Sjálfbær fjármálaumgjörð
Arion banki hefur gefið út sjálfbæra fjármálaumgjörð. Hún tekur til fjármögnunar bankans, innlána og lánveitinga sem flokkast sem umhverfis- og/eða félagslega sjálfbær. Nýja umgjörðin leysir af hólmi græna fjármálaumgjörð bankans sem kom út árið 2021 og hefur nýst vel, m.a. við veitingu grænna lána og útgáfu grænna skuldabréfa. Meðal helstu nýjunga í fjármálaumgjörðinni eru félagslegir flokkar en undir þá falla verkefni sem hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Þá fær hringrásarhagkerfið aukna vigt og eins er skerpt á flokkun grænna verkefna frá fyrri umgjörð.
Samhliða útgáfu sjálfbæru fjármálaumgjarðarinnar er birt skýrsla með uppfærðri aðferðafræði við útreikninga á grænu íbúðarhúsnæði sem verkfræðistofan COWI vann fyrir bankann. Umgjörðin hefur hlotið álit frá óháðum aðila, ISS Corporate, sem mat gæði hennar m.a. út frá framlagi til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og hæfi verkefna út frá tæknilegum matsviðmiðum flokkunarkerfis Evrópusambandsins á sjálfbærri starfsemi. Deutsche Bank veitti Arion banka ráðgjöf við mótun sjálfbæru fjármálaumgjarðarinnar.
Arion banki hefur sett sér metnaðarfulla umhverfis- og loftslagsstefnu og vill leggja sitt af mörkum til að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu og náð markmiðum ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040. Bankinn hefur lagt áherslu á sjálfbært vöruúrval og býður meðal annars upp á græn íbúðarlán, bílalán, innlán og fyrirtækjalán. Nýja umgjörðin mun nýtast við frekari vöruþróun á sviði sjálfbærrar bankaþjónustu og við útgáfu sjálfbærra skuldabréfa.
Sjálfbær fjármálaumgjörð Arion banka
Græn skuldabréf - Endanlegir skilmálar
ARION 26 1222 GB Final Terms Tranche 3