Yfirlit yfir helstu breytingar
á skilmálum Arion banka
Hér má sjá yfirlit yfir helstu breytingar á viðskiptaskilmálum Arion banka sem taka gildi 18. janúar 2025 fyrir núverandi viðskiptavini en strax fyrir nýja viðskiptavini.
Við hvetjum viðskiptavini okkar til að kynna sér nýju skilmálana vel.
Rétt er að hafa í huga að yfirlitið hér fyrir neðan er ekki tæmandi og sett saman í upplýsingaskyni. Ef misræmis gætir á milli yfirlitsins og þess sem fram kemur í viðkomandi skilmálum þá gilda skilmálarnir.
Helstu breytingar
Almennir viðskiptaskilmálar
- Bætt var við ákvæði um aðgang viðskiptavina að vildarkerfi.
- Skerpt var á heimildum bankans til að afhenda viðskiptavinum skjöl og yfirlit á rafrænu formi.
- Bætt var við ákvæði um hvaða skilmálar gilda ef misræmi er í upplýsingum í appi og netbanka.
- Bætt var við ákvæði um að gjöld vegna vara og þjónustu þriðja aðila, sem finna má í verðskrá bankans, geta tekið breytingum án fyrirvara.
- Bætt var við ákvæði um niðurfellingu umboða þar sem bankinn áskilur sér rétt til að fella niður umboð ef við teljum hættu á misferli, svikum, peningaþvætti eða sambærilegu, og ef við teljum að umboð sé ófullnægjandi eða meira en 24 mánuðir hafa liðið án þess að umboð hafi verið notað.
Almennir innlánsskilmálar
- Bætt var við ákvæði um að reikningsyfirlit sé aðgengilegt sjö ár aftur í tímann og þann tímafrest sem þú hefur til að gera athugasemdir við það.
- Bætt var við ákvæði um birtingu gjaldayfirlits sem felur meðal annars í sér að bankinn birtir þér a.m.k. einu sinni á ári yfirlit yfir öll gjöld sem þú hefur stofnað til.
- Bætt var við ákvæði um vaxtabreytingar innlánsreikninga sem taka strax gildi.
- Bætt var við ákvæði um sérreglur sem kunna að gilda um fjármagnstekjuskatt á reikningum barna.
- Bætt var við ákvæði um rétt bankans til að kalla eftir upplýsingum frá umboðshafa og takmarka eða loka fyrir aðgang umboðshafa.
- Gert skýrara að breytingar á gengi erlendra mynta taki gildi þegar í stað og án sérstakrar viðvörunar.
- Bætt var við ákvæði um aðgerðir sem bankanum er heimilt að grípa til vegna leiðréttinga á greiðslum á ranga reikninga. Þar kemur t.d. fram að ef reikningseigandi greiðir óvart inn á rangan reikning þriðja aðila, hvort sem er með millifærslu, skuldfærslu eða innborgun, verða greiðslurnar ekki leiðréttar af bankanum nema með samþykki móttakanda greiðslunnar.
- Bætt var við ákvæði um heimild bankans til að breyta fjárhæð yfirdráttarheimildar undir vissum kringumstæðum, t.d. ef grunur er um misnotkun, ef nauðsynleg gögn vantar eða ef vanefndir eru til staðar.
- Heimild bankans til að loka óvirkum reikningum er breytt þannig að tímabilið er stytt úr þremur árum í tvö ár.
- Bætt var við ákvæði um takmarkaða skaðabótaskyldu bankans vegna læsingar á reikningi eða frystingar á innstæðu, undir vissum kringumstæðum.
Almennir skilmálar innlánsreikninga
Debetkortaskilmálar
- Arion banka verður heimilt að endurnýja kort allt að tíu vikum áður en gildistími þeirra rennur út í stað sex vikna áður.
- Bætt hefur verið við almennri heimild bankans til að segja upp kortum korthafa, með tveggja mánaða uppsagnarfresti og án fyrirvara í ákveðnum tilvikum, til dæmis ef grunur er um misnotkun, ef vanefndir eru til staðar eða við andlát korthafa.
