eftirlaunasjóður FÍA
Hlutverk sjóðsins er að tryggja sjóðfélögum, mökum þeirra og börnum lífeyri.Eignastýring Arion banka hefur annast rekstur og eignastýringu lífeyrissjóðsins frá 2012.
Ábyrgar fjárfestingar og stjórnarhættir
Meginhlutverk Eftirlaunasjóðs FÍA er að fjárfesta innistæðum sjóðfélaga til að ávaxta þær og þar með tryggja sjóðfélögum, mökum þeirra og börnum lífeyri.
Eftirlaunasjóður FÍA leggur mikla áherslu á að mæta samtímaþörfum sjóðfélaga, án þess þó að tefla í hættu framtíðarþörfum komandi kynslóða. Við viljum ná markmiðum okkar án þess að skilja eftir okkur sviðna jörð.
Hugmyndafræði ábyrgra fjárfestinga gengur út á að stuðla að jákvæðum áhrifum á umhverfið, félagslega þætti og stjórnarhætti, (UFS e. ESG) skila sjálfbærri langtímaávöxtun og draga úr áhættu. Margir fjárfestar velja að horfa sérstaklega til þessara þátta þegar fjárfestingarkostir eru metnir og ákveðið í hverjum þeirra á að fjárfesta. Áhugi á þessum áherslum hefur aukist undanfarið og Eftirlaunasjóður FÍA hefur ákveðið að horfa til þessara þátta í starfsemi sinni með hliðsjón af grunngildum Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð. Frá árinu 2018 hefur verið stefnt á að vera í fararbroddi þegar kemur að ábyrgum fjárfestingum og stjórnarháttum.
Umhverfi
Umhverfisleg viðmið snúa að frammistöðu og eftirliti í loftslags- og umhverfismálum og því hvernig gætt er að umhverfisáhrifum starfseminnar. Fjárfest er í fjárfestingarkostum sem stuðla að sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda.Félagslegir þættir
Félagsleg viðmið snúa að því hvernig hugað er að starfsfólki og samfélaginu sem það starfar í s.s. jafnrétti, almennum mannréttindum og öryggi bæði innan fyrirtækja og innan samfélagsins í heild.Stjórnarhættir
Stjórnarhættir snúa m.a. að stjórnun og skipulagi, birgjum, kjörum starfsfólks og aðgerðum gegn spillingu og mútum.
Í brennidepli
Arion banki er rekstraraðili og sá aðili sem sér um eignastýringu sjóðsins. Starfsfólk Eignastýringu Arion banka og Eftirlaunasjóðs FÍA tekur virkan þátt í innlendri og alþjóðlegri umræðu um málefni ábyrgra fjárfestinga og hefur skrifað fjölda greina ásamt því að hafa tekið þátt í pallborðsumræðum, staðið fyrir fræðslu- og upplýsingarfundum og gefið út rit um umboðsskyldu.Verklag ábyrgra fjárfestinga
Eignastýring Arion banka hefur innleitt verklag ábyrgra fjárfestinga í starfshætti sína þar sem horft er til þriggja eftirfarandi grunnþátta sjálfbærni: umhverfisþátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta. Samhliða því er sáttmáli Sameinuðu Þjóðanna um samfélagsábyrgð (e. UN Global Compact) hafður til hliðsjónar við fjárfestingar Eftirlaunasjóðs FÍA. Sáttmálinn er alþjóðleg yfirlýsing/samkomulag sem fyrirtæki eða stofnanir geta haft að leiðarljósi við innleiðingu ábyrgra starfshátta. Í sáttmálanum eru skilgreindar fjórar meginreglur sem taka til mannréttinda, vinnumarkaðsmála, umhverfis og baráttu gegn hvers kyns spillingu og felur í sér vilja til að fylgja 10 grunngildum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga starfshætti. Þessi sáttmáli tengist heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun með einum eða öðrum hætti og með því má segja að með starfsemi sjóðsins sé unnið í átt að markmiðunum.Arion banki er aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi (e. UN Principles for Responsible Banking), sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð (e. UN Global Compact) og meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (e. UN Principles for Responsible Investment).
Nánari upplýsingar um samfélagsábyrgð rekstraraðila sjóðsins, Arion banka, má finna hér.
Meginreglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (e. UN Principles for Resposible Investment)
Áðurnefndur rekstraraðili sjóðsins, Arion banki, er meðlimur samtaka fjárfesta á alþjóðavísu sem vinna að því sameiginlega markmiði að innleiða sex grundvallarviðmið um ábyrgar fjárfestingar. Utan um þessi samtök voru lagðar meginreglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar.
Árið 2005 kallaði Kofi Annan, þáverandi ritari Sameinuðu þjóðanna, hóp stofnanafjárfesta saman til þátttöku í að þróa meginreglur ábyrgra fjárfestinga. Grundvallarviðmiðin voru kynnt árið 2006 í Kauphöllinni í New York og nýtur PRI stuðnings Sameinuðu þjóðanna.
