Velheppnaður morgunfundur Arion um sjálfbærni

Velheppnaður morgunfundur Arion um sjálfbærni

Velheppnaður morgunfundur Arion um sjálfbærni - mynd

Þann 28. nóvember síðastliðinn hélt Arion banki vel sóttan morgunfund um sjálfbærni í höfuðstöðvum sínum, Borgartúni 19, undir yfirskriftinni „Vaxandi kröfur & aukinn kraftur“.

Markmið fundarins var að brýna fyrirtæki til dáða í sjálfbærnimálum og varpa um leið ljósi á hert og aukið regluverk í Evrópu um sjálfbærni. Ný löggjöf snertir ekki aðeins stór fyrirtæki heldur einnig lítil og meðalstór fyrirtæki.

Hlédís Sigurðardóttir, forstöðumaður sjálfbærni Arion banka, hóf ráðstefnuna með brýningu um mikilvægi þess að virkja kraftinn í sjálfbærninni og gera sífellt betur. Einnig hvatti hún fyrirtækin til að setja sér vísindaleg loftslagsmarkmið. Hlédís hnykkti á því að hér vildum við vera til staðar fyrir viðskiptavini okkar og hjálpa þeim áfram á þessari braut.

Arnar Sveinn Harðarson, lögfræðingur hjá Arion, fjallaði um evrópska lagarammann í sjálfbærni og sýndi hvernig regluverkið snertir fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum. Arnar beindi sjónum viðstaddra enn fremur að nauðsyn þess að lítil og meðalstjór fyrirtæki séu meðvituð um áhrifin á starfsemi þeirra og tæpti á ólíkum reglum og mælikvörðum á skýran og einfaldan hátt.

Sverrir Norland skoðaði sjálfbærnimálin í stóru samhengi og talaði þar út frá bók sinni, Stríð og kliður (2021). Hann velti fyrir sér sambandinu á milli loftslags, tækni og hugarflugs okkar mannanna.

Kristbjörg M. Kristinsdóttir hjá Stefni fræddi viðstadda um hvernig mat á frammistöðu fyrirtækja í tengslum við sjálfbærni hefur áhrif á fjárfestingarvilja. Hún benti á að fyrirtæki, sem taka sjálfbærnina föstum tökum, hafa oftar en ekki greiðari aðgang að fjármagni og standa því styrkari fótum, rekstrarlega séð.

Að endingu stýrði Hlédís svo áhugaverðu pallborði þar sem fulltrúar fjögurra ólíkra fyrirtækja mættust: Andri Guðmundsson hjá VAXA, Halldór Guðmundsson hjá Te og kaffi, Jónína Þóra Einarsdóttir hjá Steypustöðinni og Steinunn Jónsdóttir hjá Verði. Þau voru öll með mótaða og skýra sýn á sjálfbærnimálin og sammála um að sjálfbærni og góður rekstur væru einfaldlega sami hluturinn.