Útgáfuáætlun Arion árið 2025

Áætlun Arion banka um fjármögnun á markaði árið 2025 á innlendum og erlendum vettvangi er eftirfarandi:

Sértryggð skuldabréf

Arion banki áætlar að halda útboð sértryggða skuldabréfa í hverjum mánuði. Heildarfjárhæð útgáfu sértryggðra skuldabréfa mun ráðast af eftirspurn eftir íbúðarlánum og fjármögnunarþörf bankans. Að jafnaði mun útboð sértryggðra skuldabréfa fara fram fyrsta miðvikudag hvers mánaðar og verða útboð tilkynnt í fréttaveitu Nasdaq Iceland.

Hvort af útboði sértryggðra skuldabréfa verður ræðst m.a. af markaðsaðstæðum hverju sinni og þörf bankans fyrir fjármögnun hverju sinni. Arion banki leggur áherslu á seljanleika sértryggðra skuldabréfa og eru Landsbankinn, Íslandsbanki og Kvika banki viðskiptavakar sértryggðra skuldabréfa bankans. Viðskiptavakar hafa aðgang að verðbréfalánum.

Almenn skuldabréf í íslenskum krónum

Arion banki stefnir á að gefa áfram út óveðtryggð skuldabréf í krónum. Tímasetning ræðst af markaðsaðstæðum en fyrirhugað er að halda tvö útboð á árinu 2025.

EMTN fjármögnun

Bankinn stefnir að því að ráðast í útgáfu markflokks óveðtryggðs skuldabréfs í samræmi við Euro Medium Term Note (EMTN) skuldaramma bankans á árinu 2025. Bankinn mun einnig gefa út smærri útgáfur eftir því sem markaðsaðstæður leyfa og ef þörf er á slíku við lausafjárstýringu.

Óveðtryggð skuldabréf sem kunna að vera gefin út á árinu munu flokkast sem ótryggð skuldabréf eða SP skuldabréf (e. Senior Preferred notes) samkvæmt ákvæði í grein 72b(2) í reglugerð Evrópusambandsins nr. 575/2013.

Bankinn mun skoða að gefa út skuldabréf sem teljast til eiginfjárþáttar 2 í samræmi við markmið um hagstæða samsetningu eiginfjárgrunns.

Ekki er gert ráð fyrir útgáfu SNP skuldbréfa (e. Senior Non Preferred notes).
 

Arion banki stefnir að því að halda áfram að auka fjölbreytni í fjármögnun. Bankinn mun skoða aðra fjármögnunarkosti og fjölga fjármögnunarleiðum sé það hagfellt fyrir bankann. Upphæðir og tímasetningar slíkrar fjármögnunar fara eftir markaðsaðstæðum og viðtökum fjárfesta almennt.

Arion banki áskilur sér rétt til að breyta þessari áætlun, þ.m.t. fella niður, fjölga eða breyta útboðsdögum, breyta áætlaðri útgáfufjárhæð og gera aðrar breytingar eins og þörf er á, án fyrirvara.