Ég þurfti að öðlast virðingu og traust

Sunna Björg Helgadóttir hefur verið í stjórnunarstörfum nánast frá útskrift úr BS námi sínu í efna- og vélarverkfræði frá Háskóla Íslands. Hennar magnaði ferill hófst í álverinu í Straumsvík þar sem hún starfaði á sumrin meðfram námi en fljótlega eftir útskrift úr verkfræðinni fékk hún svo starf aðstoðarframkvæmdastjóra Rafgreiningar í álverinu. Meðfram þeim störfum kláraði hún M.Sc. gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík en Sunna starfar nú sem framkvæmdastjóri Tæknisviðs hjá HS orku. Áður en hún hóf störf þar var hún einnig framkvæmdastjóri innan Alvotech.

Ung kona í stjórnendahlutverki

Það er óhætt að segja að ferill Sunnu sé aðdáunarverður og það sem skín strax í gegn er hvernig hún sem ung kona hefur setið í stjórnendahlutverki í stórum fyrirtækjum sem flestir myndu líta á sem heim karla frekar en ungra kvenna. Það er því virkilega áhugavert að setjast niður með Sunnu og heyra frá hennar reynslu í heimi miðaldra kúreka með iðnaðarhjálma.

Sunna lýsir starfi sínu í álverinu í Straumsvík sem krefjandi en skemmtilegu og segist hafa þurft að leggja sig mikið fram við að sanna sig sem ung kona. Það sem hjálpaði Sunnu var sú staðreynd að hún hafði sjálf gengið í mörg þeirra starfa sem hún var farin að stýra sem aðstoðarframkvæmdastjóri. Hún vissi því um hvað verið var að tala og gat tjáð sig af þekkingu og styrk þegar hún ræddi við mun eldri menn.

Sterkar kvenfyrirmyndir

Hún segist alltaf gefa ungum konum sem hún starfar með þau ráð að þora að stíga út fyrir þægindarammann, tala af þekkingu og vera óhræddar við að koma fram við alla á jafningjagrundvelli. Sunna hefur oft verið eina konan í sínu teymi og það á við á sumum sviðum enn í dag. Hún segir þó að sterkar kvenímyndir og fyrirmyndir hafi skipt sköpum fyrir hana í sínum störfum og nefnir þar sérstaklega brautryðjandann Rannveigu Rist sem studdi hana og mótaði.

Það er greinilegt að Sunna hefur sjálf haldið áfram að ryðja brautina í kjölfar Rannveigar Rist. Hún telur að viðmót og umhverfið hafi breyst að einhverju leyti hvað varðar kynin frá því hún hóf störf þar sem yngri kynslóðin er að breytast en við eigum þó enn langt í land.

Framúrskarandi konur

Það sem Sunna vill þó frekar beina sjónum að eru konurnar sjálfar og hvernig þær geta leitt breytingarnar sjálfar. Þær konur sem Sunna hefur hitt fyrir í sínum störfum hafa nær allar verið framúrskarandi konur sem eru ekki eftirbátar neins. Hún segist þó hafa tekið eftir því að konur séu að eðlisfari tilbúnari að einblína á bæði kosti sína og galla en að það sama sé ekki uppi á teningnum hjá flestum karlmönnum.

Konur eiga að bera höfuðið hátt, beina athygli sinni og annarra að þeim miklu og frábæru hæfileikum sem þær bera.

Þrátt fyrir að það sé að sjálfsögðu mjög góður mannkostur að hafa, að vera meðvitaður um bæði kosti sína og galla, þá segir Sunna að það sé ekki alltaf þörf á því að einblína á gallana. Hún segir að konur eigi að bera höfuðið hátt, beina athygli sinni og annarra að þeim miklu og frábæru hæfileikum sem þær bera og leyfa hinu að liggja á milli hluta. Það er á allra vitorði að enginn er góður í öllu og því er ekki þörf á því að beina athyglinni þangað.

Með sjálfbærni að leiðarljósi

Í störfum sínum hjá HS orku starfar Sunna í blönduðu teymi af sérfræðingum og segir að viðmótið í stjórnendateyminu sé frábært og þar sé ekki að finna neinn mun á kynjunum. Starfið er fjölbreytt en það sem er alltaf í forgrunni og efst í huga allra er sjálfbærni og nýting afurða. Sumir vilja meina að sjálfbærni sé oftar í huga kvenna og að í samfélaginu í heild séu kvenmenn viljugri og duglegri við að halda fána umhverfisins á lofti en innan HS Orku ríkir greinilega mikill jöfnuður þegar kemur að þessum málum.

Mikilvægast er að vera hugrakkar og treysta eigin innsæi.

Spurð að ráðum til ungra kvenna segir Sunna að mikilvægast sé að vera hugrakkar og treysta eigin innsæi. Hún segist aldrei hafa hikað eða hugsað út í það að hún stefndi á frama í karllægum geira og að það hafi hjálpað henni mikið að þora að láta vaða og vera sýnileg og treysta á sína eigin þekkingu og kunnáttu.Við þökkum Sunnu fyrir frábært spjall og fyrir að gefa sér tíma til þess að segja okkur frá sinni áhugaverðu vegferð sem er að sjálfsögðu rétt að byrja.

Við óskum henni áframhaldandi velgengni og hlökkum til að halda áfram að fylgjast með henni stýra ferðinni á þeim vettvangi sem hún velur sér.