Fræðslustefna Arion

Markmið okkar er að efla og viðhalda faglegri þekkingu starfsfólks með markvissri og árangursríkri þjálfun. Það eykur starfsánægju og hæfni starfsfólks til að takast á við nýjar áskoranir og styrkir starfsþróun. Starfsfólk er hvatt til að sýna frumkvæði í að sækja sér fræðslu og endurmenntun í samráði við yfirmann.

Fræðslan og þjálfunin byggist á þörfum og stefnu fyrirtækisins en tekur jafnframt mið af þróun starfa og verkefna. Við leggjum áherslu á að starfsfólk hafi tækifæri til að efla bæði faglega og persónulega hæfni. Mikilvægt er að tryggja að starfsfólk búi yfir haldgóðri þekkingu á lögum og reglum sem tengjast starfssviði þess, til að tryggja fagmennsku og öryggi í starfi.

Markmið stefnunnar:

  • Efla og viðhalda þekkingu og hæfni starfsfólks.
  • Leggja áherslu á mikilvægi þess að starfsfólk sé ávallt vel upplýst um lög og reglur sem varða starfssvið þess.
  • Hvetja og virkja starfsfólk til að sýna frumkvæði og bera ábyrgð á eigin þekkingu og færni.

Fræðsla miðuð að þörfum starfsfólks:

Þekking á lögum og reglum
Það er lykilatriði að starfsfólk hafi góða þekkingu á þeim lögum, reglum og öryggiskröfum sem varða starfsemina. Sú þekking er lykilþáttur í því að veita örugga, faglega og áreiðanlega þjónustu. Hún gerir starfsfólki kleift að taka upplýstar og ábyrgar ákvarðanir.

Fagleg hæfni
Fagleg hæfni felur í sér þekkingu, færni og viðhorf sem starfsfólk þarf til að sinna starfi sínu á árangursríkan og ábyrgan hátt. Hún felur í sér þekkingu á stefnum fyrirtækisins, sérhæfða þekkingu á starfssviði, samskiptahæfni, lausnamiðaða hugsun og siðferðislega ábyrgð. Að efla faglega hæfni starfsfólks stuðlar að starfsþróun, eykur starfsánægju og veitir tækifæri til vaxtar innan fyrirtækisins.

Persónuleg hæfni
Persónuleg hæfni felur í sér hæfileika til að eiga í árangursríkum samskiptum og takast á við áskoranir í lífi og starfi, ásamt því að hafa stjórn á andlegri og líkamlegri heilsu og getu til að aðlagast breyttum aðstæðum. Þessi hæfni gerir einstaklingum kleift að vaxa bæði persónulega og faglega, ásamt því að liðka fyrir árangursríkri samvinnu við aðra.

Skyldu- og valkvæð fræðsla
Skyldufræðsla tekur mið af eðli starfa og byggist almennt á lögum, reglum og öryggiskröfum. Hún nær einnig til annarrar fræðslu, svo sem nýliðafræðslu, stjórnendafræðslu og fræðslu um vörur fyrirtækisins. Skyldufræðsla myndar fræðsluvísitölu sem er einn af lykilmælikvörðum fyrirtækisins.

Valkvæð fræðsla felur í sér námskeið og erindi sem starfsfólk getur valið að sækja eftir áhuga og þörfum. Slík fræðsla miðar oft að því að efla bæði faglega og persónulega hæfni.

Fræðsluform
Við leggjum áherslu á að bjóða upp á fjölbreytt fræðsluform sem taka mið af þörfum og óskum starfsfólks, með möguleika á fræðslu óháð staðsetningu. Í boði er rafræn og leikjavædd fræðsla ásamt staðkennslu. Í vissum tilvikum er boðið upp á námsstyrki og þátttöku í kostnaði vegna námskeiða utan fyrirtækisins. Einnig hefur starfsfólk aðgang að erindum á vegum ýmissa fagfélaga.

Við erum lærdómsfyrirtæki sem leggur mikla áherslu á að starfsfólk sé vel upplýst. Með því að fjárfesta í þekkingu og hæfni starfsfólks tryggjum við að Arion sé stöðugt í stakk búið til að mæta nýjum áskorunum og veita viðskiptavinum okkar góða þjónustu. Það skapar umhverfi þar sem bæði fyrirtækið og starfsfólkið getur vaxið og dafnað í takt við breytingar í atvinnulífi og samfélagi.