- Nú er ítarlegar kveðið á um hvernig bankinn stendur að uppgjöri á erlendum færslum greiðslukorta.
- Nú er að finna ítarlegri ákvæði um varðveislu korts þannig að óviðkomandi aðili geti ekki komist yfir það, sérstaklega hvað varðar rafræn veski og upplýsingar um persónulega auðkenningu þína.
- Af öryggisástæðum hefur bankinn nú rýmri heimildir til að loka á greiðslur og takmarka kortanotkun ófjárráða einstaklinga.
- Ítarlegri ákvæði er nú að finna um endurgreiðslur vegna endurkrafna.
- Einnig er að finna ítarlegri ákvæði um ábyrgð þína vegna óheimilaðra greiðslna. Til dæmis berð þú ábyrgð á öllum úttektum sem staðfestar eru með persónulegri auðkenningu þinni, einnig ef óviðkomandi aðili hefur komist yfir auðkenningu þína vegna þess að þú gættir hennar ekki nægjanlega vel.
- Með öryggissjónarmið að leiðarljósi var bætt við heimild bankans til að setja þak á fjárhæð greiðslna sem framkvæmdar eru með korti.
- Bætt var við ákvæði um að bankinn beri ekki ábyrgð á tjóni sem korthafi kann að verða fyrir geti hann ekki notað kort vegna galla í kortinu.
- Bætt var við ákvæði um vinnslu persónupplýsinga og persónuvernd.
Kreditkortaskilmálar
- Bætt var við heimild bankans gagnvart lögaðilum (fyrirtækjum og félögum) til að birta tilteknar upplýsingar eingöngu á vef bankans.
- Af öryggisástæðum var bætt við ákvæði um auðkenningu vegna fjar- eða rafrænna færslna.
- Ítarlegri ákvæði eru nú í skilmálunum um ábyrgð á snertilausum færslum, m.a. um að korthafi ber ábyrgð á snertilausum greiðslum sem framkvæmdar eru eftir að kort týnist þar til kortið hefur verið tilkynnt glatað.
- Bætt var við heimild bankans til að breyta öryggiskröfum án fyrirvara.
- Til upplýsingar er nú ítarlegar kveðið á um hvernig bankinn hagar uppgjöri á erlendum færslum greiðslukorta.
- Ítarlegri ákvæði er nú að finna um varðveislu korta þannig að óviðkomandi aðili geti ekki komist yfir það, sérstaklega hvað varðar kort í rafrænum veskjum og upplýsingar sem snúa að persónulegri auðkenningu korthafa.
- Bætt var við ákvæði um greiðslufyrirmæli, t.d. kemur fram að úttektir séu að jafnaði færðar samdægurs á reikning korthafa og að bankinn telst ekki hafa móttekið greiðslufyrirmæli fyrr en hann hefur móttekið allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að framkvæma greiðsluna.
- Ítarlegri ákvæði er nú að finna um heimildir bankans til að synja um heimild fyrir úttekt á korti, t.d. þegar kort hefur verið tilkynnt glatað eða stolið eða korthafi hefur farið yfir úttektarheimild kortsins og/eða hámarksúttektarheimild sína.
- Bætt hefur verið við ákvæði um takmarkanir á fjárhæð stakra greiðslna.
- Ítarlegri ákvæði er nú að finna um fríðindi, svo sem tryggingar og neyðarþjónustu, samkvæmt nánari upplýsingum á vefsíðu bankans. Bankanum er jafnframt heimilt að breyta, auka eða fella niður fríðindi án sérstakra tilkynninga.
- Ítarlegri ákvæði um endurgreiðslur vegna endurkrafna.
- Bætt hefur verið við almennri heimild bankans til að segja upp kortum korthafa, með tveggja mánaða uppsagnarfresti og án fyrirvara í ákveðnum tilvikum, til dæmis ef grunur er um misnotkun, ef vanefndir eru til staðar eða við andlát korthafa.
- Bætt var við heimild til að falla frá samningi innan fjórtán daga frá því samningur er gerður, ef korthafi er neytandi.