Hin eilífa barátta við tímann

Hin eilífa barátta við tímann

Hin eilífa barátta við tímann - mynd

„Hvaða áramótaheit strengdir þú?“ Fyrsti vinnudagur á nýju ári felur undantekningalaust í sér sömu spurninguna við kaffivélina. Ég á alltaf erfitt með þessa spurningu því ég strengi sömu áramótaheitin ár eftir ár og þyki því óhemju óspennandi. Ástæðan er ekki sú að markmiðin náist ekki og því þurfi að endurtaka sama leik að ári heldur sú að í grunninn eru alltaf sömu atriðin sem ég vil viðhalda og leggja áfram áherslu á. Góða líkamlega og andlega heilsu, góð og uppbyggileg tengsl við vini og vandamenn og fjárhagslegt heilbrigði til langtíma. Ef vel er að gáð miða þessi markmið í raun öll að því sama, ánægjulegum og gefandi lífeyrisárum. Nú eru tæp þrjátíu ár í að ég nái lífeyristöku aldri og því má vera að það þyki skjóta skökku við að horfa til þess tíma, en góð langtímamarkmið geta jafnframt byggt undir daginn í dag, eitt þarf ekki að útiloka annað. Að velta fyrir sér lífeyrissjóðnum sínum er í senn langtímamarkmið og áhugavert til skemmri tíma.

Aukinn áhugi

Á undanförnum árum höfum við séð aukinn áhuga á fjárfestingum sem hefur birst í verulega aukinni þátttöku og áhuga almennra fjárfesta í hlutabréfamarkaði. Sú þróun er afar ánægjuleg og til marks um aukna umræðu og þekkingu í samfélaginu. Lífeyrissjóðir eru jafnframt þátttakendur á þeim markaði og aukinn áhugi á fjárfestingum ætti því að hvetja til aukins áhuga á lífeyrissjóðum. Mikilvægt er að hafa í huga að stærsti sparnaður hins almenna fjárfestis liggur öllu jafna í lífeyrissjóði en þangað streymir árlega að jafnaði ígildi tveggja mánaðarlauna. Fjárfestingar lífeyrissjóða hafa áhrif víða, þeir fjárfesta m.a á skráðum markaði, þeim sama og fólk hefur veitt aukna athygli síðustu misseri. Þá fjárfesta lífeyrissjóðir einnig í áhugaverðum óskráðum verkefnum, innviðafjárfestingum og nýsköpun svo eitthvað sé nefnt, sem spennandi er að fylgjast með á sama tíma og slíkar fjárfestingar drífa áfram gróskumikið og öflugt atvinnulíf. Þá vitum við líka að fjárfestingar og hvert þeim er beint getur haft töluverð áhrif á þá framtíð sem við erum að móta, bæði hvað varðar umhverfis- og samfélagsmál og því mikilvægt að við séum meðvituð um hvar okkar stærsti sparnaður liggur og hvaða áhrif hann hefur.

Að nálgast upplýsingar

Hver er mín staða í dag og hvernig líta eftirlaunaárin út miðað við óbreyttar áherslur. Er samspil séreignar og samtryggingar eins og ég vil hafa það. Í hverju er lífeyrissjóðurinn minn að fjárfesta, hvernig er fjárfestingarstefna sjóðsins og stefna um ábyrgar fjárfestingar, hver hefur ávöxtunin verið. Allt þetta eru hlutir sem vert er að skoða árlega og tilvalið að setja inn sem árlegt áramótaheiti.

Upplýsingar um þína eigin stöðu má nálgast í lífeyrisgáttinni og á mínum síðum þíns lífeyrissjóðs nú eða í appi hjá þeim sjóðum sem þangað eru komnir. Lífeyris- og séreignarsjóðir birta svo hver fyrir sig ítarlegar upplýsingar á heimasíðum sínum um fjárfestingarstefnur, ávöxtun og fjárfestingar. Ólíkt hlutfall hlutabréfa og skuldabréfa sem og erlendra eigna svo eitthvað sé nefnt. Þá eru sjóðirnir einnig með stefnur um ábyrgar fjárfestingar með ólíkum áherslum sem áhugavert er að kynna sér. Þá taka bæði Fjármálaeftirlitið og Landssamtök lífeyrissjóða saman greinagóðar upplýsingar um ávöxtun, fjárfestingar og árangur lífeyrissjóða sem hentugar eru til samanburðar.

Hið árlega áramótaheit

Að setja sér sama markmið ár eftir ár þýðir ekki að markmiðið hafi ekki náðst árið áður heldur að um lífsstíl og stöðugleika sé að ræða. Að setja sér markmið fyrir árið 2024 og öll þau ár sem á eftir koma um að fylgjast með lífeyrissparnaðinum sínum er til marks um meðvitaða stefnu í lífinu. Að fylgja eftir sínum stærsta sparnaði, vita hvernig honum er ráðstafað, hvaðan ávöxtunin kemur og hvernig sparnaðurinn hefur áhrif, bæði á þitt eigið líf, atvinnulífið og samfélagið allt.

Snædís Ögn Flosadóttir,
forstöðumaður sölu og þjónustu fagfjárfesta hjá Arion banka

 

Viltu auka þekkinguna þína?

Fyrirvari

Upplýsingar sem birtast á þessari síðu eru markaðsefni í skilningi laga um markaði fyrir fjármálagerninga og er þeim miðlað í markaðslegum tilgangi.

Fjárfestingum í fjármálagerningum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta, svo sem hætta á að ekki verði um neina ávöxtun að ræða eða að höfuðstóll tapist. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um árangur í framtíð. Vakin er athygli á að ávöxtun getur aukist eða minnkað vegna gengisflökts gjaldmiðla. Á umfjöllun þessa skal ekki litið sem ráðleggingu eða ráðgjöf um að ráðast í eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.
Hvað varðar fjárfestingar í sjóðum er rétt að taka fram að í útboðslýsingu og lykilupplýsingum verðbréfasjóða og sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta er að finna nánari upplýsingar um viðkomandi sjóð, m.a. um áhættu og hvort umræddur sjóður telst verðbréfasjóður eða sérhæfður sjóður fyrir almenna fjárfesta. Varðandi þá sjóði sem er að finna á vefsíðu bankans undir yfirliti sjóða þá má nálgast útboðslýsingu, lykilupplýsingar o.fl. vegna viðkomandi sjóðs með því að smella á heiti sjóðs. Jafnframt er hægt að nálgast framangreind gögn í útibúum bankans.

Arion banki er helsti söluaðili sjóða Stefnis hf. sem er með starfsleyfi frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands sem rekstrarfélag verðbréfasjóða skv. lögum nr. 116/2021, um verðbréfasjóði og rekstraraðili sérhæfðra sjóða skv. lögum nr. 45/2020, um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Stefnir er dótturfélag Arion banka hf. Sjá nánari upplýsingar um sjóði Stefnis hf. á heimasíðu félagsins https://www.stefnir.is.