Sjálfbær fyrirtæki standa styrkari fótum í samkeppninni

Sjálfbær fyrirtæki standa styrkari fótum í samkeppninni

Sjálfbær fyrirtæki standa styrkari fótum í samkeppninni - mynd

Með stóraukinni upplýsingagjöf á sviði sjálfbærni mun vægi sjálfbærninnar í viðskiptalífinu aukast enn frekar og sífellt meira er unnið með tölulegar upplýsingar og markmið. Hlédís Sigurðardóttir, forstöðumaður sjálfbærni og Arnar Sveinn Harðarson, lögfræðingur og verkefnastjóri hjá Arion banka benda á nokkrar ástæður fyrir því að félög af öllum stærðargráðum hafi langtímaávinning af því að huga að sjálfbærninni.

„Ávinningurinn er auðvitað í fyrsta lagi jákvæð áhrif á samfélagið og náttúruna. Það að nýta auðlindirnar okkar með ábyrgum hætti, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, virða mannréttindi og auka jafnrétti eru dæmi um þætti sem fyrirtæki ættu að leggja áherslu á og munu skila sér til baka, bæði í formi ánægðara starfsfólks, viðskiptavina og hluthafa, sem og fjárhagslega.“

„Í öðru lagi er það aðgangur félaga að fjármagni. Með því að sýna fram á sjálfbæra starfshætti eða ráðast í sjálfbær verkefni gætu fyrirtæki af öllum stærðargráðum mögulega aukið aðgang sinn að fjármagni og jafnvel opnað á nýja fjármögnunarmöguleika. Þetta á einnig við um lítil og meðalstór fyrirtæki.“ 

„Í þriðja lagi líta fjármálafyrirtæki í auknum mæli til sjálfbærniáhættu þegar þau ráðast í nýjar fjárfestingar. Félög sem geta sýnt fram á að áhætta tengd sjálfbærni sé tekin alvarlega standa vafalaust styrkari fótum en sambærileg félög sem hunsa slíka áhættu, og eru þar með álitlegri fjárfestingar.“

„Í fjórða lagi verða svokallaðar áreiðanleikakannanir á neikvæðum umhverfisáhrifum sífellt mikilvægari.“ Á grundvelli svokallaðrar CSDDD-tilskipunar, sem nýverið var samþykkt innan ESB, munu mjög stór fyrirtæki innan tíðar þurfa að kanna neikvæð áhrif starfsemi sinnar, dótturfélaga sinna og, síðast en ekki síst virðiskeðjunnar á umhverfi og mannréttindi.“ 

„Þessar nýju reglur munu hafa áhrif langt út fyrir gildissvið sitt,“ segir Hlédís. „ Mjög stór félög þurfa að greina, og, það sem meira er, bera aukna ábyrgð á mannréttinda- og umhverfisbrotum viðskiptafélaga sinna. Það er stór breyting.“

Fyrirtæki geti því skapað sér samkeppnisforskot með því að sýna fram á ábyrga starfsemi, og ættu að huga vel að sjálfbærninni verandi hluti af aðfangakeðju stærri félaga. 

Áframhaldandi reglusetning 

Umfang löggjafar í tengslum við sjálfbærni og sjálfbær fjármál hefur aukist hratt síðustu ár og þeirri þróun er ekki lokið. „ESB hefur sýnt í verki að sambandinu er mjög umhugað um þennan málaflokk og fátt sem gefur til kynna að hér verði látið staðar numið,“ segir Hlédís.

Með nýja regluverkinu fá stjórnvöld og Alþingi aðgang að áreiðanlegum sjálfbærniupplýsingum um fyrirtæki og geta nýtt þær til að móta lagakröfur, álögur og ívilnanir. Ávinningur fyrirtækja af því að leggja áherslu á sjálfbærni í rekstri mun líklega aukast jafnt og þétt eftir því sem regluverkið þróast með tíð og tíma.

„Svo má ekki gleyma því að þrýstingur frá neytendum, starfsfólki og aðfangakeðju eykst stöðugt í þá átt að fyrirtæki leggi sig fram um að stunda ábyrga og sjálfbæra starfshætti.“