Vandfundið jafnvægi hagsmuna í nútíð og framtíð

Vandfundið jafnvægi hagsmuna í nútíð og framtíð

Arion banki gaf nýverið út Lífeyris­­bókina. Þar er að finna grein sem ber heitið Vandfundið jafnvægi hagsmuna í nútíð og framtíð eftir Snædísi Ögn Flosadóttur, forstöðumann í sölu og þjónustu fagfjárfesta hjá Arion banka. Snædís fer þar yfir kosti og sögu viðbótarlífeyrissparnaðar.

Viðbótarlífeyrissparnaður er hentug leið til að auka tekjur og spara um leið. Þú leggur fyrir 2% eða 4% af launum í viðbótarlífeyrissparnað og færð 2% launahækkun í formi mótframlags frá launagreiðanda þínum í sparnaðinn.

Hér má finna útdrátt úr greininni en hún er aðgengileg í heild sinni í Lífeyrisbókinni.

Vandfundið jafnvægi hagsmuna í nútíð og framtíð

Þegar viðbótarlífeyrissparnaði var komið á var ég 16 ára, líkt og aðrir unglingar á þeim tíma vann ég samhliða skóla og hafði í raun furðu góðar tekjur upp úr því krafsi. Ég bar þó ekki gæfu til að hefja slíkan sparnað fyrr en um fjórum árum seinna. Rökin voru einföld. Ég hafði að mínu mati ekki efni á að missa neinar tekjur, var tortryggin gagnvart þessu nýja sparnaðarformi og síðast en ekki síst var alveg ferlega langt þangað til ég yrði 60 ára. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og samkvæmt nýjustu tölum greiðir um 63% af vinnuafli í sparnaðarformið og er ungt fólk alls engir eftirbátar.

Opnað fyrir frekari útgreiðsluheimildir

Þó svo að markmið sparnaðarins sé að leggja fyrir til efri áranna hefur einnig verið opnað á að nýta sparnaðarformið á fyrri hluta æviskeiðsins. Á árinu 2014 var ákveðið að heimila einstaklingum að nýta viðbótarlífeyrissparnað skattfrjálst til að greiða niður íbúðarlán. Sú heimild hefur verið framlengd fjórum sinnum og samkvæmt núgildandi framlengingu stendur úrræðið til boða til ársloka 2024.

„Þú getur nýtt viðbótarlífeyrissparnað skattfrjálst til að greiða niður íbúðarlánið þitt.“

Þá stendur fyrstu íbúðarkaupendum til boða að nýta allt að 5 milljónir króna skattfrjálst yfir 10 ára tímabil til fasteignakaupa. Sú heimild hefur nú verið útvíkkuð enn frekar svo að hún nái einnig til þeirra hópa sem ekki hafa átt fasteign í fimm ár eða lengur og eru undir ákveðnum tekjuviðmiðum.

Kostir viðbótarlífeyrissparnaðar þegar starfslokum er náð

Það má hins vegar ekki gleyma tilgangi þessa sparnaðar, sem er að auka við tekjur fólks þegar eftirlaunaaldri er náð. Kostir þess að eiga viðbótarlífeyrissparnað þegar kemur að starfslokum eru margir. Má þar helst nefna sveigjanleikann og frelsið þar sem sjóðfélagi getur hagað útgreiðslum eins og hann telur henta sér best. Þá erfist viðbótarlífeyrissparnaður að fullu til maka og barna við fráfall og komi til örorku á sjóðfélagi rétt á að fá viðbótarlífeyrissparnaðinn greiddan samkvæmt ákveðnum reglum. Þá er viðbótarlífeyrissparnaðurinn jafnframt nú eina séreignin sem ekki skerðir greiðslur frá Tryggingastofnun þegar þar að kemur.

Mikilvægt að hvetja sjóðfélaga til að huga snemma að sparnaði

Í ljósi þeirra möguleika sem bjóðast á að nýta viðbótarlífeyrissparnað til annars en lífeyris á efri árum er þeim mun mikilvægara að huga snemma að sparnaði. Þær breytingar sem hafa verið gerðar á sparnaðarforminu undanfarin ár hafa á vissan hátt fært viðbótarlífeyrissparnað nær ungu fólki og þar með aukið áhuga þess og þekkingu. Ég er þess fullviss að ungt fólk í dag, ólíkt mér árið 1999, horfir ekki á viðbótarlífeyrissparnað sem skerðingu á tekjum eða eitthvað sem þarf að huga að þegar sextugsaldurinn nálgast. Enda viðbótarlífeyrissparnaður einn hagstæðasti sparnaður sem völ er á vegna mótframlags atvinnurekanda. Hlutfall þeirra sem nýta sér sparnaðinn er því þrátt fyrir allt furðu lágt og því mikilvægt að við sem þekkjum til hvetjum fólk til að kynna sér þetta hagstæða sparnaðarform.

„Viðbótarlífeyrissparnaður er einn hagstæðasti sparnaður sem völ er á.“

Greinasafn

14. febrúar 2024

Fræðslufundur

Fræðslufundi um Lífeyrisauka, viðbótarlífeyrissparnað Arion, verður streymt á Facebook síðu Arion...

LESA NÁNAR

31. mars 2023

Rafræn yfirlit

Nýlega samþykkti Alþingi breytingar á lífeyrissjóðalögunum sem varða m.a. upplýsingagjöf til...

LESA NÁNAR