Ávöxtun á liðnu ári og áherslur fjárfestingarstefnu Lífeyrisauka 2024

Ávöxtun á liðnu ári og áherslur fjárfestingarstefnu Lífeyrisauka 2024

Undanfarin ár á fjármálamörkuðum hafa verið afar sveiflukennd. Árið 2021 var sem dæmi með þeim bestu frá upphafi sjóðsins en árið 2022 markar eitt mest krefjandi ár á fjármálamörkuðum frá fyrri hluta síðustu aldar. Árið 2023 einkenndist af töluverðum markaðssveiflum, bæði á erlendum og innlendum mörkuðum. Innlend hlutabréf lækkuðu þó töluvert meira en erlend hlutabréf og skuldabréf. Markaðsaðstæður síðustu ára undirstrika mikilvægi þess að vera með dreift eignasafn til þess að standast sveiflur á mörkuðum. Lífeyrisauki leggur upp úr því að fjárfesta í ólíkum eignaflokkum, atvinnugreinum og landsvæðum til þess að dreifa áhættu sem mest.

Þróun markaða

Á síðasta ári skildi nokkuð á milli ávöxtunar innlendra og erlendra hlutabréfamarkaða. Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands (OMXI15CAP) lækkaði um -1,5% en til samanburðar hækkaði heimsvísitala hlutabréfa (MWXO) um 21,8% í bandaríkjadal en um 16,6% á sama tímabili í íslenskum krónum. Íslenski markaðurinn fylgdi þeim erlenda framan af ári en á vormánuðum fóru leiðir að skilja. Það orsakaðist m.a. af neikvæðum fréttum af stærstu félögunum á íslenska hlutabréfamarkaðnum en ávöxtun á erlendum hlutabréfamörkuðum var einkum drifin áfram af fáum stórum tæknifélögum í kjölfar væntinga um vöxt og tækniþróun ásamt aukinni notkun á gervigreindar.

Seðlabanki Íslands hefur hækkað vexti frá vormánuðum 2021 en nú virðist sjá fyrir endann á hækkunarferlinu. Stýrivextir standa nú í 9,25% eftir að hafa hækkað um 3,25 prósentustig á árinu 2023. Nafnávöxtun verðtryggðra ríkisskuldabréfa var á bilinu 1,6% til 6,3% á árinu en óverðtryggðra 3,6% til 6%. Hækkun stýrivaxta á árinu og aðrir óvissuþættir í efnahagsmálum leiddi til þess að ávöxtunarkrafa skuldabréfa hækkaði og þar með lækkaði virði þeirra.

Horft fram á við, geta tækifæri myndast á innlenda hlutabréfamarkaði eftir miklar lækkanir líkt og sáust á síðasta ári en þá býðst fjárfestum að kaupa hlutabréf á hagstæðari verðkennitölum. Hið sama má segja um skuldabréfamarkaðinn þar sem fjárfestum býðst nú að kaupa skuldabréf á mun hærri ávöxtunarkröfu en stóð til boða í lágvaxtaumhverfi síðustu ára. Horfur til lengri tíma eru nokkuð góðar með hjaðnandi verðbólgu og með auknum líkum á að vaxtahækkunarferli Seðlabanka, bæði hér heima og úti, sé lokið. Þó er vert að nefna að ríkjandi óvissa vegna eldgoss og jarðhræringa á Reykjanesi síðustu daga getur vissulega haft mikil áhrif á innlenda markaði.

Ávöxtun 2023

Nafnávöxtun fjárfestingarleiða Lífeyrisauka var á bilinu 5,5% til 12,7% og raunávöxtun -2,3% til 4,4% þar sem verðbólga hefur verið þrálát. Þær fjárfestingarleiðir sem vega þyngst í erlendum hlutabréfum skiluðu hæstu ávöxtun á árinu eins og Lífeyrisauki erlend verðbréf sem er ein af fjölbreyttu fjárfestingarleiðum Lífeyrisauka. En Lífeyrisauki 1 er sú leið er tilheyrir Ævilínu sem hefur mest vægi erlendra hlutabréfa og sú leið sem skilaði næst hæstu ávöxtun yfir árið 2023.

Hér fyrir neðan má sjá ávöxtun á ársgrundvelli til 10 ára m.v. 31.12.2023. 10 ára nafnávöxtun er á bilinu 5,1% til 7,4% og raunávöxtun 1,3% til 3,5%.

Fjárfestingarstefna 2024

Starfsstjórn Lífeyrisauka endurskoðar fjárfestingarstefnu sjóðsins að minnsta kosti árlega og hefur nú undirritað nýja fjárfestingarstefnu fyrir árið 2024. Síðustu ár hefur verið lögð áhersla á að auka vægi og áhættudreifingu erlendra eigna. Í nýrri stefnu eru helstu breytingar þær að vægi erlendra sérhæfðra fjárfestinga er aukið en á móti er dregið úr vægi erlendra hlutabréfa, vægi erlendra eigna helst því óbreytt á milli ára. Fjárfestingarstefna sjóðsins í heild er birt á vefsíðu sjóðsins en hana má nálgast hér.

Markmið um hlutfall eignaflokka hjá Lífeyrisauka 1, 2, 3 og 4 breytast eins og hér segir:

  • Innlend skuldabréf óbreytt í öllum fjárfestingarleiðum
  • Innlend hlutabréf óbreytt í öllum fjárfestingarleiðum
  • Erlend hlutabréf óbreytt í öllum fjárfestingarleiðum
  • Erlend skuldabréf lækka í:
    – 2% í 1% hjá Lífeyrisauka 1
    – 2% í 1% hjá Lífeyrisauka 2
    – 3% í 2% hjá Lífeyrisauka 3
    – Óbreytt hjá Lífeyrisauka 4
  • Erlendar sérhæfðar fjárfestingar hækki úr:
    – 7% í 8% hjá Lífeyrisauka 1
    – 7% í 8% hjá Lífeyrisauka 2
    – 5% í 6% hjá Lífeyrisauka 3
    – Óbreytt hjá Lífeyrisauka 4

Markmið um hlutfall eignaflokka hjá Lífeyrisauka - Erlend verðbréf er óbreytt á milli ára.

 

Greinasafn

14. febrúar 2024

Fræðslufundur

Fræðslufundi um Lífeyrisauka, viðbótarlífeyrissparnað Arion, verður streymt á Facebook síðu Arion...

LESA NÁNAR

31. mars 2023

Rafræn yfirlit

Nýlega samþykkti Alþingi breytingar á lífeyrissjóðalögunum sem varða m.a. upplýsingagjöf til...

LESA NÁNAR