Arion banki með framúrskarandi einkunn í sjálfbærni að mati Reitunar

Arion banki með framúrskarandi einkunn í sjálfbærni að mati Reitunar

Höfuðstöðvar Arion banka, Borgartúni 19 - myndHöfuðstöðvar Arion banka, Borgartúni 19

Arion banki hlaut, líkt og síðustu fjögur ár, framúrskarandi einkunn í UFS áhættumati Reitunar og er í flokki A3. Matið byggir á árangri bankans í tengslum við sjálfbærni, þ.e. á sviði umhverfis- og félagsþátta og stjórnarhátta. Bankinn viðheldur 90 stigum af 100 mögulegum og heldur því sem fyrr í við auknar kröfur sem gerðar eru í matinu milli ára. 90 stig er mesti fjöldi stiga sem Reitun hefur gefið og er bankinn í hópi fjögurra annarra útgefanda sem eru í flokknum A3, en um fjörutíu íslenskir útgefendur hafa verið metnir.

Í niðurstöðum Reitunar kemur meðal annars fram að bankinn vinni eftir viðmiðum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi (UN PRB) og að sjálfbærnimál séu með formlegum hætti hluti af stjórnskipulagi bankans. Bankinn hafi nú þegar náð góðum árangri í að draga úr umhverfisáhrifum frá eigin rekstri og að helstu tækifæri banka liggi í því að draga úr losun frá lána- og eignasafni. Þá segir að Reitun meti það sem jákvætt skref að bankinn hafi skuldbundið sig til að setja losunarmarkmið byggð á vísindalegum grunni (SBTi) ásamt því að hafa undirritað aðild að Net-Zero Banking Alliance (NZBA), samtökum banka á alþjóðavísu á vegum Sameinuðu þjóðanna. Bankinn hefur þegar birt útreikninga á fjármögnuðum útblæstri eftir aðferðafræði PCAF og mótað sér markmið um samdrátt í kolefniskræfni fyrir sjö atvinnugreinar.

Arion banki hefur uppfært grænu fjármálaumgjörðina sína í sjálfbæra umgjörð og býður upp á vörur og þjónustu sem styðja við sjálfbærni. Fram kemur í mati Reitunar að Arion banki haldi áfram að sinna mannauði sínum á framúrskarandi máta, að sjálfbærni sé í hávegum höfð innan bankans og að stefnt sé að frekari árangri á þessu sviði.

Sjá meðfylgjandi samantekt frá Reitun á helstu niðurstöðum.

UFS reitun – samantekt á niðurstöðum 2024