Að verða betri vinnustaður
Starfsfólk í fæðingarorlofi
fær viðbótarstyrk
Arion banki hefur um árabil lagt ríka áherslu á jafnrétti í starfsemi sinni. Á undanförnum árum hefur verið lögð höfuðáhersla á að einstaklingar fái greidd jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf. Bankinn hlaut fyrst jafnlaunavottun VR árið 2015 og jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins árið 2018. Við síðustu jafnlaunaúttekt var óútskýrður launamunur innan bankans fyrir jafnverðmæt störf kominn niður í 0,1%.
Mikilvægur liður í þessari vegferð er að styðja og hvetja foreldra til að taka fullt fæðingarorlof því við viljum að vinnustaðurinn sé skipaður fjölbreyttum hópi starfsfólks. Okkar markmið er að skapa jákvætt vinnuumhverfi sem gefur starfsfólki tækifæri á að samræma fjölskylduábyrgð og starfsskyldur.
Við greiðum starfsfólki viðbótarstyrk ofan á greiðslur úr fæðingarorlofssjóði í sex mánuði og tryggjum þar með öllum nýbökuðum foreldrum 80 prósent launa sinna á meðan á fæðingarorlofi stendur. Með ákvörðuninn viljum við hvetja foreldra til að taka fullt orlof svo þeir geti verið hjá börnum sínum á þessum dýrmæta og mikilvæga tíma.
Helga Halldórsdóttir, forstöðumaður mannauðs hjá Arion banka
Við hvetjum feður sérstaklega til að taka fullt orlof en staðreyndin er sú að almennt eru karlar með hærri meðallaun en konur í samfélaginu og nýta síður fæðingarorlofsrétt sinn. Með því að tryggja starfsfólki 80 prósent launa sinna vill bankinn auðvelda foreldrum að nýta rétt sinn óháð kyni eða annarri stöðu.
Til lengri tíma litið getur þetta verið liður í að jafna annars vegar meðallaun kynjanna og hins vegar hlut kynjanna í hópi stjórnenda og í ólíkum starfaflokkum en í jafnréttis- og mannréttindastefnu og aðgerðaáætlun bankans er lögð sérstök áhersla á að jafna kynjahlutföll innan bankans, ekki einungis á meðal stjórnenda heldur einnig innan starfaflokka, nefnda og starfseininga.