Meginreglurnar eru eftirfarandi:
- Við munum taka mið af umhverfislegum og félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS) við greiningu fjárfestingarkosta og við ákvörðunartöku.
- Við ætlum að vera virkur eigandi sem tekur tillit til UFS bæði í eigendastefnum og í verki.
- Við munum kalla eftir viðeigandi upplýsingagjöf um UFS frá aðilum sem við fjárfestum í.
- Við munum beita okkur fyrir viðurkenningu á og innleiðingu þessara meginreglna í fjárfestingarstarfsemi.
- Við munum vinna saman að því að efla árangur við innleiðingu meginreglnanna.
- Við skilum öll skýrslum um starfsemi okkar og upplýsum um árangur við innleiðingu meginreglnanna
Hluthafastefna og stefna um ábyrgar fjárfestingar
Stjórn Eftirlaunasjóðs FÍA hefur mótað sjóðnum stefnu um ábyrgar fjárfestingar sem markar stefnu sjóðsins um siðferðisleg viðmið í fjárfestingum samkvæmt 36. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sem hluta af þeirri stefnu hefur stjórn einnig sett sjóðnum hluthafastefnu sem skilgreinir kröfur sjóðsins til stjórnarhátta í innlendum skráðum félögum þar sem hann er hluthafi.
Stefna Eftirlaunasjóðs FÍA um ábyrgar fjárfestingar
Hlutverk sjóðsins er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri í samræmi við samþykktir sjóðsins. Það er meginmarkmið sjóðsins að varðveita og ávaxta fé sjóðfélaga á eins hagkvæman hátt og kostur er og leitast þannig við að hámarka ávöxtun miðað við áhættu.
Stefna þessi markar stefnu EFÍA um siðferðileg viðmið í fjárfestingum sem lífeyrissjóðum ber að setja sér samkvæmt 36. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Stefnan nær til allra fjárfestinga sjóðsins en tekur sérstaklega til umhverfis- og félagslegra þátta í fjárfestingum sjóðsins í innlendum skráðum félögum. Nánar er fjallað um kröfur sjóðsins til stjórnarhátta í félögum þar sem hann er hluthafi í hluthafastefnu sjóðsins.
Viðmið um ábyrgar fjárfestingar
Almennt horfir EFÍA til lengri tíma í fjárfestingum sjóðsins til samræmis við langtímaskuldbindingar sínar. Þannig fara hagsmunir sjóðsins saman við langtímasjónarmið um ábyrga og sjálfbæra viðskiptahætti í starfsemi þeirra félaga sem hann fjárfestir í.
Sjóðurinn horfir til viðmiða Sameinuðu þjóðanna um meginreglur samfélagsábyrgðar (e. UN Global Compact) og ábyrgra fjárfestinga (e. UN Principles for Responsible Investment) og gerir kröfur til eignastýringaraðila sjóðsins að horfa til þriggja grunnþátta sjálfbærni, umhverfis- og félagslegra þátta og stjórnarhætti, við fjárfestingarákvarðanir.
Aðferðir og framkvæmd
Við mat á fjárfestingum EFÍA í innlendum skráðum félögum fylgir sjóðurinn eftir stefnu þessari um ábyrgar fjárfestingar. Sjóðurinn er hlutfallslega stór á innlendum fjármálamarkaði og því er mikilvægt að hann beiti sér sem virkur hluthafi í innlendum félögum og gæti þannig að hagsmunum sínum og sjóðfélaga. Þannig er horft til viðmiða sjóðsins um ábyrgar fjárfestingar við fjárfestingarákvarðanir og vinnu við mótun og endurskoðun fjárfestingarstefnu sjóðsins.
Erlendar fjárfestingar sjóðsins eru almennt í sjóðum frekar en í einstökum félögum. Við mat á rekstraraðila sjóða gerir sjóðurinn kröfu um að stefna þeirra í ábyrgum fjárfestingum sé könnuð og niðurstöðurnar lagðar fram sem einn af þáttunum til grundvallar fjárfestingarákvörðun. Kannanir á málefnum ábyrgra fjárfestinga eru þannig hluti af fjárfestingarferli sjóðsins en ekki skilyrði fyrir fjárfestingarákvörðun.
Komi í ljós að félag í beinni eigu sjóðsins verði uppvíst af fráviki á grundvelli fyrrtilgreindra viðmiða mun sjóðurinn beita sér fyrir því að félagið ráðist í viðeigandi úrbætur. Við slíka ákvörðun er þó ávallt gætt ýtrustu varfærni þar sem heildarhagsmunir sjóðsins og sjóðfélaga eru hafðir að leiðarljósi.
Borgartúni 19, 105 Reykjavík
Kennitala: 650376-0809
Reikningur: 0329-26007171
Lífeyrissjóðsnúmer: 180
Símatími kl. 10-15
efia@arionbanki.is
Sími sjóðfélaga: 444-8960
Sími launagreiðenda: 444-6500