Jafnréttis-og mannréttindastefna
Eftirfarandi stefna tekur til Arion samstæðunnar, þ.e. Arion banka, Stefnis og Varðar, en saman veitir Arion samstæðan íslensku samfélagi alhliða fjármálaþjónustu. Í stefnunni er sameiginlega vísað til félaganna þriggja sem Arion.
Stefna Arion er að virða mannréttindi og jafnrétti í allri sinni starfsemi. Arion leggur áherslu á að skapa umhverfi þar sem fólk með sambærilega menntun, starfsreynslu og ábyrgð býr við jöfn tækifæri og kjör, án tillits til þjóðernisuppruna, kynþáttar, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna og kyntjáningar eða annarrar stöðu. Hvers kyns mismunun er í andstöðu við stefnu þessa og óheimil samkvæmt lögum.1
Áherslur Arion:
- Laus störf skulu standa öllum opin sem búa yfir tilskilinni menntun og reynslu óháð kyni eða annarri stöðu. Unnið skal markvisst að auknu kynjajafnvægi í starfseiningum, starfaflokkum og í nefndum til að fá fram fjölbreyttari sjónarmið.
- Við tryggjum að starfsfólk í sambærilegum stöðum hafi jafna möguleika á endurmenntun, símenntun og starfsþjálfun, óháð kyni eða annarri stöðu. Fræðsluframboð í árlegri fræðsluáætlun Arion tekur mið af markmiðum í aðgerðaráætlun.
- Við tryggjum að engin ómálefnalegur launamunur sé til staðar. Markmið Arion er að allt starfsfólk njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.2 Til þess að styðja við jafnlaunastefnuna fer Arion eftir íslenska staðlinum ÍST 85:2012 um jafnlaunakerfi.
- Starfsfólki skal gert kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu. Við bjóðum starfsfólki sveigjanleika og um leið stuðlum að betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs.
- Starfsfólk er hvatt til þess að nýta fæðingarorlofsrétt sinn óháð kyni. Við leggjum okkur fram við að styðja við starfsfólk þegar það kemur til baka úr fæðingarorlofi og finnum leiðir til þess að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og dagvistunar.
- Við leggjum áherslu á að samskipti á vinnustaðnum einkennist af gagnkvæmri virðingu og að starfsfólki líði vel. Einelti, kynbundin og kynferðisleg áreitni, sem og annað ofbeldi (hér eftir nefnt EKKO), verður undir engum kringumstæðum umborið á vinnustaðnum og ber starfsfólki að upplýsa viðeigandi aðila verði það vart við slíka hegðun.3
- Við sköpum jafnréttissinnaðan og góðan vinnustað þar sem starfsfólk nýtur virðingar, fjölbreytt sjónarmið fá að njóta sín og inngilding er höfð að leiðarljósi. Við leggjum áherslu á að vinnuumhverfið taki tillit til fjölbreyttra þarfa starfsfólks þannig að hvert og eitt fái tækifæri til að njóta sín, bæði vegna sérstöðu sinnar en líka þrátt fyrir sérstöðu sína.
- Við leggjum okkar af mörkum til að jafna þátttöku allra kynja á fjármálamarkaði. Það er lykilatriði fyrir farsæla og jafna þróun samfélagsins að öll kyn taki þátt í eigin fjármálum. Þannig höfum við jöfn áhrif og jafna rödd þegar kemur að þróun samfélagsins. Því leggjum við sérstaka áherslu á að efla konur þegar kemur að fjárfestingum.
- Við viljum að þjónusta Arion sé sniðin að þörfum allra viðskiptavina óháð kyni, þjóðerni, bakgrunni eða annarri stöðu.
- Við göngum úr skugga um að alþjóðleg mannréttindi séu virt og gætt sé að jafnrétti í virðiskeðju Arion þ.m.t. í innkaupum, lánveitingum til fyrirtækja og fjárfestingum.
Til að vinna að áherslum Arion er unnið eftir aðgerðaráætlun í jafnréttis- og mannréttindamálum.4
Til viðbótar við helstu áhersluatriði munum við kappkosta við að gæta að jafnréttissjónarmiðum í orðalagi, skilaboðum, ásýnd og markaðsefni á vegum Arion.
Jafnlaunastefna Arion
Það er stefna Arion að greiða jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf. Markmið Arion er að allt starfsfólk njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf og að tryggja að enginn ómálefnalegur launamunur sé til staðar. Með jöfnum launakjörum er átt við að laun séu ákveðin með fyrir fram ákveðnum hætti sem nær til alls starfsfólks og að tryggt sé að ekki sé mismunað á grundvelli kyns eða annara þátta. Einnig skal tryggja að allar launaákvarðanir séu í samræmi við kjarasamninga.
Til þess að styðja við jafnlaunastefnuna fer Arion eftir íslenska staðlinum ÍST 85:2012 um jafnlaunakerfi. Samkvæmt honum skuldbindur Arion sig til þess að:
- Innleiða skjalfest og vottað jafnlaunastjórnunarkerfi. Kerfinu skal viðhaldið með eftirliti og stöðugum umbótum ásamt því að stuðla að forvörnum.
- Viðhalda jafnlaunavottun í samræmi við gildandi reglur á hverjum tíma og bregðast við frábrigðum og athugasemdum eftir atvikum.
- Flokka störf út frá kröfum jafnlaunakerfisins og framkvæma a.m.k. árlega launagreiningu.
- Framkvæma innri úttekt og hafa rýni stjórnenda með reglubundnum hætti þar sem jafnlaunakerfið, jafnlaunastefna og markmið eru rýnd.
- Kynna jafnlaunastefnuna fyrir starfsfólki og hafa hana aðgengilega á innri og ytri vef.
- Kynna fyrir starfsfólki niðurstöður árlegrar jafnlaunavottunar.
1 Lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna (með síðari breytingum) og lög nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði. Arion fer að íslenskum lögum sem meðal annars byggjast á alþjóðlegum skuldbindingum og sáttmálum sem ríkið á aðild að, þ.m.t. talið sáttmála International Labour Organization (ILO) undir hatti Sameinuðu þjóðanna.
2 Með jöfnum launakjörum er átt við að laun séu ákveðin með fyrirfram ákveðnum hætti sem nær til alls starfsfólks og að tryggt sé að ekki sé mismunað á grundvelli kyns eða annarra þátta. Allar launaákvarðanir skulu vera í samræmi við kjarasamninga.
3 Viðbragðsáætlun vegna EKKO og leiðbeiningar fyrir starfsfólk er aðgengilegt á innri vef.
4 Við gerð hennar hefur verið horft til viðmiðunarreglna Efnahags- og framfararstofnunarinnar (OECD) fyrir fjölþjóðleg fyrirtæki, leiðbeinandi meginreglna Sameinuðu Þjóðanna um viðskipti og mannréttindi, yfirlýsinga ILO um grundvallarreglur og réttindi við vinnu sem og Alþjóðaréttindaskrárarinnar.
Uppfært í desember 2024