Varnir gegn fyrirmælafölsunum og netsvikum

Tilraunum til fjársvika hefur fjölgað undanfarið, sem kallar á aukna áherslu á netöryggi.

Þú tilkynnir netsvik með því að senda okkur póst á netsvik@arionbanki.is.

Fyrirmælafalsanir

 
Svikahrappar falsa tölvupósta og senda á starfsfólk fyrirtækja, oft í nafni stjórnenda. Í póstinum, sem gjarnan er mjög trúverðugur, er viðtakandi síðan beðinn að framkvæma greiðslu á reikning í eigu þrjótsins.

Falsaður póstur sendur

Svikahrappur leggur mikla vinnu í undirbúning. Finnur t.d. út hvenær yfirmaður fari í frí og sendirí kjölfarið starfsmanni póst, í nafni yfirmanns, og biður hann að framkvæma millifærslu sem fyrst.

Pressa sett á starfsmann

Þrjóturinn ítrekar beiðnina, en tekur fram að ekki náist í hann til staðfestingar því hann sé í fríi.

Millifærsla framkvæmd

Starfsmaður lætur undan pressunni og millifærir á reikning í eigu svikahrappsins.

Komum í veg fyrir fyrirmælafalsanir

Það er mikilvægt að gera viðeigandi ráðstafanir til að minnka líkur á svikum. Hér fyrir neðan eru nokkur ráð til að verjast fyrirmælafölsunum:

  • Fræða starfsfólk um einkenni fyrirmælafalsana
  • Leggja áherslu á smáatriðin í fyrirmælum, t.d. netfang, birtingarnafn, greiðsluupplýsingar
  • Athuga hvort fleiri hafi fengið svipaðan póst
  • Ekki láta undan pressu, ítrekanir eru til þess fallnar að fá starfsfólkið til að gera mistök
  • Staðfesta greiðslubeiðnir með símtali og leggja áherslu á að tölvupóstur er ekki öruggur samskiptamáti
  • Staðfesta breyttar greiðsluupplýsingar birgja með símtali
  • Tryggja að greiðslusamþykktarferli sé til staðar, verklagsreglur séu uppfærðar og þeim fylgt

Lenti fyrirtækið í netsvikum?

Ef grunur leikur á að fyrirtæki hafi orðið fyrir netárás, eða einhvers konar svikum, skal hafa samband við viðskiptabanka þess. Í kjölfarið virkjar bankinn viðeigandi ferli með yfirvöldum og öðrum bönkum, leitast við að stöðva svikin og endurheimta féð.

Tilkynna netsvik

Þú tilkynnir netsvik með því að senda okkur póst á netsvik@arionbanki.is. Einnig er mikilvægt að hafa samband við lögregluna með því að senda póst á netfangið abendingar@lrh.is.

Hægt er að kynna sér netsvik nánar á eftirtöldum vefsíðum:

Vefveiðar

 
Svikahrappar senda fólki tölvupóst eða smáskilaboð og reyna að fá það til að smella á slóð, hlaða niður hugbúnaði eða opna viðhengi. Markmiðið er að komast yfir notendanöfn, lykilorð, reikningsupplýsingar, leyninúmer bankareikninga, greiðslukortanúmer, CVC-númer og fleiri viðkvæmar upplýsingar.

Fölsk skilaboð móttekin

Viðtakandi fær falskan póst eða smáskilaboð sem virðist vera frá heiðvirðu fyrirtæki og er hvattur til að smella á hlekk. Móttakandi smellir á hlekkinn og lendir á falskri síðu sem virðist traustverðug.

Upplýsingum stolið

Á fölsku vefsíðunni er beðið um viðkvæmar upplýsingar s.s. notendanafn, lykilorð, leyninúmer, kortaupplýsingar eða CVC-númer.

Upplýsingar notaðar  

Svikahrapparnir nota upplýsingar til að stela fé eða til annars konar svika. 

Hvernig má koma í veg fyrir vefveiðar?

Það er mikilvægt að þú þekkir einkenni vefveiða svo þú getir forðast þau. Hér fyrir neðan eru sex ráð sem gott er að hafa í huga:

  • Mundu að tölvupóstarnir, vefsíðurnar og skilaboðin geta verið mjög trúverðug. Þau innihalda þó falsaðar upplýsingar, eins og kennimerki fyrirtækja og nöfn starfsmanna.
  • Ekki deila öryggisupplýsingum með öðrum. Bankar, stofnanir og heiðvirð fyrirtæki biðja ekki um lykilorð, leyninúmer eða aðrar persónuupplýsingar í gegnum tölvupóst eða smáskilaboð.
  • Ekki slá inn notendanafn eða lykilorð á síður sem spretta upp eftir að smellt er á hlekki.
  • Notaðu tveggja þátta auðkenningu fyrir tækniþjónustur eins og tölvupóst, Facebook og aðrar persónulegar þjónustur.
  • Uppfærðu hugbúnaðar- og öryggisuppfærslur á tölvunni, símanum og spjaldtölvunni.
  • Notaðu mismunandi lykilorð fyrir ólíkar þjónustuleiðir.