Sjálfbærni er lykillinn að viðskiptasamböndum framtíðar

Sjálfbærni er lykillinn að viðskiptasamböndum framtíðar

Sjálfbærni er lykillinn að viðskiptasamböndum framtíðar - mynd
Hlédís Sigurðardóttir, forstöðumaður sjálfbærni hjá Arion banka. - mynd
Hlédís Sigurðardóttir, forstöðumaður sjálfbærni hjá Arion banka.

Ný löggjöf um sjálfbærni snertir öll fyrirtæki, stór sem smá

Þessi misserin gengur yfir okkur flóðbylgja nýrra laga og reglna um sjálfbærni fyrirtækja sem eiga rætur sínar að rekja til Evrópusambandsins. Mörgum finnst erfitt að fá yfirsýn yfir þennan sístækkandi frumskóg regluverks og skyldi engan undra.

Hlédís Sigurðardóttir er forstöðumaður sjálfbærni hjá Arion banka og fylgist grannt með framvindunni á sviði sjálfbærni innan Evrópu. „Stór félög og fjármálafyrirtæki verða fyrir beinum áhrifum af regluverkinu en hins vegar eru áhrifin á lítil og meðalstór félög ekki eins augljós,“ segir hún. „Helstu áhrifin á þau eru að stórir aðilar á markaði treysta í auknum mæli á góða upplýsingagjöf frá þeim sem minni eru og taka jafnframt ákvarðanir út frá árangri þeirra og framgangi í tengslum við sjálfbærni. Það mun án efa hafa áhrif á samkeppnisstöðu minni og meðalstórra fyrirtækja.“

Nauðsynlegt að horfa langt fram í tímann

Arnar Sveinn Harðarson, lögfræðingur og verkefnastjóri hjá Arion banka, tekur í sama streng og Hlédís. Hann segir ákvæði nýrrar tilskipunar ESB um sjálfbærniupplýsingagjöf fyrirtækja (CSRD) gera ríkar kröfur um birtingu á sjálfbærniupplýsingum.

„Til að byrja með nær tilskipunin einungis til stórra félaga en með tíð og tíma einnig til lítilla og meðalstórra félaga sem eru skráð á markað. Líklega gerist það árið 2027 og þá fyrir reikningsárið 2026. Því er ekki seinna vænna fyrir slík félög að byrja að huga að aukinni upplýsingagjöf um sjálfbærni í starfsemi sinni.“

„Að auki er unnið að þróun einfaldaðra staðla fyrir lítil og meðalstór félög sem þurfa ekki að birta upplýsingar samkvæmt CSRD.“ Arnar segir að staðlarnir verði valfrjálsir en að þeir geti gagnast litlum og meðalstórum félögum til að sýna fram á sjálfbæra starfshætti án þess að þurfa að hlíta íþyngjandi upplýsingaskyldu CSRD.“

„Það kemur sér því vel að leggja strax grunn að öflugri gagnaöflun og vera þannig undirbúin fyrir samtal um sjálfbærni í rekstri, t.a.m. við viðskiptavini eða stærri félög í aðfangakeðjunni sem búa við ríkari upplýsingaskyldur. Slíkt gæti skipt sköpum í framtíðinni þegar kemur að því að viðhalda mikilvægum viðskiptasamböndum – og ekki síður við að grípa ný viðskiptatækifæri.“ Leiðbeiningar Nasdaq um UFS-upplýsingagjöf eða staðlar Global Reporting Initiative komi hér að góðu gagni.